17.03.1926
Neðri deild: 33. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2143 í B-deild Alþingistíðinda. (1775)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vil byrja mál mitt með því að þakka háttv. allshn. fyrir alúð þá, sem hún hefir lagt við þetta mál, og jafnframt vil jeg þakka fyrir þau viðurkenningarorð, sem hún hefir látið falla í nál. um það, að málið hafi verið vel undirbúið.

Háttv. nefnd hefir nú haft mál þetta alllengi til athugunar. En slíkt er ekki að undra, því að það er kunnara en frá þurfi að segja, hversu mjög mál þetta er viðkvæmt. Öll skattamál eru viðkvæm, en þó eru útsvarsmálin þeirra viðkvæmust, því að þau snerta svo að segja hvern mann í landinu og koma þar við, sem flestum okkar er sárast, en það er við pyngjuna, eftir efnum og ástæðum.

Mjer þykir vænt um að sjá í nál., að háttv. allshn. hefir gengið inn á öll grundvallaratriði frv., og þó að henni finnist sumstaðar ekki nógu langt gengið, en annarsstaðar heldur langt, er það ekki nema eðlilegur skoðanamunur, sem jeg mun taka fult tillit til, og mun við atkvgr. sýna það með atkvæði mínu um brtt. Aftur á móti mun jeg eiga bágt með að ganga inn á þær brtt., sem eru brot á þeim grundvallarreglum, sem frv. er bygt á.

Skal jeg þá snúa mjer að þeim brtt. háttv. nefndar, sem hún er sammála um og skal fyrst nefna fyrstu brtt. hennar. Mjer væri þökk á, ef hv. nefnd vildi taka hana aftur til 3. umr., því að mjer virðist hún ekki, með því orðalagi, sem á henni er nú, ná þeim tilgangi, sem henni er ætlað að ná.

Þá kem jeg að 2. og 3. brtt. nefndarinnar eða rjettara sagt meiri hluta hennar. Um þær er það að segja, að þær raska að nokkru leyti þeim grundvelli, sent frv. er bygt á, sem sje þeim, að sem allra sjaldnast sje lagt á sama gjaldþegn í fleiri stöðum en einum. Mjer er að sönnu ekki vel við þessa breytingu, en get þó sætt mig við hana, ef v ið þetta verður látið sitja. Hinsvegar get jeg ekki neitað því, að talsverð hætta er á, að meira verði flutt milli 8. og 9. gr. frv., ef þessar brtt. verða samþyktar, og teldi jeg það illa farið, því að þá er hætt við, að raskist mjög þau grundvallaratriði, sent frv. er bygt á, og að vjer lendum þá í sama feninu og nú er, eða svipuðu, um álagning á sama gjaldþegn á fleirum en einum stað. En einmitt þetta hefir þótt verstur og tilfinnanlegastur megingallinn á útsvarslöggjöf vorri, vegna þess, hve óvægilega hefir verið lagt á utansveitargjaldendur.

Jeg get vel gengið að c- og d-lið 3. brtt., því að þeir miða að því að draga úr álagningu á utanhreppsmenn. Ástæðan til þess, að jeg fór ekki lengra í frv., var sú, að jeg taldi hæpið, að sama þingið, sem samþykti útsvarslög Reykjavíkur 1924, vildi ganga svo langt, sem frv. gerir ráð fyrir, hvað þá heldur lengra.

Fleiri af brtt. nefndarinnar snerta ekki aðalgrundvöll frv., og tel jeg ýmsar þeirra til bóta og get greitt þeim öllum atkvæði.

Hv. frsm. allshn. (PO) kveðst í raun og veru vera óánægður með ýmislegt fleira, svo sem með nýmæli frv., að yfirskattanefnd skuli úrskurða kærur í stað sýslunefnda. En hann hefir þó ekki komið fram með brtt. um þetta efni. Jeg get að vísu tekið undir þetta með honum, og lýsti yfir því áður, að jeg mundi ekki hafa ráðið til að breyta þessu, ef ekki hefði verið nauðsyn á því vegna breytingar á niðurjöfnunartíma útsvara, því að úrskurða mun þurfa kærur á árinu eftir að sýslufundur er afstaðinn, en hinsvegar alt of kostnaðarsamt að kalla saman aukasýslufundi út af þessum ástæðum.

