18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2173 í B-deild Alþingistíðinda. (1783)

15. mál, útsvör

Pjetur Þórðarson:

Jeg vil byrja með því að endurtaka það, sem jeg áður hefi sagt í heildardráttum um samhengið í brtt. mínum. Að vísu þykir mjer verra, að hæstv. atvrh. virðist ekki viðstaddur, eða svo nærri, að hann heyri mál mitt, því til hans þyrfti jeg að beina orðum mínum sjerstaklega, þótt þau vitanlega snerti ýmsa fleiri hv. þdm.

Jeg hefi áður minst á þetta samhengi í brtt. mínum og bent á, að ef 1. brtt. verður samþykt, þá leiðir af sjálfu sjer, að samþykkja verður allar hinar. Sama er og að segja um það, ef 1. brtt. fellur, að þá tel jeg tilgangslaust að samþ. hinar og geta þær því skoðast að nokkru leyti sjálffallnar.

Jeg verð að segja, að jeg hefi borið heldur mikið traust til háttv. þdm. um að athuga þetta samband, sem í brtt. liggur, með því að skjóta inn á milli þeirra smærri breytingum, sem gjarnan hefðu mátt missa sig. Enda býst jeg við, að það, sem mjer þykir máli skifta í heild hvað brtt. mínar snertir, hefði legið ljósar fyrir ýmsum hv. þm., ef aðalatriðin hefðu verið dregin saman, en þeim smærri slept. Því vitanlega eru smærri atriðin lítilsvirði hjá þeim stóru. Þessi atriði er að finna í l. brtt. minni á þskj. 127 undir stafliðunum b. og c., og þó aðallega í gríska b-liðnum, eða í gr. þeirri, sem jeg legg til, að verði 11. gr.

Þessu næst er það 5. brtt. mín á sama þskj., frá c-lið að telja, ásamt öllum þeim breytingum, sem þar fara á eftir, svo að segja til enda.

Þessar eru þá aðalbreytingar mínar á frv., sem mjer er áhugamál, að nái fram að ganga, og eins og jeg hefi margtekið fram, er samband þeirra svo náið, að þær verða allar að fylgjast að, svo að ef sú fyrsta fellur, eru hinar gagnslausar og sjálffallnar.

Í þessu sambandi ætlaði jeg að minnast nokkru nánar á afstöðu mína til frv. gagnvart brtt. mínum, en þeim orðum liggur nánast við að beina til hæstv. atvrh. Nú er hann ekki við, svo að jeg kem þá ekki að þessu atriði að svo stöddu. Annars lít jeg svo á, að frv. sje þannig vaxið, að betra sje að gera það að lögum að viðbættum brtt. á þskj. 124 en una við það ástand, sem er, þó mjer hinsvegar blandist ekki hugur um, að betra mundi það verða, ef hv. þdm. sæju sjer færi að hverfa að því ráði að fylgja mínum brtt.

Þess vegna hefi jeg ákveðið með sjálfum mjer, hvernig svo sem fer um mínar brtt., að greiða frv. atkv. til 3. umr., og jafnvel út úr hv. deild. En ánægður verð jeg ekki, þó frv. nái fram að ganga með breytingum nefndarinnar, sem jeg tel að mörgu leyti til bóta. Jeg álít, að markið náist betur með mínum brtt., og sú leið, sem jeg vil að farin sje í þessu efni, sje sanngjarnari og þó um leið auðveldari. En þá verða þær líka allar að fylgjast að, mínar brtt., til þess að ná því takmarki.

