16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2263 í B-deild Alþingistíðinda. (1810)

15. mál, útsvör

Jón Baldvinsson:

Jeg á enga brtt. og þarf því ekki mikið að segja. En jeg finn mig knúðan til að gera nokkrar athugasemdir við brtt. á þskj. 288, sem er flutt af nokkrum þm., og brtt. á þskj. 284, frá hv. 2. þm. Rang. (KlJ). Er jeg alveg samþykkur till. hans, að minsta kosti 1. og 2. till., enda er hin fyrri algerlega í samræmi við skoðun mína, er jeg setti fram við 2. umr. þessa máls. Það hefir ekki verið ætlun mín, að leggja ætti bæði á fjelag og eign einstakra manna í fjelagi. En það, sem fyrir mjer vakti með till. minni við 2. umr. var að það væri ótvírætt, að fjelög gætu ekki sloppið við útsvar. Tekur till. hv. 2. þm. Rang. þetta miklu skýrar fram en áður var.

Þá er hin till., við 9. gr., á þskj. 288. Við 2. umr. kom hjer fram till., sem gekk enn lengra í því að breyta ákvæðum frv. og draga úr því, sem hægt er að leggja á menn utan heimilissveitar. Þessi till. gengur þó ekki eins langt, en samt finst mjer rjett að láta ákvæði frv. haldast og fella þessa till.

Það er alveg rjett hjá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), að orkað getur tvímælis, hvort till. þessi sje svo skýr, að ekki verði vilst um, við hvað er átt. Er mikil spurning um það, hvort hún hefir nokkra þýðingu fyrir þá, sem hv. flm. bera fyrir brjósti. Mjer skilst, að aðalástæðan sje sú, að þeir vilja láta mótorbáta og togara, sem leggja upp afla sinn utan lögheimilis í tæpar 4 vikur af gjaldárinu, sleppa við að greiða útsvar eftir 9. gr. Ef nú t. d. togari, sem á lögheimili annarsstaða, leggur upp afla sinn í Hafnarfirði í 8 vikur og einnig í Reykjavík jafnlangan tíma. þá hefir hann þannig verið samtals 6 vikur utan sinnar sveitar og á þá eftir till. að sleppa við að greiða útsvar. En jeg efast samt stórlega um, að lögin verði skilin svo, 1. tölul. 9. gr. tekur til allra þeirra, er reka atvinnu á fleiri en einum stað, og 2. tölul. til þeirra, er stunda atvinnu minst 3 mánuði í sömu sveit. Mjer skilst einnig, að ef skip stundar veiðar fjarri lögheimili sínu meira en 4 vikur, hljóti það að komast undir útsvarsákvæði. En hitt, sem fyrir flm. vakir, er ekki rjett. Þeir vilja láta leggja á útsvar, ef útgerðarmaður lætur verka fiskinn á staðnum, en ef hann er fluttur burtu á ekki að leggja á útsvar. Þess má þó geta, að hjeraðsmenn hafa atvinnu við það, að fiskurinn er verkaður, en sje hann fluttur burt, bætist ofan á atvinnutapið það, að ekki má leggja á útsvar. Mjer finst því jafnvel eðlilegast, að tekið sje fram, að greiða skuli útsvar, ef fiskurinn er fluttur burtu.

Háttv. þm. Borgf. drap á það, að hjer væru aðeins færð út ákvæði gildandi laga. En hann má ekki gleyma því, að ekki hefir áður verið gengið eins langt í því að leggja á útsvör og nú.

Háttv. 2. þm. Eyf. hefir miklar áhyggjur út af frv., og jeg get vel skilið, að Siglufjörður þykist verða hart úti, ef ákvæði frv. haldast óbreytt og till. verður samþykt. Jeg skil vel ástæðuna fyrir því að vilja leggja á á hverjum stað og skifta síðan milli heimilis- og atvinnusveitar. Hún er komin fram af þeirri togstreitu, sem mjög hefir verið tíðkuð hjer. Þetta frv. gengur út á það að draga úr hinum mikla eltingaleik í útsvarsálagningum, og hefi jeg gengið svo langt að offra fyrir mitt kjördæmi til þess að stuðla að því, að þessum eltingaleik hætti, sjerstaklega að því er verkafólkið snertir.

Jeg verð að telja mig samþykkan sumum brtt. háttv. þm. Barð. (HK). eins og atkvgr. mun sýna, en að öðru leyti er jeg sammála háttv. allshn. í aðalatriðunum, enda þótt ætíð hljóti að vera einhver ágreiningur, þegar um svo stórt mál er að ræða sem þetta.