Þá er brtt. á þskj. 125, frá hv. þm. Borgf. (PO), og um hana verð jeg að segja það, að jeg get ekki felt mig við hana og tel, að ýmsum stöðum, eins og t. d. Siglufirði, væri gerður órjettur með henni. Í sambandi við þetta hlýt jeg að taka það fram, að ástæðan til þess, að reglan um, að ekki megi leggja útsvar á upplagðan afla, ef eigandi er búsettur við sama fjörð eða flóa, var feld burtu úr frv. af því, að hún virtist ekki geta staðist samkvæmt þeim grundvallaratriðum, sem frv. er annars bygt á.

Þá kem jeg að brtt. hv. þm. Mýr. (PÞ), á þskj. 127 og 149, en jeg skal lofa hv. deild því að vera ekki eins langorður og hv. flm. í gær. En þó kemst jeg ekki hjá því að ræða þessar brtt. Þær sýna án efa, að höfundur þeirra hefir talsvert um þetta mál hugsað og lagt mikla vinnu í það, og þó eru brtt. hans yfirleitt þannig, að jeg get ekki fylgt þeim.

Mjer virðist, að þessum brtt. megi skifta í 2 flokka. Annar flokkurinn á að gefa nákvæmar reglur um, hvernig jafna skal niður, en hinn flokkurinn miðar að því að fella burtu ákvæðin um skiftingu útsvara milli atvinnusveitar og heimilissveitar.

Jeg mun tala um þessa flokka hvorn um sig, en fyrst vil jeg þó geta þess, að mjer þykir hv. flm. (PÞ) hafa gert till. sínar ákaflega og óþarflega flóknar, sjerstaklega með því að flytja til greinar frv. Og satt að segja öfunda jeg ekki hæstv. forseta, þegar að atkvæðagreiðslunni kemur og hann á að skera úr um það, hvernig á að bera þessar brtt. undir atkvæði. Hvernig á t. d. með atkvæðagreiðslu að slá því föstu, að 6. gr. verði 4. gr. og 25. gr. verði 22. gr., meðan óvíst er, hvort eftirfarandi brtt. verða samþyktar? Það hefði verið hægt að komast hjá þessu með því að segja bara, að greinatalan breyttist eftir atkvæðagreiðslunni.

Nokkrar greinar frv. vill háttv. flm. flytja til í frv., ýmist fram eða aftur, og sje jeg ekki ástæðu til að ræða mikið um það, en get þó ekki talið neina nauðsyn á því, enda mun hætt við ruglingi út af slíku. T. d. vil jeg spyrja hv. flm. að því, hver þörf sje á, að 4. gr. eigi að verða 9. gr. og upphaf 4. kafla. Hún verður því aðeins 9. gr., að ýmsar aðrar brtt. verði samþyktar. Mjer finst því, að hv. flm. ætti að taka allar þessar brtt. aftur og laga þær til 3. umr. Jeg skal t. d. benda honum á það, að veslings 4. kaflinn verður fyrirsagnarlaus. ef 10. brtt. verður samþykt.

Að því er mjer skilst, lúta brtt. við 4. gr. að því að gefa nánari reglur um, hvernig eigi að jafna niður „eftir efnum og ástæðum.“ Þessi grein verður mjög hart úti hjá hv. þm., því að það er ekki nóg með það að hann geri við hana 8 brtt., heldur ætlar hann líka að flytja hana úr stað.

Mjer skildist á hv. þm. í gær, að hann þættist hafa fundið nýtt niðurjöfnunarkerfi, er kæmi fram í 1. brtt. með öllum, hennar töluliðum og undirliðum, latneskum og grískum bókstöfum. En þetta er alger misskilningur. Hjer er ekki um neitt nýtt kerfi að ræða, heldur eina af ótal mörgum aðferðum til þess að jafna niður útsvörum eftir efnum og ástæðum. Jeg get fullvissað hv. flm. um, að eftir frv., eins og það nú liggur fyrir, er alls ekkert því til fyrirstöðu, að sú aðferð sje viðhöfð, sem gert er ráð fyrir í 1. brtt. B. Það, sem skilur, er því ekki annað en það, að hann vill lögbjóða, að allar niðurjöfnunarnefndir hafi þessa aðferð, en jeg og meiri hl. nefndarinnar viljum, að niðurjöfnunarnefndum sje það í sjálfsvald sett. Jeg verð að segja, að jeg tel mjög varhugavert að setja flóknar reglur um niðurjöfnun eftir efnum og ástæðum, því að slík niðurjöfnun á að vera bygð á mati, enda er það viðurkent í brtt. hv. þm.

