12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2098 í B-deild Alþingistíðinda. (1764)

15. mál, útsvör

Magnús Torfason:

Það er enginn vafi á því, að ástæðan til þess, að þetta frv. er fram komið, eru Reykjavíkurlögin frá 1924, og þá sjerstaklega þetta atriði um útsvar utansveitarmanna. Óánægjan með það er orðin ákaflega mikil; hún var fullmikil fyrra en jeg verð að segja það eftir því sem mjer er kunnugt, að sú óánægja hefir vaxið allmikið í ár, og til vitnis um það get jeg vísað til þingmálafundagerða úr Árnessýslu, þar sem sjerstaklega er talað um útsvarsmálið. Á þeim fundum, sem jeg var mættu, voru hvergi eins fastar raddir með neinum till. eins og með því að mótmæla atvinnuútsvörunum. Þetta er líka eðlilegt, því að kaupstaðirnir hafa dregið ennþá meira af fólki til sín nú í góðærinu heldur en áður, og því færri verða mennirnir eftir heima í sveitunum til að bera byrðarnar, en þær aukast ár frá ári, svo að menn fá ekki undir risið. Jeg er því ekki í neinum vafa um það, að viðtökur þingsins við frv. fara mikið eftir því, hvernig tekist hefir að greiða fram úr þessu atriði.

Jeg skoða nú svo, að hæstv. atvrh. hafi gert heiðarlega tilraun til að sljetta yfir þær misfellur, sem hjer eru, og að hann hafi hagað sjer sem nokkurskonar jafnaðarmaður eða jöfnunarmaður og frv. megi þess vegna skoðast sem einskonar sáttasamningur frá hans hendi. En ef frv. gengur fram eins og það er nú, þá myndu kaupstaðirnir hrósa happi, en sveitirnar telja, að þær hafi orðið að bera skaðann af því, og ástæðan til þess er sú, að stefna þess er röng. Það hefir verið allsherjarregla hjer á landi, að útsvar fylgdi lögheimili í sveitinni. Þetta er sú góða gamla venja, sem var allsráðandi hjer á landi, og þær undantekningar, sem komið hafa síðan, hafa aðeins orðið síðustu áratugi, og jeg veit ekki betur en að einmitt þessi regla sje viðurkend í flestum menningarlöndum, því jeg get ekki kannast við það, sem hæstv. atvrh. sagði, að það mundi vera líkt háttað um útsvarsálagningu á Norðurlöndum. Í Danmörku veit jeg, að farið er eftir skattstiga, og nú nýlega hefir því verið lýst yfir af lögfróðum manni, sem hefir kynt sjer þessa hluti, að þessi stefna hjer, að leggja atvinnuútsvar á menn annarsstaðar en þar, sem lögheimili þeirra væri, myndi vera einsdæmi. En frá þeirri reglu, að láta útsvar fylgja lögheimili, finst mjer ekki rjett að víkja, nema hrein og bein nauðsyn krefji. Og þó jeg játi, að það geti verið ýmsar ástæður í einstökum hreppum, sem geta gert það nauðsynlegt, verð jeg að krefjast þess, að færðar verði knýjandi ástæður fyrir því, að það þurfi að breyta út af þessu lögmáli. En eins og málið er hjerna fram borið, þá verð jeg að segja það, að þessar knýjandi ástæður eru hvergi bornar fram, og það var einmitt það, meðal annars, sem milliþinganefndin í fyrra átti að athuga, hvaða knýjandi ástæður væru til þess að breyta út af þessari reglu og til að komast inn á þessi tvískiftu útsvör. Þess vegna verð jeg að segja það, að þegar þessi regla er tekin upp í sveitarstjórnarlöggjöf alls landsins, þá sje það gert hreint og beint út í bláinn. Og jeg sje miklar og margar ástæður til þess að fylgja henni ekki, t. d. það, að bæirnir græða einmitt á þessum vinnuafla, sem til þeirra kemur, en sveitirnar bíða stórtjón af. Þar af leiðir blátt áfram, að ekki er annað að gera en að afnema Reykjavíkurlögin og koma öllu í sama farið aftur.

Jeg benti til þess áðan, að hæstv. atvrh. hefði komið fram sem samningsmaður í þessu efni, og þar á jeg þá sjerstaklega við það, þar sem hann setur tvö þúsund króna fjárhæð sem þann minsta tekjustofn, sem á megi leggja. Jeg skoða það svo, að með því móti hafi hæstv. atvrh. ætlað sjer að draga úr þessum tvískiftu útsvörum, því að af öðru getur það ekki verið. En með þessu takmarki er komin fram ný regla fyrir sveitaálagningu. Í Reykjavíkurlögunum er það aðeins tíminn, sem á er litið, en ekkert tillit tekið til krónutalsins, en hjerna er það líka krónutalið, sem á að taka tillit til, og þá verður það hvorki tímabil eða krónur, sem ráða, heldur verða það tímakrónurnar, sem ráða, eða krónutímarnir, ef það skal heldur þannig orðað.

