16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2287 í B-deild Alþingistíðinda. (1815)

15. mál, útsvör

Bernharð Stefánsson:

Jeg verð að taka undir það, sem hv. þm. A.-Sk. og hv. 1. þm. S.-M. hafa látið í ljós um, að heppilegt væri, að frv. gengi ekki fram nú. Jeg álít, að ef frv. gengi fram óbreytt eða lítið breytt, muni á sumum sviðum verða svo mikil bylting í þessu efni, að ekki geti verið heppilegt að breyta svo hastarlega frá því, sem nú er. Annars sannfærist æ betur og betur um það eftir því sem málið er meira rætt hjer í hv. deild, að ekki mundi hafa verið vanþörf á að sú tillaga, sem samþykt var í fyrra hjer í hv. deild um skipun milliþinganefndar í þetta mál, hefði náð samþykki þingsins og komin til framkvæmdar. Jeg býst við, að þá mundu fleiri hagsmunir og fleiri skoðanir hafa verið teknar til greina og reynt að samræma það.

Hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og hv. frsm. (PO) hafa vikið að orðum mínum í dag af miklum móði. Hv. þm. Ísaf. sagði, að ástæðan fyrir nauðsyn á endurskoðun útsvarslöggjafarinnar hefði verið eltingaleikur við menn, sem atvinnu stunda utan heimilissveitar sinnar. Þetta verð jeg að efast um. Aðalástæðan var ósamræmið í löggjöfinni og það, að önnur ákvæði giltu í sveitum en í kaupstöðum. Hv. þm. sagði, að því meira sem við fjarlægðumst eltingaleik þennan, því betra. En jeg býst við, að hjer sem annarsstaðar þurfi að gæta hófs, því að hóf er best í hverjum hlut. Jeg hefi áður sýnt fram á, að atvinnusveitin á líka sanngirniskröfur til útsvars af atvinnurekstri. Ef altaf færi saman heimilissveit og framfærslusveit, væri alt öðru máli að gegna, og þá væri rjett að líta meira á hag heimilissveitar. En þetta fer ekki nærri altaf saman. Framfærslusveitin á mest á hættu um manninn, en oft fær hún ekki einn eyri í útsvar frá honum. Hv. þm. sagði, að rjettur gjaldþegns væri betur trygður, ef heimilissveitin legði á hann útsvar en þegar útsvarið greiddist í atvinnusveit. Þetta verð jeg að efast um. Atvinnusveitin þekkir miklu betur þann atvinnurekstur, sem þar fer fram, og jeg verð því að ætla, að hún hafi meiri skilyrði til að geta lagt rjettmæt útsvör á atvinnureksturinn en heimilissveitin.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að það, sem vekti fyrir mjer, væru hagsmunir Siglufjarðarkaupstaðar. Þetta er að nokkru leyti rjett; jeg skal játa, að hagsmunir Siglufjarðarkaupstaðar vaka fyrir mjer, en einnig hagsmunir annara staða á þessu landi. Jeg vil benda á, að á sama hátt og rjettur Siglufjarðar er skertur með þessu frv. er líka skertur rjettur Vestmannaeyja og Hornafjarðar. Ennfremur gildir það sama um fleiri staði í mínu kjördæmi, t. d. Hrísey og Ólafsfjörð.

Hv. þm. sagði, að sá rjettur, sem Siglfirðingar hafa haft í þessu efni, hefði oft verið misbrúkaður, og því væri rjett að afnema hann. Þetta er fullyrðing, alveg órökstudd, og því ekkert tillit hægt til þess að taka. En jeg efast ekki um, að mörgum aðkomumanninum, sem lagt hefir verið á á Siglufirði, hefir sjálfum fundist útsvar sitt ranglátt. En slíkt er algengt, að mönnum finst sitt eigið útsvar of hátt, og þetta sannar alls ekki, að útsvörin þurfi að vera ranglát. Menn sjá eftir útsvari til sinnar eigin sveitar, og náttúrlega enn meira til þeirrar sveitar, sem þeir eiga ekki heima í.

