12.02.1926
Neðri deild: 5. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2107 í B-deild Alþingistíðinda. (1767)

15. mál, útsvör

Magnús Torfason:

Það hefir engum hnútum til mín verið kastað. Hefi jeg því litlu að svara.

Háttv. 3. þm. Reykv. gat þess, að sveitirnar hefðu fengið útsvarslöggjöf sinni breytt miklu oftar en Reykjavík. Út af þessum ummælum skal jeg taka það fram, að jeg hefi ekki verið að tala um útsvör af atvinnurekstri, heldur um útsvör, sem lögð eru á svita manna.

Þessi hv. þm. vildi telja, að útsvör til sveita væru miklu lægri en hjer í Reykjavík. Það má vel vera, að svo sje sumstaðar, en það er ekki alstaðar, t. d. ekki í Árnessýslu; þar eru útsvör hærri en hjer. Þannig ber jeg t. d. hærra útsvar en bróðir minn hjer, sem þó hefir hærri laun. Stafar þetta af því, að þessar sveitir þurfa að róa undir ómögum, fyrst og; fremst hjeðan frá Reykjavík.

Að kaupstaðirnir þurfi að fá útsvar af vinnukrafti þeim, sem þeir fá frá sveitunum, get jeg ekki skilið, því að þeir fá þann vinnukraft fyrir ekkert, hvað það opinbera snertir, og jeg hefi altaf litið svo á, að það væri happ fyrir hverja sveit, sem væri, að fá aðkominn vinnukraft til þess að reka arðsama atvinnu. En hinsvegar verða laun verkamannsins stundum ærið misjöfn. Jeg get nefnt dæmi. Jeg veit af manni, sem varð að búa í kjallaraholu við þriðja mann og borga 30 krónur á mánuði í leigu. Afleiðingarnar urðu þær, að hann kom berklaveikur heim á sveit sína.

Eitt atriði enn er skylt að minna á en það er, að 9. gr. 2. liður undantekur ekki þingmenn. Jeg veit ekki hvort það er gert til þess, að stjórnin geti verið viss um, að þingmenn sitji ekki á þingi fulla þrjá mánuði.