Af þessu misrjetti, ef ekki er við gert, sjáum vjer t. d., að maður getur verið 8 mánuði í sveitarfjelagi og unnið sjer inn 2 þús. kr., og þó ekki verið útsvarsskyldnr. Svo hefi jeg dæmi fyrir mjer austan úr Árnessýslu, að bændur þaðan eru frá því seint í september og fram undir Jónsmessu á togurum hjer og búa svo búum sínum að sumrinu. Á þessa menn á eftir þessu ákvæði að leggja skatta hjer, en aftur á mann, sem t. d. vinnur sjer inn 2200 kr. á 8 dögum, á engan skatt að leggja. Af þessu má sjá, að hjer er atriði, sem þarf að leiðrjetta og samræma.

Ennfremur má geta þess, að ef maður er 3 mánuði að vinna sjer inn 2000 kr., og annar maður er utansveitar 8 mánuði að vinna sjer inn 2000 kr., þá sje jeg ekki, hvernig hægt er að jafna þann mun á skatti, sem þeir eiga að bera. En vitaskuld skal jeg játa það, að þetta er hægt að laga í meðferð laganna, og kann vera, að þar standi eitthvað, sem þarna eigi við, en ljóst er það ekki.

Eitt atriði í jöfnunarstefnu hæstv. atvrh. er, að hann hefir sett upp stórt bákn um það, hvernig ætti að jafna atvinnuútsvari milli sveita, sem hafa miklar og litlar álögur. En jeg er nú mjög hræddur um, að það verði tafsamt í vöfunum, þetta mikla bákn, og hræddur um, að þessi grundvöllur, sem á að byggja á, sje hæpinn. Grundvöllurinn á að vera eignir, tekjur og manntal sveitanna; þar með er hreint og beint vikið frá þeim grundvelli að eiga að leggja á eftir efnum og ástæðum. (Atvrh. MG: Hjer er um að ræða skiftingu útsvara milli sveitanna). En ef það eru mikil útsvör þar, sem maður á lögheimili, en lítil þar, sem hann vinnur verður það vitanlega í óhag vinnusveitinni; en hinsvegar, ef lítil útsvör eru þar, sem hann á lögheimili. En mikil útsvör þar, sem hann vinnur, verður það lögheimilissveitinni í óhag. En hjer er ýmislegt, sem komið getur til greina, þegar þessi mælikvarði er hafður. T. d. getur verið kyrstaða í einu sveitarfjelagi og þess vegna lítil útsvör; aftur miklar framkvæmdir í öðru sveitarfjelagi og tiltölulega mikil útsvör þess vegna, og þá á utansveitarmönnum að blæða vegna þeirra framkvæmda. Jeg skal í þessu sambandi benda á Ísafjörð, því að jeg er þar kunnugur.

En svo er eitt í öllu þessu. Jeg held, að þessi jöfnuður geti orðið til þess, að það hallaðist sjerstaklega á þá, sem verða fyrir því óláni að þurfa að leita sjer atvinnu utan sinnar sveitar, því að það gerir enginn maður nema því aðeins, að hann sje til neyddur að vera frá heimili sínu. Jeg er hræddur um, að það geti orðið til þess, eftir því sem á stendur, að það verði reynt að kemba á kúluna, til þess að sveitin fái eitthvað.

Þessi fáu orð mín á ekki að skoða sem árás, heldur vildi jeg aðeins benda á þessi atriði.

Þá er enn ný regla tekin upp í frv.; að vísu er hún ekki mikilvæg, en jeg tel hana góða og gilda. Á jeg þar við það ákvæði, að ekki skuli jafna niður minna útsvari en 5 kr. Líkar mjer þetta mjög vel, og hefi jeg í þessu sambandi verið að hugsa til tekjuskattsins, þar sem menn eru eltir með 60 aura álagningu. Segi jeg þetta hjer til þess, að þetta atriði verði athugað, ef hreyft verður við skattamálunum, því jeg er viss um, að hinn mikli gjaldendafjöldi á sinn þátt í því, að skattanefndir kasti frekar höndunum til starfsins. Jeg hygg því, að það myndi á engan hátt skaða ríkissjóð, þó að hinum smæstu gjaldendum væri slept. Það myndi vinnast upp í nákvæmara og betra starfi skattanefndanna.

Annars skal jeg taka það fram, að stefna mín í máli því, sem hjer er til umræðu, er sú að takmarka sem mest útsvar til dvalarsveitar, því að heimilissveitin ber altaf mestar byrðar af manninum og á því að fá gjaldið.

Að síðustu skal jeg taka það fram, að jeg lít svo á, að þetta mál eigi að verða samningamál í þinginu, og vænti jeg, að hæstv. atvrh. geri líka sitt til þess, að svo megi verða, því að jeg veit ekkert það mál, sem með jafnmikilli athygli er fylgt í sveitunum sem þessu.