14.05.1926
Neðri deild: 80. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2086 í B-deild Alþingistíðinda. (1754)

125. mál, seðlaútgáfa

Jakob Möller:

Hæstv. fjrh. sagði, að jeg hefði gert fulllmikið úr þessari breytingu, sem varð á seðlaútgáfunni með inndrætti Íslandsbanka, meðan seðlaútgáfunni er ekki öðruvísi ráðstafað. Jeg sagði það, sem rjett er, að í stað gulltrygðra seðla eru gefnir út ógulltrygðir seðlar. (Fjrh. JÞ: Þetta er ekki alveg rjett). Jú, þetta er einmitt nákvæmlega rjett. Því að þótt Íslandsbanki sje skylt að selja ríkissjóði það gull, sem hann losnar við, eftir því sem það losnar frá því að gulltryggja seðla, þá er í fyrsta lagi engin skylda fyrir ríkissjóð að kaupa; en þó hann keypti, er það gull alls ekki til tryggingar þeim seðlum, sem gefnir eru út. Þeir eru ógulltrygðir, en gefnir út á ábyrgð ríkissjóðsins. Þótt ríkissjóður eigi eitthvert gull einhversstaðar geymt, þá breytir það engu. Það mundi hvergi vera talin fullnægjandi gulltrygging á seðlum, sem seðlabanki gæfi út, þótt það væri beinlínis gefið, að hann ætti svo og svo mikið gull, ef það gull er ekki sett til tryggingar seðlunum. Gulltryggingin er ekki til staðar, nema til sjeu ákvæði um, að gullið sje til tryggingar. En það er ekki hjer.

Þetta er kannske ekki höfuðatriðið, sem kemur hjer til greina, heldur er það miklu fremur annað, sem athuga þarf. Viðskiftum landsmanna er gert miklu erfiðara fyrir með því að koma seðlaútgáfunni þannig fyrir, að henni sje alveg óráðstafað, heldur en hún sje að meira leyti í höndum seðlabanka. Þær breytingar með inndrátt Íslandsbanka, sem farið er fram á eru, að í staðinn fyrir að seðlabankinn gefi út seðlana og hafi fulla ábyrgð á gulltryggingu þeirra, þá sje seðlaútgáfunni kastað út á gaddinn að nokkru leyti. — Hæstv. stjórn má ekki firtast, þó að jeg segi „að kasta út á gaddinn“ um það, sem henni er fengið í hendur; en hún veit það, hæstv. stjórn, að með þessum orðum, sem í lögunum eru, að seðlaútgáfan sje í höndum ríkisstjórnarinnar, þá er það ákaflega lítið, sem henni er fengið í hendur til þess að standa straum af henni. Og þó það fylgi, að ríkisstjórnin eigi að hlutast til um, að Landsbankinn gefi út seðla, þá er þess að gæta, að bankanum er ekki fenginn í hendur nokkur skapaður hlutur til þess að geta borið þá ábyrgð, sem fylgir seðlaútgáfunni. Þess vegna er seðlaútgáfan með þessu fyrirkomulagi fullkomlega út í loftið, eins og mjer hefir líka skilist koma allgreinilega fram í umræðunum um fyrirkomulag seðlaútgáfunnar. Og mjer skilst jafnframt, að ef nokkru af seðlunum er óráðstafað, þá sje því verra, sem meira er.