14.05.1926
Neðri deild: 80. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2090 í B-deild Alþingistíðinda. (1758)

125. mál, seðlaútgáfa

Fjármálaráðherra (JÞ):

Það var alls ekki mín meining að hafa neitt á móti, að brtt. hv. þm. Str. (TrÞ) gæti komist að. Jeg álít hana þinglega og alveg rjett fram borna. En verði hún samþykt, er ekki eftir neitt af greininni, sem ástæða er til að halda í lögum.

Hitt er misskilningur, að inndráttur Íslandsbanka eða undanþága frá inndrætti standi í nokkru sambandi við gengismálið. Sá inndráttur, sem hjer er um að ræða, hefir ekki minstu áhrif á seðlaveltuna í landinu. Hann þýðir ekkert annað en það að taka Íslandsbankaseðla úr umferð og setja Landsbankaseðla í staðinn. En vitanlega er það fjárhagslegur vinningur fyrir Íslandsbanka að fá eins árs frest með þennan inndrátt.

Ummæli mín um það, að hv. 3. þm. Reykv. (JakM) hafi gert fullmikið úr vöntun á gulltryggingu bygði jeg á því, að eftir lögunum frá 1922 og eftir því, sem þetta er framkvæmt, þá er gulltrygging fyrir nokkru af þessum ríkissjóðsseðlum, og gjald til ríkissjóðs fellur niður af jafnmikilli seðlafúlgu og gulltryggingunni nemur.