27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í B-deild Alþingistíðinda. (175)

1. mál, fjárlög 1927

Guðmundur Ólafsson:

Jeg bjóst ekki við því, að jeg þyrfti að þreyta hv. deild á því að hlusta á mig, en þar sem tveir hæstv. ráðherrar hafa mælt á móti brtt., sem mjer kemur við verð jeg að segja nokkur orð. Það er þá fyrst hæstv. fjrh. (JÞ). Hann hefir að flestu leyti hælt gerðum fjvn., nema að því leyti, að hún hafði lagt til að fella niður lánsheimildina til Boga Þórðarsonar, en aftur tekið upp aðra heimild til sýslumannsins í Húnavatnssýslu. Hæstv. ráðh. hafði ekki á móti því, að hægt væri að lána úr viðlagasjóði, en fann ástæðu til þess að vera á móti þessari lánsheimild, af því að sýslumaðurinn væri búinn að koma upp húsinu. Það mun hafa ýtt undir þennan sýslumann, að á síðasta þingi voru lán veitt tveimur sýslumönnum í þessu skyni, og jeg man, að að minsta kosti hæstv. forsætisráðherra var með þeim. Jeg get ekki sjeð muninn á því, eða að hverju leyti það er verra að veita þeim mönnum lán, sem þegar hafa bygt, heldur en þeim, sem ætla að byggja.

Sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu keypti mjög lítið hús, sem hann varð að stækka og breyta mikið, og varð það honum ærinn kostnaður. Jeg væri ekkert hissa á því, þó að stjórnin vildi ekki veita slík lán, ef ekki væri hægt að lána úr viðlagasjóði, en ef fje er til, þá skil jeg ekki, hvaða ástæðu hún hefir til þess að vera á móti þessum sýslumanni. Hæstv. forsrh. (JM) tók í sama strenginn, að vera á móti þessari lánsheimild, og þykir mjer það undarlegt, að hann skuli finna ástæðu til að vera þannig með sumum sýslumönnum, en móti öðrum. Hann bar það fyrir sig, að hann hefði ekki sjeð sjer fært að sinna beiðni prestsins á Ísafirði um helmingi hærra lán. En jeg vil benda hæstv. ráðh. á það, að þar er ólíku saman að jafna, því að það mundi ríkissjóður aldrei hafa fengið aftur nema að litlu leyti, og auk þess hefði það orðið til þess að auka útgjöld á fjárlögunum, en þetta kemur þeim ekki við. Jeg vil einnig taka það fram, að þessi sýslumaður fer ekki fram á eins góð kjör eins og þeir sýslumenn fengu; sem lán fengu í fyrra. Þetta lán á að borgast á 20 árum, en þeirra voru veitt til 30 ára. Mjer datt það í hug út af því, sem hv. 1. landsk. (SE) sagði, að hún getur verið eðlileg þessi óánægja út af skrifstofukostnaði sýslumanna. Af ýmsu, sem fram hefir komið, hygg jeg, að það geti verið, að þessu fje sje ekki sanngjarnlega skift milli þessara embættismanna, og dreg jeg þá ályktun einkum af þessum mismunandi undirtektum hæstv. stjórnar undir þessar lánbeiðnir sýslumanna. Jeg vildi láta það sjást, að jeg hafði tekið eftir þessum veðrabrigðum, þó að menn sjeu nú orðnir vanir áttaskiftum hjá þessum hæstv. ráðh.

Nú er það hv. deild, sem verður að skera úr því, hvort það er rjett að gera þannig upp á milli manna í samskonar embættum. Jeg hefi sjálfur enga brtt. flutt, en mjer kom þetta dálítið við, af því að það er minn sýslumaður, sem um er að ræða.