Annars finst mjer ástæða til að útlista dálítið nánar skiftingu útsvara milli sveita. Því eins og því er komið fyrir í frv., þá tel jeg það stærsta galla þess og örðugast í framkvæmdinni, enda mun það reynast kostnaðarsamt, þungt í vöfum og langt frá því að geta komið sanngjarnlega niður. Ýmsir hv. þdm. hafa að vísu látið þetta í ljós, en hitt er mjer til efs, að þeir hafi komið auga á ósanngirnina í þessu máli. Jeg skal t. d. henda á, hvaða takmörk eru fyrir því um mann, sem stundar atvinnu utan heimilissveitar, að atvinnusveit geti fengið hluta í útsvari hans. Eftir frv. er það alt að 2000 kr., sem maðurinn verður að fá í kaup til þess að vera útsvarsskyldur í atvinnusveit, og þá getur hún (atvinnusveitin) fengið hlutdeild í útsvari þessa manns, alt að 2/3 þess, sem á hann er lagt, en annar maður, sem að öðru jöfnu fær í kaup 1999 kr., sleppur undan útsvarsskyldu í atvinnusveitinni, og sjá allir, að hjer er um ósanngirni að ræða, eins og jeg benti frekar á í gær og leiddi þá rök að því, að í heimilissveit þessara manna mundi verða lagt á báða jafnt, en heimilissveitin missir 2/3 hluta útsvars þess mannsins, sem aðeins bar 1 kr. meira úr býtum.

Í þessu felst svo mikið misrjetti, sem allir sanngjarnir menn hljóta að koma auga á; því undarlegra finst mjer, ef hv. þdm. geta ekki greitt mínum brtt. atkv., því þær eru eingöngu bornar fram til þess að leiðrjetta þetta misrjetti.

Setjum svo, að mínar brtt. næðu fram að ganga og frv. þannig breytt yrði að lögum, þá fær atvinnusveit útsvar aðeins af því kaupi, sem er umfram 2000 kr., og mundi þar af leiðandi engan hlut fá af útsvari þessara tveggja manna, sem jeg tók dæmið af.

Mjer hefir verið bent á það, að eftir frv. og núverandi ástandi geti atvinnusveit lagt mestum því ótakmarkað á þann hluta atvinnuteknanna, sem er umfram 2000 kr., og það svo, að hún geti — ef t. d. um 3000 kr. kaup væri að ræða — jafnvel lagt eins hátt á þær 1000 kr., sem umfram eru, eins og alla upphæðina (3000) eða þá upphæð, sem frv. miðar við. En þá er ekki annað en setja skorður í þessu efni og gefa niðurjöfnunarnefndum fastar reglur til þess að fara eftir, fastar að því leyti, að ekki væri unt að leggja hærra hundraðsgjald á þessar 1000 kr. hjá utansveitarmanni en á innsveitismann, sem aðeins hefði 1000 kr. tekjur, að öðru jöfnu; og þær reglur þykist jeg hafa fullkomlega bent á með brtt. mínum. Vitanlega getur niðurjöfnunarnefnd, þrátt fyrir það, farið eftir sínu höfði um matið á tekjum og eignum manna í sinni sveit; sömuleiðis hefir hún fríar hendur um gjaldstigann, að hækka hann eða lækka eftir þörfum, en það, sem mest er um vert, eða vinst með mínum brtt., er það, að niðurjöfnunarnefnd getur ekki skotist hjá því að fara eftir sínum eigin fyrirfram ákveðnu reglum um matið og niðurjöfnun hundraðsgjalds, og kaup goldið í krónum verður aldrei hækkað í mati.

Jeg vil fyrirbyggja það, að atvinnusveit geti lagt hærra hundraðsgjald á utansveitarmenn en þá, sem heimilisfastir eru í sveitinni. Jeg vil, að rjettlætið ráði og að fullkomin, jafnrjettis gæti í þessu efni sem öðru. Jeg hefi tekið það fram áður, og endurtek það nú, að jeg erhræddur um, að hv. þdm. hafi ekki gert sjer ljóst, hve stór rjettarbót sje fólgin í brtt. mínum. Dæmi jeg það eftir því. hvernig orð hafa fallið hjer í hv. deild. Þó ber jeg enn vað traust til þeirra, eftir að jeg hefi nú betur árjettað það, sem jeg hafði áður að segja til stuðnings máli mínu, að þeir athugi betur brtt. mínar, því hjá því getur ekki farið, að við nánari athugun skýrist það fyrir hv. þdm., að þær, sem mestu máli skifta, eru fyllilega á rökum bygðar.

Annars hafði jeg ætlað mjer að ræða um brtt. mínar á víð og dreif í sambandi við það, sem hæstv. atvrh. hafði við þær að athuga í gær. En af því að hann er ekki viðstaddur, verður það að bíða, og get jeg þá látið máli mínu lokið um sinn.