Jeg hlýt því að leggja á móti öllum brtt. hans og tel, að þær myndu fremur rugla en skýra.

Jeg varð hálfhissa að sjá till. um 10 króna nefskatt á hvern verkfæran mann, og vil því í sambandi benda á, að í kaupstöðum eru ekki gerðar skýrslur um verkfæra menn. Jeg skal geta þess, að 1. brtt. við 4. gr. er meinlaus, en alveg þýðingarlaus og spursmál, hvaða skatt á að leggja til grundvallar. En frádrátturinn verður aldrei svo mikill, að hann skifti neinu máli, enda kemur hann fram við framtal til tekju- og eignarskatts. Annars skal jeg geta þess í sambandi við brtt. við 4. gr., að jeg legg ekki mikið upp úr þeirri grein og var satt að segja í efa um það, hvort hún ætti að standa í frv.

3. brtt. a. er alveg óþörf, sbr. 6. gr. III. b. og c. og 3. brtt. c. er bygð á misskilningi, því að sjerhver maður hlýtur að vera heimilisfastur annaðhvort hjer á landi eða erlendis. Sú upptalning er alveg tæmandi — tertjum non datur. Hitt er annað mál, að ekki er víst, að einhver ákveðinn maður eigi neinstaðar lögheimili.

Þá kem jeg að öðrum aðalflokki brtt. hv. þm. Hann er þess efnis að útiloka skiftingu útsvara milli sveita, er hann telur mjög erfiða og þunga í vöfum. Jeg skal viðurkenna, að það er talsvert í þessu og að best væri að geta verið laus við skiftinguna. En benda má þó á það, að t. d. Danir og Norðmenn hafa tekið upp þessa skiftingu í lögum um „den interkommunale Beskatning“. Aðalreglurnar, sem þeir hafa farið eftir, eru teknar upp í þetta frv. Þeir hafa reynt þær í mörg ár og hafa þær gefist vel. Eins held jeg, að hjer muni fara, að þær hljóti að gefast vel hjer líka, þegar stundir líða. Má búast við, að þetta verði þungt í vöfumt í fyrstu og að óánægja komi í ljós, en það er ekkert annað en það, sem venjulegt er í þessum og þvílíkum tilfellum, eins og t. d. þegar tekjuskattsframtalinu var komið á. En það hverfur með tímanum, enda sje jeg ekki, að hjer sje um meiri fyrirhöfn að ræða en í rekistefnu þeirri, sem oft verður milli sveita um viðurkenning á sveitfesti manna.

En úr þessum höfuðgalla á núverandi útsvarslöggjöf, að of mikið er lagt á utansveitarmenn, vill háttv. þm. Mýr. bæta með því ákvæði, að ekki megi leggja á þá í heimilissveit að því leyti, sem lagt er á þá í atvinnu- eða dvalarsveit. Jeg álít þetta ákvæði lítilsvirði, og mætti nefna dæmi til að sýna það. Hv. þm. játaði, að það væri einn galli á þessu fyrirkomulagi eins og hann hugsar sjer það, sem sje sá, að ekki yrði hægt að taka tillit til ástæðna manna, sem leggja á á utansveitar. Þetta gerir það að verkum, að tímögulegt er að sýna fram á, hvort utansveitarmönnum sje gert rangt til eða ekki, ef tekið er tillit til efna og ástæðna. Þess vegna held jeg, að eina rjetta reglan sje sú, sem frv. gerir ráð fyrir, að lagt sje sem mest á menn á einum stað og í einu lagi og að tekið sje fult tillit til alls efnahags og ástæðna allra.