Jeg ætla þá að snúa mjer að hv. frsm. allshn., sem einnig vjek að minni ræðu. Hann sagði út af a.-lið 1. tillögu minnar, að laxveiði væri bundin við fasteignaafnot og oft seld sjerstaklega, en selveiði væru engin dæmi til, að seld væri sjer. Jeg hygg, að þó að þetta kunni að vera rjett hjá hv. frsm., að þetta hafi aldrei verið gert, þá sje það ekki því til fyrirstöðu, að hægt sje að selja selveiði sjer og láta það sama eiga við um selveiðar og laxveiðar, og er því hugsunarlega rangt að aðskilja þetta tvent. Út af b.-lið tillögu minnar, um að á eftir b.-lið 8. greinar komi nýr liður, eins og segir á þskj. 226, sagði hv. frsm., að af því leiddi stórkostlega skerðing á rjetti heimilissveitarinnar. Skerðing á rjetti heimilissveitarinnar frá því, sem er í gildandi lögum, er það ekki, heldur þvert á móti. Þó tillögur mínar yrðu samþyktar, mundi heimilissveitin samt sem áður standa miklu betur að vígi heldur en eftir núgildandi lögum, en jeg álít, að í frv. sje skertur um of rjettur atvinnusveitarinnar.

Hv. frsm. og hv. þm. Ísaf. hjeldu því fram, að atvinnusveitin þekti ekki ástæður þeirra manna, sem hún væri að leggja á. Jeg verð að halda því fram, að hún þekki ástæður þess atvinnurekstrar, sem um er að ræða, betur en heimilissveitin; þær ástæður, sem jeg álít, að fyrst og fremst beri að taka tillit til. Hv. frsm. talaði um, að mjer nægði ekki, að afli, sem væri lagður á land 4 vikur samfleytt, væri útsvarsskyldur, heldur vildi jeg líka gera síldarafla útsvarsskyldan, enda þótt um skemri tíma sje að ræða. Þetta er rjett, en það byggist á því, sem jeg tók fram í fyrri ræðu minni og hv. frsm. gerði enga tilraun til að hnekkja, að síldaraflanum er þannig háttað, að hann gefur oft af sjer afarmiklar tekjur á skömmum tíma, og meiri en önnur veiði. En mjer skilst það vera rjettara að leggja á þær tekjur, sem maðurinn hefir, heldur en á þann tíma, sem hann er að afla þeirra, því maður getur jafnvel verið lengi að afla lítilla tekna.

Þá mintist hv. frsm. á brtt. mína við 9. gr. og hjelt því fram, að jeg hefði með till. minni um að lækka tímatakmarkið úr 3 mánuðum niður í 2 mánuði ráðist á 20 ára gömul lagaákvæði. Önnur rök færði hann ekki fyrir máli sínu en að ákvæðið væri gamalt. En jeg álít, að aldur laga sje engin trygging fyrir rjettlæti þeirra. Ef þessi röksemdafærsla hans móti brtt. minni væri rjett, þá mætti hið sama segja um frv. og brtt. hans og annara hv. þdm.: Það er alt árás á gömul lög og lagavenjur.

Þó sagði hv. frsm., að sig furðaði enn meir á síðari lið brtt., er jeg lagði til að færa lágmarkið niður í 1000 kr., þar sem svo hefði farið við 2. umr., að þetta hefði verið hækkað úr 2 þús. upp í 3 þús. kr. Það er að vísu rjett, að þetta var samþ. við 2. umr. En það er ekkert ósamræmi hjá mjer að bera fram þessa brtt., því jeg greiddi atkv. á móti hækkuninni. Og þó að hv. deild gerði rangt þá, er ekki ástæða til að örvænta um, að hún geti gert rjett nú. Jeg verð að álíta alla hv. þdm. svo samviskusama, að ef hægt er að sannfæra þá um rjettmæti einhvers máls, láti þeir það ekki í vegi standa um að fylgja því, þó þeir hafi áður verið á móti því. Hann gat þess, sem rjett er; að jeg hefði lýst því yfir, að jeg teldi rjett, að takmarka þyrfti nokkuð útsvarsálagningu atvinnusveitar, en kvaðst þó hinsvegar ekki koma þessari yfirlýsingu minni heim við brtt. En þetta er auðvelt, því verði frv. samþ. með brtt. mínum, þá er samt um nokkrar takmarkanir að ræða frá því, sem nú er. Áður var ekkert lágmark tekna, sem atvinnusveit mætti leggja á, heldur aðeins um tímatakmark að ræða.

