16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2267 í B-deild Alþingistíðinda. (1812)

15. mál, útsvör

Þorleifur Jónsson:

Það er engin furða, þó að ágreiningur geti orðið um jafnmikilvægt mál og þetta, enda koma nú fram við þessa 3. umr. málsins milli 30 og 40 brtt. Jeg á enga af þessum brtt., en vildi þó aðeins minnast á eina eða tvær þeirra. Jeg ætla fyrst að nefna brtt. á þskj. 288. frá hv. þm. Borgf. o. fl. Það hefir verið minst á hana frá ýmsum hliðum. Í raun og veru fer hún í sömu átt og till. háttv. þm. (PO) við 2. umr., að undanskilja frá útsvari þá, sem stunda veiði utan heimilissveitar. Jeg sje ekki, að um mikinn efnismun sje að ræða, þó að orðalagið sje dálítið öðruvísi. Það er síðasta setningin, sem dregur svo mjög úr því, að hægt sje að leggja útsvar á þá, sem veiði stunda utan heimilissveitar. Það er víða svo, að þessir menn leggja upp aflann og salta hann á þeim stað, sem útgerðin er rekin frá, flytja hann síðan heim til sín og fullverka hann þar. Svo mun það vera í Sandgerði. Á Hornafirði er það svo, að aflinn er ýmist fluttur burtu eða seldur upp úr sjó eða salti. Jeg sje ekki ástæðu til að undanskilja þá menn útsvari, sem selja afla sinn á staðnum, fremur en hina sem láta fullverka hann. Það er vitanlega mikill atvinnumissir fyrir þá veiðistöð, sem í hlut á, að aflinn sje fluttur óverkaður burtu, og mjer finst ekki ástæða til að verðlauna þá, sem slíku valda, með því að undanskilja þá útsvari. Í raun og veru held jeg, að það sje alveg rangt að ganga svona langt, og vil mælast til, að þessi brtt. verði feld. Þar sem jeg fyrir mitt leyti er mótfallinn skiftingu útsvaranna með þeim hætti, sem ákveðið er í frv., tel jeg, að brtt. á þskj. 226, frá hv. 2. þm. Eyf. (BSt), fari nokkurnveginn í rjetta átt. Eftir henni er ætlast til, að atvinnusveitin geti lagt á atvinnurekstur líkt og verið hefir. Jeg er hræddur um, að þessari skiftingu fylgi ýmsir vafningar og erfitt geti orðið um framkvæmdir. Að minsta kosti fylgja henni miklar brjefaskriftir og skriffinska á alla lund, eins og jeg hefi áður vikið að. Jeg get vel búist við, að svo kunni að fara, að atvinnusveitin gefist alveg upp við að gera rjett sinn gildandi, vegna þeirra erfiðleika, sem henni eru skapaðir í þessu frv., og endirinn verði sá, að hún fái ekki neitt útsvar.

Fyrst er þess að gæta, að í 11. gr. er þeim, sem stundað hafa atvinnu utan heimilissveitar sinnar, gert að skyldu að gefa skýrslu um atvinnu sína og dvöl fyrir febrúarlok. En í 14. gr. er gert ráð fyrir, að sveitarstjórnir semji um áramót skrár yfir þá gjaldendur, sem útsvör ber að heimta frá úr annari sveit. Nú fer atvinnurekstur inn fram á vetrarvertíð, og skilst mjer þá, að nokkuð langt geti liðið þar til þessum málum er að fullu komið í kring, og jeg held, að það verði erfitt fyrir atvinnusveit að gera nokkra sennilega áætlun um tekjur utansveitaratvinnurekenda. Jeg held, að þessu fylgi yfirleitt miklu meiri vafningar en margur heldur. Þá finst mjer óþarfi að skjóta kærum til yfirskattanefnda í stað sýslunefnda. Jeg veit ekki til, að sýslunefndir hafi yfirleitt misbrúkað vald sitt í þessu efni. Þá er nýtt atriði í 23. gr., um að yfirskattanefndir fái þóknun fyrir starf sitt, mjer skilst m. a. fyrir úrskurði um útsvarskærur. Hjer er um nýjan kostnað að ræða fyrir sýslusjóðina, og þó ef til vill sje ekki um mikla upphæð að ræða, má vel benda á þetta.

Þetta frv. er svo merkilegt, að sjálfsagt er, að það sje grandskoðað af þinginu. Annars álít jeg málið svo vaxið, að rjett væri, að þingið legði ekki síðustu hönd á þetta frv. að svo komnu, heldur væri það nú milli þinga sent út til sveitarstjórna og þær látnar segja álit sitt um hin ýmsu nýmæli frv. Það er miklu hægra fyrir sveitarstjórnir að átta sig á málinu nú, þegar ákveðnar tillögur liggja fyrir. Jeg mun samt ekki koma með till. um, að þessi deild vísi málinu til stjórnarinnar nú þegar; rjettast, að hv. Ed. fái einnig að fjalla um það. En jeg áliti þó rjettara, að svo væri farið með frv. að lokum, að skorað væri á stjórnina að leita umsagna sveitarstjórna um ýms atriði í frv. áður en málinu væri ráðið til fullra lykta.