16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2247 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

15. mál, útsvör

Halldór Stefánsson:

Jeg ætla aðeins að minnast stuttlega á brtt. mínar á þskj. 216. Fyrsta brtt. mín. við 7. gr., er aðeins orðabreyting, til þess að það komi skýrara fram, undir hvaða kringumstæðum leggja eigi útsvar á með tilliti til dvalartíma, en ekki eftir efnum og ástæðum.

Önnur brtt., við 9. gr., er sömuleiðis orðabreyting til skýrari framsetningar.

Í upphafi 9. gr. er sú höfuðregla sett, að þar í sveit skuli útsvar gjalda, sem það er lagt á. En svo kemur undanþáguboðun með þessum orðum; „Þó skal skifta útsvari milli sveita“. — og undantekningarnar svo taldar upp í 4 liðum á eftir.

Annar málsliður 1. töluliðs byrjar svo aftur á sömu undanþáguboðun: „Þó skal skifta útsvari.“ — Þegar maður les þetta á síðari staðnum, finst manni það koma eins og fjandinn úr sauðarleggnum, en með því að lesa áfram má þó skilja, að þessi síðasta undanþága á aðeins við mismunandi tímalengd, en það skilst ekki fyr en búið er að lesa liðinn til enda. Hjá þessari tvíræðu og óviðfeldnu framsetningu má komast með þeirri framsetningu, sem brtt. mín á þskj. 216 leggur til. Ef til vill mætti til skýringar bæta við c.-lið, sem endar þannig: „þótt skemur sje rekið“ — að bæta þar við: „en 4 vikur.“ Jeg álít þó, að þess þurfi ekki, en mjer hefir verið bent á, að það væri skýrara, og get jeg fallist á það, og vilji hæstv. forseti taka við skriflegri brtt. í þá átt, mun jeg koma fram með hana.

Þá er 3. brtt., við 9. gr. Hún var rædd hjer í háttv. deild við 2. umr. og vel tekið en þá var hún borin fram við 8. gr., en nú við 9. gr. Sje jeg ekki ástæðu til að fjölyrða um hana nú.

Þá er 4. og síðasta brtt., við 10. gr. Hún er bygð á því, að heimilissveit gjaldþegns á fyrsta rjettinn til þess að fá útsvar hans, því að á henni hvíla allar aðalskyldurnar við gjaldþegn. Brtt. fer því fram á það, að lágmarkshluti heimilissveitar sje bundinn við ½ en ekki 1/3, eins og í frv. stendur. Þetta er í rauninni lítill munur, en þó mundi þessi brtt. heldur draga út annmörkunum, sem af skiftingunni stafa, á þann hátt, að í færri tilfellum en áður þyrfti að skifta útsvari.