12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2104 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal strax taka það fram, að jeg hefi ekki ástæðu til að vera óánægður með þær undirtektir, sem frv. þetta hefir fengið hjá þeim háttv. deildarmönnum, sem talað hafa.

Mjer var það ljóst í upphafi, að þetta væri flókið mál. Er jeg því ekkert undrandi, þótt menn greini á um það, enda er mjer næst að halda, að skoðanirnar á því hjer sjeu jafnmargar og þingmennirnir eru margir, því að engir tveir munu vera sammála um það að öllu leyti. Er það því rjett hjá hv. 2. þm. Rang. (KlJ), að frv. þetta mun ekki verða samþykt óbreytt, enda hefi jeg aldrei gert mjer von um, að svo yrði; því að það er tæplega hægt að búast við, að einn maður geti samið slíkt frv. í þessu máli.

Aðfinslur háttv. 2. þm. Rang. við 8. gr. c. mega vel vera rjettmætar að því leyti, að greinin þurfi frekari skýringa við. Annars held jeg, að þeir menn, sem eiga fleiri en eitt lögheimili, sjeu mjög fáir í landinu; að minsta kosti hefi jeg ekki fundið nema einn eða tvo „forretnings“-menn, sem þannig er ástatt um. En svo geta vitanlega verið hjú, sem eru að hálfu sitt í hvorum hreppi. Tilgangurinn með þessu ákvæði er sá, að maður, sem þannig er ástatt um, geti fengið að ráða, í hvorri sveitinni hann greiðir útsvarið.

Þá mintist þessi sami háttv. þm. á 9. gr. frv. og taldi þar of langt gengið í útsvarsálagningu, því að eftir henni mætti t. d. leggja á mann útsvar, sem aðeins hefði fengist stuttan tíma við t. d. síldarkaup. Þetta er rjett, en jeg vil benda hv. þm. á það, að til eru þau sveitarfjelög, eins og t. d. Siglufjörður, sem svo mjög eru bygð aðkomufólki, að á það verður að leggja. Hvort rjett takmörk eru sett hjer fyrir því, skal jeg ekki fullyrða. En hitt er víst, að fult tillit verður að taka til slíkra sveitarfjelaga.

Háttv. 1. þm. Árn. (MT) byrjaði á því að segja, að frv. þetta væri gert fyrir kaupstaðina, og skildist mjer helst, að hann bygði það á ákvæðum 12. gr. En hv. 3. þm. Reykv. (JakM) sagði, að það myndi sjerstaklega reynast gott fyrir sveitirnar. Hjer hafa því tveir lýst skoðunum sínum, og báðir halda, að gullið fari til hins. Það er því gamla sagan: „Margur hyggur auð í annars garði“, sem hjer er endurtekin. Mjer virðist þetta því bending um, að jeg hafi hitt hjer á meðalveginn, því oft er sá dómur rjettastur, sem báðir aðiljar eru óánægðir með.

Út af því, sem háttv. 1. þm. Árn. (MT sagði um 2000 kr. takmarkið, skal jeg taka það fram, að jeg mun geta vikið frá því, ef jeg get sannfærst um, að það gangi of skamt, því að jeg er í hjarta mínu á móti því að vera að elta atvinnuleitarmenn með útsvarsálögum. En þess ber að gæta, að taka verður tillit til sveitanna, sem mestmegnis lifa á aðfengnum vinnukrafti um stuttan tíma, og jeg held, að þau tvö takmörk, sem sett eru, hljóti að fyrirbyggja mestu annmarkana. Það stoðar ekkert, þó að þessi háttv. þm. komi með dæmi á móti, því að eins og hann veit, eigum við að setja lög fyrir heildina, en ekki undantekningarnar. Þær má vitanlega oft finna, eins og t. d. mann, sem vinnur sjer inn 2000 kr. á nokkrum dögum fyrir utan lögheimili sitt. Jeg get ekki sjeð, að það sje beint ósanngjarnt, þótt hann sje útsvarsfrí, enda þótt hinn greiði útsvar, sem dvelur 3 mánuði við að vinna sjer inn sömu upphæð, því að sá, sem dvelur 3 mánuði, nýtur ýmsra hlunninda, sem hinn fær ekki. (HK: Hann borgar það alt með sjerstöku gjaldi). Það er ekki víst; og greiði hann ekki útsvar, er sennilegt, að hann geri það ekki.

Þá sagði þessi háttv. þm., að jeg hefði komið fram sem jöfnunarmaður í frv. þessu. Jeg tek þetta ekkert illa upp, því að jeg tel það einmitt skyldu mína að koma fram sem jöfnunarmaður milli sveita og kaupstaða í þessu máli.

Háttv. 3. þm. Reykv. vjek að mjer nokkrum orðum og var óánægður með mig fyrir hönd Reykjavíkur. En það var alls ekki mín meining að vera að saka hann eða Reykjavíkurbæ, þó að jeg teldi löggjöfina ekki sanngjarna. Jeg sagði og, að það færi í bága við mína skoðun að taka nú þegar upp þá reglu að jafna niður útsvörum eftir tekju- og eignarskattsfyrirkomulaginu, enda mundi það í sumum árum hjer í Reykjavík vera óframkvæmanlegt að ná inn nægilegum útsvörum, t. d. þegar öll útgerð mishepnaðist og tap yrði á henni. Þá yrði hún útsvarsfrjáls eftir tekjuskattsfyrirkomulaginu.