16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2243 í B-deild Alþingistíðinda. (1805)

15. mál, útsvör

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Það er nú liðinn alllangur tími frá 2. umr. þessa máls. Hefir háttv. deildarmönnum því gefist kostur á að athuga málið nákvæmlega, enda hafa nú komið fram brtt. á 9 þskj. Og svo bar við, að tveimur þeirra var ekki útbýtt fyr en á þeim sama fundi og málið átti að koma til umræðu; sakir þess var það tekið út af dagskrá hjerna á dögunum.

Skal jeg þá minnast nokkrum orðum á brtt. nefndarinnar. Eru þá fyrst brtt. á þskj. 287.

Við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni var felt niður það ákvæði 16. gr. frv., að einn maður úr skattanefnd skyldi starfa með niðurjöfnunarnefnd, en þess var ekki gætt þá að í 1. gr. frv. var ákvæði í sambandi við þetta. Fyrsta brtt. nefndarinnar er því að fella niður úr 1. gr. orðin: „ásamt tilkvöddum skattanefndarmanni“.

Þá er 2. brtt. nefndarinnar. við 8. gr. frv. Hún var tekin aftur við 2. umr., af því að hæstv. atvrh. mæltist til þess; þótti hún ekki nægilega skýrt orðuð. Brtt. þessi snertir ákvæðið um útsvarsálagningu á heimilislausa menn, sem lögskráðir eru á skip. Eftir frv. er talið vafasamt, að leggja megi útsvar á slíka menn ef þeir eru lögskráðir á færeysk eða dönsk skip, því að ákvæði frv. um þetta atriði er á þá leið, að þar skuli leggja á slíka menn, sem eigandi skips eða útgerðarmaður á heimili. Úr þessu er bætt með brtt. þessari. Þar er svo ákveðið, að leggja skuli á þá í útgerðarstað skips hjer á landi, ef eigandinn er útlendur.

Þá er enn brtt. frá nefndinni. Hún er á þskj. 296 og gengur í þá átt, að inn í ákvæði 9. gr., þar sem rætt er um skiftingu útsvara á milli sveita, skuli bæta orðinn „verslun“ . Eftir frv. eins og það er nú er ekki heimilt að leggja útsvar á verslunarrekstur, sem rekinn er skemur en 8 vikur, en nefndinni fanst sanngjarnt, að um slíkan verslunarrekstur giltu sömu ákvæði og t. d. um síldarkaup, og það því fremur, sem hliðstætt ákvæði er í gildandi lögum.

Þá er 2. brtt. nefndarinnar á þskj. 296, við 30. ár. frv. Hún er í nánu sambandi við brtt. á þskj. 284, frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Brtt. hans fer fram á, að mánaðarlegir dráttarvextir útsvara sjeu lækkaðir út 1% niður í ½%. Nefndin er þessum háttv. þm. sammála um, að það sje ef til vill of hátt að taka 1%, mánaðarlega í dráttarvexti, eða sem samsvarar 12% á ári. En hinsvegar virðist henni ekki fært að lækka þetta til helminga, því að hún telur með því ekki nægilegt aðhald fengið fyrir greiðslu útsvara í tæka tíð. Vill nefndin því til samkomulags setja þessa dráttarvexti ¾% fyrir hvern mánuð eða hluta úr mánuði, sem líður frá gjalddaga, uns gjaldið er greitt.

Þó jeg ætli ekki að tala um brtt. einstakra þm., fyr en þeir hafa gert grein fyrir þeim, þá vil jeg þó taka það hjer fram, að nefndin fellst á tvær fyrstu brtt. háttv. 2. þm. Rang. á þskj. 284. Henni finst það ákvæði 6. gr. frv., sem mest var um deilt við 2. umr., koma skýrar fram eins og það er orðað í brtt. háttv. þm.

Enda er skýringin alveg hliðstæð skilningi nefndarinnar á ákvæðinu.

