18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2195 í B-deild Alþingistíðinda. (1786)

15. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Jeg vil gera mitt tjl þess, að atkvgr. um þetta mál geti farið fram í dag, og mun því verða mjög stuttorður og eingöngu snúa mjer að því, sem hjer hefir fram komið til andmæla ræðu minni í gær, enda þótt ýmislegt væri fleira einkum út af ræðu hv. frsm. (PO) sem jeg hefði minst á, ef tími hefði verið til.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) vjek að ýmsu sem jeg sagði í gær út af till. hv. þm. Borgf. (PO) á þskj. 125. Hann kvaðst geta gengið inn á það, að ef till. yrði samþ. þá mundi það svifta suma kaupstaði landsins tekjum, sem þeir hafa áður haft. En hann sagði jafnframt, að hann sæi enga sanngirni í því, að þeir hjeldu þeim tekjum áfram, og mundi hann því fylgja till. Jeg vil nú benda hv. þm. á það, að sá tekjumissi sem af samþykt till. mundi leiða fyrir sum bæjar- og sveitarfjelög, mundi valda mjög óþægilegri röskun á fjárhagsástandi þeirra. En vitanlega er það ekki hlutverk löggjafanna að gera ráðstafanir, sem stofna einstökum hlutum landsins í hættu. En svo get jeg heldur ekki fallist á það, að þessar tekjur sjeu svo ranglega fengnar eins og hv. þm. hjelt fram. Hann sagði, að þessi gjöld gengju til heilbrigðismála, fátækraframfæris o. s. frv., sem skip, er stunduðu þar veiði, nytu einskis góðs af. Ennfremur sagði hann, að skipin borguðu fullkomlega fyrir sig þar, sem þau legðu upp. Það er rjett, að þau borga fyrir sumt, en ekki fyrir alt. Þegar skipshöfn kemur í land, þarf hún á vegum að halda, aflanum þarf að aka o. s. frv. Eins er það rangt, að skipshafnirnar geti ekki haft gott af heilbrigðisráðstöfunum í kaupstöðum, eins og t. d. Siglufirði. Mjer er það kunnugt, að sjúkrahúsið, sem ráðgert er að byggja þar, og mun kosta bæinn mjög mikið fje, er engu síður ætlað aðkomufólki, sem dvelur þar yfir síldveiðitímann og á hvergi höfði sínu að að halla, ef það veikist, en Siglfirðingum sjálfum. Enda verður húsið mikið stærra en þörf væri á vegna bæjarbúa einna. Svo er einn útgjaldaliður, sem kemur til greina, og ekki síst á Siglufirði, og það er lögreglan. Bærinn þarf að kosta lögreglulið, einkum og sjerstaklega vegna aðkomufólksins. Hv. þm. (SigurjJ) vildi halda því fram, að ef rjett væri að leggja á skip þar, sem það leggur upp afla sinn, þá mætti alveg eins leggja á bónda, sem kemur með afurðir sínar til þess að selja þær. En þetta finst mjer fjarstæða, því að þegar skip er gert út frá staðnum, þá skapar hann skipinu aðstöðu til framleiðslunnar, en þetta gerir bærinn alls ekki gagnvart bóndanum, þó hann selji þar afurðir, sem framleiddar eru langt í burtu.

Þá vjek hv. frsm. nefndarinnar (PO) nokkrum orðum að mjer. Hann sagðist hafa skilið mig þannig í gær, að jeg myndi verða því fylgjandi að breyta reikningsári sveitanna. Það sagði jeg ekki: jeg sagði aðeins, að jeg teldi þá breytingu heldur til hins lakara, en að jeg teldi það þó ekki svo mikinn galla, að ekki væri hægt að sætta sig við það, ef um aðrar rjettarbætur væri að ræða. Hvað snertir ágreining okkar hv. frsm. um rjett atvinnusveitar yfirleitt, þá vil jeg ekki tefja tímann með því að fara langt út í það. Jeg viðurkenni, að þörf væri á nokkurri takmörkun á þeim eltingaleik um útsvör, sem verið hefir, en jeg vil fara varlegar heldur en nefndin, og þó sjerstaklega heldur en hv. frsm. vill fara; jeg vil ekki fara svo langt, að það raski stórkostlega því skipulagi, sem nú er, því að það verð jeg að telja skaðlegt. Út af því, sem hv. frsm. vjek að brtt. sinni á þskj. 125 í sambandi við mína ræðu, get jeg farið mjög fljótt yfir, sökum þess að því hefi jeg að nokkru leyti svarað með því, sem jeg svaraði hv. þm. Ísaf. Hv. frsm. sagðist vilja benda mjer á, að brtt. sín færri aðeins fram á það að halda því við, sem nú væri í gildandi lögum, og átti þar við ákvæðin um það, að menn eru undanþegnir útsvari, ef þeir reka fiskiveiðar við sama fjörð eða flóa og þeir eru frá. Jeg veit það vel, að þetta er rjett, sem hv. frsm. segir, að því er snertir Akranes, sem hv. þm. mun hafa haft í huga, en þetta er ekki alment fyrir alt landið. Hv. þm. hjelt, að jeg bæri sjerstaklega hag Siglufjarðar fyrir brjósti, en jeg skal benda hv. þm. á, að Siglufjörður hefir engan hag af þessu ákvæði. Hv. þm. hjelt því fram, að Siglufjörður mundi ekki missa miklar tekjur, þótt þessi brtt. yrði samþ., en hæstv. atvrh. hefir bent á, að einmitt Siglufjörður mætti þá missa töluverðar tekjur og jeg veit líka að svo er. Jeg skil ekki, að hv. f. s. n. nefndarinnar viti þetta betur en hæstv. atvrh. og jeg og Siglfirðingar sjálfir.

Hv. þm. vjek að því, sem jeg hefði sagt um laxveiðarnar í sambandi við þetta. Þarf jeg ekki að fjölyrða um það. Jeg fjekk þar auðvitað nýja staðfestingu á því, sem jeg vissi áður og ekkert er hægt við að gera, að hv. þm. Borgf. vill, að Borgfirðingar geti lagt útsvar á Reykvíkinga og aðra, sem stunda laxveiðar í Borgarfirði, en hann vill ekki, að Akurnesingar þurfi að borga útsvar í Miðneshreppi, þótt þeir geri þar út, en þetta finst mejr ósamræmi. Hv. þm. fór að benda mjer á leiðir fyrir Siglfirðinga til þess að afla tekna í staðinn fyrir það, sem þeir mistu, ef brtt. hans yrði samþ., og sagði, að þeir gætu lagt á skemtanaskatt hjá sjer og gætt að því að tapa honum ekki hingað til þjóðleikhússins. Jeg skal taka þetta til athugunar, og þakka jeg hv. þm. fyrir þann velvildarhug, sem hann sýnir Siglfirðingum að þessu leyti, en mjer fyndist hv. þm. sýna hann þó enn betur, ef hann vildi taka þessa brtt. sína aftur, og vil jeg benda hv. þm. á, að ef hann vill sýna virkilega sanngirni, bæði Siglfirðingum og öðrum, sem hlut eiga að máli, þá ætti hann að gera það.