14.05.1926
Neðri deild: 79. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2078 í B-deild Alþingistíðinda. (1742)

125. mál, seðlaútgáfa

Jörundur Brynjólfsson:

Mig langar til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. fjrh., hvort þetta frv. er borið fram í samráði við stjórnir beggja bankanna. Það skiftir miklu máli, sjerstaklega að því er snertir inndrátt seðlanna. Á það hefir verið bent, að búið væri að draga inn svo mikið af seðlum, að ekki væri unt að taka meira af þeim úr umferð; og það, sem Íslandsbanki tæki úr umferð af seðlum, yrði Landsbankinn að lána út vegna viðskiftaþarfarinnar, annaðhvort sjálfur beint til þeirra, er peninganna þurfa nauðsynlega með, eða til Íslandsbanka. Og þess vegna skifti litlu þó Íslandsbanki væri undanþeginn þeirri skyldu, er á honum hvílir nú að draga inn 1 miljón kr. á yfirstandandi ári. En jeg vil leyfa mjer að benda á, að ríkissjóði getur ekki á sama staðið, hvernig unt þetta fer, því hann á þarna hagsmuna að gæta. Dragi Íslandsbanki inn seðlana eins og lög áskilja og Landsbankinn lánaði fjeð út, næmi það víst nær 60 þús. kr. tekjum, er ríkissjóði áskotnaðist, en þeirra fer hann alveg á mis, ef Íslandsbanki verður undanþeginn því að draga inn seðlana. Mjer hefir skilist, að svo geti farið, að Íslandsbanki eigi erfitt með að fullnægja lögunum um inndrátt seðlanna, og því kemur mjer í hug, hvort ekki mætti leyfa honum að draga inn aðeins helminginn af þeirri upphæð, sem lögin tiltaka.

Um gulltrygging seðla þeirra, er Landsbankinn gefur út, er ekki að ræða. Fyrst um sinn verður ríkissjóður að ábyrgjast seðlaútgáfu Landsbankans, og þar með eru þeir gulltrygðir.

Jeg get ekki fallist á brtt. hv. 2. þm. Reykv. (JBald). Um fyrri brtt. er það að segja að það ætti ekki að gera gyllingar til þess að hafa seðlaútgáfuna lengi í óreiðu, og síðari brtt. get jeg heldur ekki fallist á því jeg álít, að það gæti farið svo að það væri rjett að veita Íslandsbanka einhverja ívilnun um seðlainndráttinn, ef brýna nauðsyn ber til þess.