Þá er hin brtt. líka til skýringar. Hún er við 27. gr. frv. og hljóðar svo: „Eigi getur gjaldandi vegna kæru eða áfrýjunar losast undan að greiða útsvarið á ákveðnum gjalddaga, en verði það fært niður, skal mismunurinn endurgreiddur honum.“ Nefndin hafði líka lagt þennan skilning í þetta ákvæði frv., en telur skýrara, að það komi svona fram. Fellst hún því á þessa brtt.

Þá á nefndin enn brtt. á þskj. 328, við 6. gr. Er það heimild fyrir atvinnumálaráðherra að undanþiggja útsvari björgunarstarfsemi á sjó, hvort heldur einstaklingar eða fjelög reka hana.

Það var eftir tilmælum sjávarútvegsnefnda, að allshn. tók upp þessa breytingu. Eins og kunnugt er, hefir björgunarskip verið hjer við land mörg undanfarin ár, og hefir haft mikið að gera og oft komið að góðum notum. En svo hvarf skip þetta hjeðan mjög skyndilega, og eftir því, sem frá hefir verið skýrt, mun orsökin hafa verið ósamkomulag við Reykjavíkurbæ út af útsvarsgreiðslu.

Menn þeir, sem töluðu við allshn. um þetta, töldu mjög þýðingarmikið að hafa björgunarskip hjer við land. Meðal annars sökum þess, að vátryggingargjöld skipa myndu hækka, ef hjer væri ekki björgunarstarfsemi. Til þess að koma í veg fyrir þetta, er brtt. þessi fram komin. Annars býst jeg við, að einhver úr sjútvn. geri frekari grein fyrir þessu.

Þá vil jeg gera lítilsháttar grein fyrir brtt. á þskj. 288, sem jeg er flm. að ásamt fjórum háttv. deildarmönnum. Till. þessi er um það, að útgerðarmaður sá, sem leggur afla á land utan heimilissveitar sinnar samfleytt fjórar vikur af gjaldárinu, skuli því aðeins útsvarsskyldur, að hann láti sjálfur fullverka aflann á staðnum. Eins og mönnum mun kunnugt, er aðalstefna frv. þessa sú, að draga úr heimildinni til að leggja útsvör á menn utan heimilissveitar þeirra. En eins og jeg benti á við 2. umr. þessa máls hjer í deildinni, er ein undantekning frá þessu, og hún er einmitt fólgin í þessu ákvæði frv., þegar afli er lagður á land samtals mánaðartíma. Aðeins í þessu eina tilfelli er útsvarsskyldan færð út frá því, sem hún er í gildandi lögum.

Okkur flm. þessarar brtt. finst þetta mjög varhugavert atriði, því að það kemur niður á atvinnurekstri manna einmitt á þeim stöðum, þar sem aðstaða er til að leggja á hann ýmsa aðra þungbæra skatta. Að það sje mjög varhugavert að færa útsvarslöggjöfina út að þessu leyti, er hægt að sanna með skýrslum, sem liggja fyrir um kjör þau, er útvegsmenn eiga við að búa í verstöðvum víðsvegar um landið.

Við flm. brtt. á þskj. 288 viljum, að útsvarsskyldan í þessu tilfelli sje bundin því skilyrði, að jafnframt því, sem aflinn er lagður á land, þá sje hann einnig verkaður þar, því að þá er töluvert öðru máli að gegna. Þá er um að ræða atvinnurekstur um lengri tíma. Jafnframt hefir það í för með sjer aukna notkun mannvirkja á staðnum, svo sem vega, fiskreita o. fl.

Jeg vænti nú að háttv. deildarmenn geti verið sammála um, að hjer sje um nauðsynlega og sanngjarna tillögu að ræða, eins og nú er ástatt um kjör margra útvegsmanna úti um land, sem neyddir eru til að nota uppsátur eða viðlegu utan heimilis síns.

Skal jeg svo ekki fjölyrða um þetta frekar nú. Og jeg geymi að gera grein fyrir aðstöðu nefndarinnar til brtt. einstakra þm. þangað til síðar.