Jeg held, að 11. brtt., við 16. gr. a., hafi ruglast eitthvað, líklega í prentun, nema svo sje, að meira eigi að fella burt úr gr., og veit jeg ekki, hvort hv. þm. hefir athugað það, því að annars kemur til að standa þarna meiningarlaus greinarpartur.

Jeg hlýt að leggja á móti þessum flokki brtt. háttv. þm. Mýr. Þær eru um atriði, sem snerta grundvallaratriði frv. mjög verulega það, að leggja sem sjaldnast annarsstaðar á menn en í heimilissveit þeirra. En þeirri reglu vill hv. þm. gerbreyta.

Þá sný jeg mjer að brtt. háttv. 2. þm. Reykv. (JBald), á þskj. 134. Þær eru ekki margar. Sú fyrsta, er um það, að ef hafa þarf aukaniðurjöfnun, þá komi ekki niðurjöfnun á 80 kr. eða lægra aðalútsvar í kaupstöðum og annarsstaðar ekki á 40 kr. eða lægra útsvar.

Út af þessu vil jeg segja það, að ef rjett er jafnað niður aðalútsvari, þá verður hitt ekki rjettlátt, að litlu útsvörin hækki ekki eins og þau stóru. En þessi brtt. hefir eitt til síns ágætis, og það er það, að alloft myndi reynast erfitt að innheimta þessi litlu viðbótarútsvör. En jeg býst við, að ekki yrði að jafnaði búið að greiða aðalútsvarið, þegar aukaniðurjöfnun færi fram, svo að viðbótin gæti komið til með að innheimtast með því, svo að þessi brtt. er ekki á rökum bygð frá því sjónarmiði.

2. brtt. get jeg ekki skilið, nema það sje meining hv. þm. að leggja bæði á eign manns í fjelagi og hann sjálfan eða tvíleggja á hann. En í frv. er það óbundið, hvort niðurjöfnunarnefndirnar vilji heldnr leggja á fjelagið eða manninn, sem hefir tekjur sínar af fjelaginu.

En annars þarf ekki að kenna niðurjöfnunarnefndunum að leggja á útsvörin. Jeg vil, að þær sjeu sem óbundnastar í því efni, og þann rjett vil jeg ekki taka frá þeim.

3. brtt. er um það, hvort konur geti skorast undan kosningu. Það er gott, að þessi till. kom fram, til þess að fá nú þegar úr því skorið, hvernig þessi háttv. deild lítur á þetta mál, sem var svo umþráttað í hv. Ed. Í stjfrv. er heimilað, að konur megi skorast undan kosningu, og tel jeg frjálslegast að leyfa þeim það. Þetta snertir að vísu ekki málið, en það er gott að fá atkvgr. í eitt skifti fyrir öll um þetta efni, til þess að hafa hana til hliðsjónar, þar sem annað mál, þessu skylt, kemur bráðum til þesarar hv. deildar, og vona jeg þá, að háttv. deildarmenn verði sjálfum sjer samkvæmir.

3 síðustu brtt. eru allar um sama efni, að úrsurði yfirskattanefndar skuli ekki áfrýjað til atvinnumálaráðuneytisins. Þetta ákvæði var sett af því það var álitin rjettarbót fyrir hlutaðeigendur, þó að hinsvegar sje hjer um að ræða starf, sem ekki ætti að liggja undir atvinnumálaráðuneytið. Þó er í þessu ákvæði fólgin trygging fyrir hlutaðeigendur, að þeir nái rjetti sínum fremur, en hinsvegar er ekki svo mikið starf um að ræða, að erfitt verði að inna það af hendi. En jeg læt það ráðast, hvað hv. deild vill hjer að gera. Fyrir mjer er þetta ekkert „princip“-atriði.

Jeg sá hjer í morgun 2 brtt. frá háttv. 2. þm. Rang. (KlJ), og held jeg, að jeg sje þeim samþykkur.

Þá eru hjer nokkrar brtt. frá hv. 1. þm. N.-M. (HStef), sem jeg ætla ekki strax að taka afstöðu til. Jeg býst við, að hann tali bráðlega fyrir þeim, og ætla jeg að sjá, hvort hann getur sannfært mig um ágæti þeirra. Ætla jeg því ekki að óreyndu að lengja á móti þeim.