18.03.1926
Neðri deild: 34. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2206 í B-deild Alþingistíðinda. (1789)

15. mál, útsvör

Sveinn Ólafsson:

Jeg verð að taka í sama strenginn og hæstv. atvrh. og háttv. 2. þm. Rang. um að, að vorkunnarmál sje, þótt eitthvað kunni að verða áfátt við atkvæðagreiðsluna þegar að henni kemur í þessu máli, því að mjer finst það komið inn á þá braut og þannig búið í hendurnar á hv. deildarmönnum, að ekki sje auðvelt að greiða atkvæði um allan tillögufjöldann og. andstæðurnar án þess að mistök verði. Satt að segja finst mjer hæstv. stjórn hafa unnið einskonar hermdarverk með því að velta þessu máli — jafntyrfið eins og það er — á háttv. allshn., því að hún hefir bersýnilega víxlast öll í því, og eftir því sem mjer skilst, þá hefir enginn komist óskemdur út úr þeirri baráttu nema háttv. þm. Mýr.

Í sjálfu sjer er aðalágreiningsatriðið mjög einfalt í þessu máli, það atriðið, sem mest er um deilt, hvort taka eigi upp þessa nýju reglu um álagningu útsvara, að láta heimilissveitirnar leggja alt útsvarið á og skifta því svo eftir flóknum reglum milli atvinnusveitar og heimilissveitar, eða halda sig nærri hinum eldri ákvæðum um útsvarsskyldu. Eins og kunnugt er er það aðeins einn maður úr nefndinni, sem horfið hefir að því að fella þetta nýja ákvæði um skiftingu útsvaranna niður úr frv. En að það sje felt niður, álít jeg svo mikils vert, að jeg tel vafasamt, að jeg geti fylgt frv. út úr deildinni, ef það verður ekki gert. Jeg álít þetta svo varhugavert ákvæði, að það megi með enga móti lögfestast án þess að betri undirbúningur sje fenginn og álit sveitarstjórna. Mjer er sem jeg sjái, hvernig muni verða umhorfs hjá niðurjöfnunarnefndum úti um sveitir, þegar þær í marsmánuði eiga að fara að jafna niður útsvörunum, og eiga í vændum, ef til vill, 1/3 af útsvörunum hjá mönnum, sem stundað hafa þar sjóróðra eða aðra atvinnu sumarið áður, en þá eru komnir út og austur um allar sveitir. Jeg held, að nefndunum veiti erfitt að ætlast á um það, hvað gjaldast kann frá öðrum hreppum, og þá um leið að ákveða útsvörin heima fyrir, er ókunnugt er með öllu um útsvarsupphæð þeirra, sem að vísu eru gjaldskyldir, en greiða eftir niðurjöfnun í heimilissveit. Auk þess fylgja slíkri skiftingu eftir á ókleifir vafningar og skriffinska. Jeg verð því að álíta, að reglan um skiftingu útsvaranna eftir á verði með öllu óframkvæmanleg, og fyrir þá skuld mun jeg ekki geta fylgt frv., ef hún verður ekki feld úr því.

Nú getur farið svo við atkvgr., að það beri fyr að, sem mjer er óhægara að greiða atkvæði um, og hefði jeg því viljað, að ákvæðið um skiftinguna væri borið fyrst undir atkvæði. Hefði jeg verið í sporum flm. tillögunnar, hv. þm. Mýr., mundi jeg mælast til þess, að svo yrði gert.

Með því að jeg hefi hugboð um, að fleiri hafi kvatt sjer hljóðs, skal jeg ekki hafa þessi orð mín lengri.