Hv. frsm. mintist á, að jeg hefði haldið því fram, að skifting útsvara samkvæmt 9. gr. yrði erfið þegar til framkvæmdanna kæmi. Það er rjett, að jeg hefi haldið þessu fram. Hinsvegar taldi hann ekki samræmi í því, að jeg legði til, að fyrri málsgrein 78. gr. yrði feld niður. Þetta er lítilfjörlegt atriði, sem jeg læt mjer í ljettu rúmi liggja, hvernig fer um, enda hygg jeg, að skiftingin yrði lítið margbrotnari, þó að hún yrði samþykt. Aðalbrtt. mínar eru við 8. gr., og tel jeg þær miklu meira en vega upp á móti þessari, hvað þetta sjerstaka atriði snertir. Og yrðu þær allar samþyktar ásamt brtt. mínum við 9. gr., yrði skifting útsvaranna miklu óbrotnari og ljettari í vöfum heldur en eftir frv. Og ef ekki stæði annað í vegi fyrir samþyki þeirra, gæti jeg vel gengið inn á að taka brtt. við 13. gr. aftur.

Hv. frsm. vildi ekki kannast við, að ekkert ósamræmi væri milli gjaldstofnanna í 8. og 9. gr. Hann sagði, að í 9. gr. væri atvinnurekstur miðaður við stuttan tíma, en í 8. gr. væri um langan tíma að ræða, og aðallega þann rekstur, sem stæði árlangt. Þetta virðist mjer ákaflega hæpið. Jeg býst t. d. við, að enginn stundi laxveiði árlangt, eða annað þess háttar. sama er og um leiguliðaafnot að segja, þar sem ekki fylgir ábúð, eins og t. d. upprekstur í afrjett o. fl. Jeg verð að halda mjer við það, sem jeg hefi áður sagt, að þetta sje nokkuð af handahófi sett í frv., en hinsvegar er úr þessu bætt og því komið fyrir á fastari og tryggari grundvöll með brtt. mínum.

Þá var hv. frsm. eitthvað að gefa í skyn, að jeg vildi þvo hendur mínar af Siglufjarðartill. Þetta er ekki rjett. Jeg flyt aldrei nema rjett og sjálfsögð mál fyrir Siglfirðinga, t. d. um að koma upp sjúkrahúsi o. s. frv., svo þess vegna þarf jeg aldrei að þvo hendur mínar af neinum órjettmætum Siglufjarðartill.

Annars býst jeg við, að þessum hv. þm. hafi dottið þetta í hug af því, að hans eigin samviska hafi rumskað við honum og mint hann óþægilega á, að nú væri kominn tími til þess, að hann þyrfti að þvo hendur sínar af Akranestill. Jeg hefi t. d. aldrei farið fram á það fyrir Siglufjörð, að Alþingi breytti flóum og fjörðum frá því, sem verið hefir, en þetta hefir hv. þm. Borgf. gert vegna Akurnesinga, og fjekk það samþykt. Þegar drottinn skóp landið með flóum þess og fjörðum, hefir hann eflaust ekki ætlast til að gera Faxaflóa eins stóran og hv. þm. Borgf. hefir nú tekist. Faxaflói nær ekki og hefir aldrei náð nema að Garðskaga. (PO: Jú, jú, jú, frá upphafi veraldar).

Jeg hefi heldur aldrei farið fram á, að Siglfirðingum væri gefin upp rjettmæt skuld, enda munu þeir greiða sjálfir skuldir sínar, og það refjalaust. En þetta hefir hv. þm. Borgf. gert fyrir Akurnesinga, nú nýlega. (MT: Batnandi manni er best að lifa). Annars þykir mjer það undarlegt, að þessi sami hv. þm. skuli altaf vera að tala um þennan eltingaleik við að ná útsvörum af mönnum, sem stunda atvinnu utan heimilissveitar., því jeg man ekki betur en að hann hafi sjálfur tekið fullan þátt í slíku. Eða hvernig var það hjerna um árið, þegar hann var að koma því í kring, að hægt væri að leggja útsvör á slægjuafnot? Var það ekki gert fyrir hans elskulegu kjósendur í Borgarfirði? (PO: Það var gert fyrir alt landið). Jeg skal nú ekki karpa lengur um þetta. Fyrir mitt leyti hefði jeg helst kosið, að mál þetta hefði verið afgreitt með rökstuddri dagskrá og frv. borið undir sveitarstjórnir landsins, svo að þeim hefði gefist kostur á að segja álit sitt um það fyrir næsta þing. En till. til rökstuddrar dagskrár liggur ekki fyrir, svo um það þýðir ekki að tala. Hinsvegar vil jeg geta þess, að jeg mun ekki fylgja dæmi hv. þm. Barð. (HK), að greiða frv. atkv., þótt brtt. hans falli. Verði brtt. mínar feldar, mun jeg greiða atkv. móti því, að frv. komist út úr deildinni.