27.04.1926
Efri deild: 60. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 704 í B-deild Alþingistíðinda. (177)

1. mál, fjárlög 1927

Guðmundur Ólafsson:

Jeg get ekki verið að biðja afsökunar á því, þótt jeg ónáðaði hæstv. fjrh., svo að hann þyrfti að standa upp. Jeg hygg, að hann sje jafngóður eftir, og gott er að fá að heyra álit þessa glögga manns um ýmsa liði í fjárlögunum. Þó fanst mjer hann ekki sjerlega skýr eða auðskilinn, er hann var að tala um lánsheimildir sýslumannanna. Hann sagði, að annar sýslumaðurinn, sem lánsheimildina fjekk í fyrra, hefði ekki notað hana. En hvað kemur það málinu við? Fjekk hann ekki heimildina jafnt. fyrir því? Slík röksemdafærsla er lítilsvirði og villandi. Þá ætlaði hann að sanna mjer, að sá hreppurinn, sem mest skuldaði, væri best stæður. Í því skyni las hann upp reikninga hreppsins, og ef þeir eru rjettir, þá er sá hreppur ekki mjög illa stæður, en hæstv. ráðh. sagði, að ekki væri víst, að reikningarnir gæfu rjetta mynd af ástandinu. En hann hefir ekki gert grein fyrir fjárhagsástandi hinna hreppanna, sem minna skulduðu, og þá ekki því, hvort þeir sjeu ekki betur stæðir, svo þetta er engin sönnun. Annars er ómögulegt að telja mjer trú um, að það að skulda mikið sje merki þess að vera vel stæður. En það kemur kannske af því, að jeg er úr sveit og skil ekki þessa móðins fjármálaspeki hæstv. ráðherra.

Það er ljóst, að hjer er gert upp á milli sýslumanna að því er snertir lán til bygginga. Út af því get jeg ekki tekið aftur, að það geti átt sjer stað, að eitthvað sje athugavert við skifting skrifstofufjárins milli þeirra. Og jeg hygg, að jeg sje ekki einn um þá skoðun.