16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2293 í B-deild Alþingistíðinda. (1816)

15. mál, útsvör

Magnús Torfason:

Jeg hefi ekki lagt hjer til mála síðan við 1. umr., að jeg sagði nokkur orð, og það sakir þess, að málið hefir verið í meðferð nefndar og deildin nú gert mun meiri umbætur á því fyrirkomulagi, sem við höfum búið við, en jeg hefi nokkru sinni leyft mjer að vonast eftir.

Jeg lít svo á, þó að deilt sje um ýms atriði, þá eigi ekki að setja það fyrir sig og samþykkja heldur frv. sem breytingaminst, því það er víst, að fyrir allflest sveitarfjelög er það til stórra bóta. Þess vegna mundi illa þegið af fjöldanum, ef eitthvað það yrði nú gert, að lagabót þessi næði ekki fram að ganga, eins og hún er þó vel á veg komin.

Annars stóð jeg upp til þess að fylgja úr hlaði smábrtt., sem jeg hefi borið fram við brtt. á þskj. 288. Í sjálfu sjer er þar ekki um neitt nýmæli að ræða, heldur er hún aðeins fram komin til varúðar. Eins og brtt. á þskj. 288 er orðuð, þá er gert ráð fyrir, að útgerðarmaður þyrfti sjálfur að vera á staðnum og sjá um verkun á afla sínum. En þetta er ekki meiningin með henni, því aðkomumenn fara þegar vertíð er lokið.

Jeg tók eftir, að úr einu horni var sagt, að þetta gæti komið illa við að því leyti, að menn flyttu fisk burt af höfn til verkunar. Þetta eru víst sjerstakar undantekningar, því að ekki eiga þær sjer stað þar, sem jeg þekki til, t. d. í verstöðvunum austanfjalls, og það af þeirri einföldu ástæðu, að það borgar sig ekki að flytja fiskinn; það er svo dýrt.

Jeg sagði, að þetta hljóð hefði komið úr einu horni. Jeg trúi ekki, að það geti skaðað þá sveit neitt, þó brtt. mín sje samþ. Fiskur úr Hornafirði mundi aldrei verða fluttur til stórra muna austur á fjörðu til verkunar. Jeg man eftir, að í landafræði þeirri, sem jeg lærði í skóla og Halldór Friðriksson, sá mæti mann, hafði samið, var það tekið fram, að á Djúpavogi væru 300 þokudagar á ári, svo jeg get varla trúað, að neinn geri það að gamni sínu að flytja þangað fisk til verkunar.