16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2296 í B-deild Alþingistíðinda. (1818)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg ætla að vera mjög stuttorður, enda eru umr. orðnar langar. Jeg skal því ekki fara mikið út í einstakar brtt., heldur láta mjer nægja að vísa til þess, sem hv. frsm. hefir um þær sagt, enda er jeg honum í flestu sammála.

Út af því, sem hv. 1. þm. N.-M. (HStef) sagði um þessa nýju brtt. sína, sem hann hefir nú flutt, þá skal jeg taka það fram, að jeg get með ánægju greitt henni atkvæði mitt.

En það var aðallega út af orðum hv. 1. þm. S.-M. (SvÓ), sem jeg vildi segja nokkur orð. Hann virtist halda því fram, að frv. ætti ekki að verða að lögum á þessu þingi. Jeg vil nú segja honum það, að frv. á alllangt í land, þótt það yrði samþ. nú. Jeg fyrir mitt leyti dreg enga dul á það, að jeg vil, að það verði að lögum, þó mjer hinsvegar blandist ekki hugur um það, að það eigi eftir að koma hingað aftur; því jeg get ekki trúað því, að hv. Ed. fallist á það óbreytt. En ef tilgangurinn er, að frv. eigi að sendast út um sveitir og gjaldendurnir að láta uppi skoðun sína á því, þá er mikilsvert, að það hafi að minsta kosti komist í gegnum 2. umr. í hv. Ed. Annars held jeg enga bót í því að spyrja allar hreppsnefndir og sýslunefndir á landinu um álit sitt á frv. Við vitum, að þar vill hver ota sínum tota og erfitt að greina á milli svaranna, hvar sanngirnin sje mest.

Þá er því haldið mjög á lofti, að skifting útsvara eftir frv. hafi mikla skriffinsku í för með sjer. Því skal ekki neitað, að hún verði nokkur, en ekki get jeg líkt því við þá skriffinsku, sem leiðir af berklavarnalögunum, og þykir þó ástæða til að halda þeim uppi. Það er ekki með neinum rökum hægt að finna frv. til foráttu, þó að kosti dálitla fyrirhöfn að framkvæma ýms ákvæði þess. Og eigi að keppa að því að auka rjettlæti í landinu, þá má ekki horfa í það, þó að það kosti nokkrar brjefaskriftir. Það hefir þótt við brenna, að ekki væri auðvelt að finna rjettlátan mælikvarða á meðan atvinnusveit hefir óbundnar hendur til þess að leggja á eftir eigin geðþótta. Og þótt þær raddir sjeu ekki eins sterkar nú og áður, þá hefir þó heyrst, að legið hafi við borð, að sumir atvinnurekendur hafi hugsað til að flýja á brott undan ósanngjörnum álögum atvinnusveitarinnar.

Því skal ekki neitað, að umr. eru nú orðnar miklar um þetta mál. En það hefði líka orðið, þó að milliþinganefnd hefði samið frv. Þetta mál snertir svo marga menn, að hjá því getur ekki farið, að mikið sje um það rætt. Auk þess eru skoðanir manna svo skiftar í þessu efni, að óhugsanlegt er að setja lög um það, sem allir væru fúsir á að undirskrifa.

Að minsta kosti gæti jeg ekki hugsað mjer að finna þann meiri hluta í þinginu, sem gæti fallist einhuga á öll ákvæði frv.

Þá hefir því verið haldið fram af hv. 2. þm. Eyf. (BSt) að atvinnusveit eigi kröfur um hlutdeild í útsvari þeirra manna sem þangað sækja atvinnu. Í frv. eru einmitt ákvæði, sem tryggja þetta. En það má ekki gleyma því, að heimilissveit á líka heimting á þessu. Í frv. er reynt að vega, hve mikið atvinnusveit eigi að bera úr býtum gagnvart heimilissveit, án þess þó að gjaldandanum sje misboðið, því einnig hann á heimting á, að honum sje sýnd fullkomin sanngirni.

Jeg mun nú ekki segja margt fleira þar sem áliðið er orðið fundartímans, en mikilsvert að ljúka málinu í kvöld. Þó vil jeg bæta við einu atriði, út af því, sem hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) sagði. Það er hreinn misskilningnr hjá honum, að það sje vantraust á sýslunefndir að taka af þeim úrskurðarvaldið um útsvarskærur, heldur vil jeg, að það sje gert af alt öðrum ástæðum. Útsvör eru ekki lögð á fyr en í fyrsta lagi í febrúar, og hljóta þá kærurnar venjulega að koma eftir þann tíma, er sýslufundur er afstaðinn. Verður þá annaðhvort að fá öðrum úrskurðarvaldið eða bíða næsta árs um úrskurðinn. — Austur-Skaftafellssýsla er að vísu undantekning um þetta, því að sýslufundur er haldinn þar mun síðar en í öðrum hjeruðum. Gæti jeg vel gengið inn á það til samkomulags við hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ), að ef sýslufundur væri ekki afstaðinn, mætti hann úrskurða um þær kærur, sem komnar væru. En ástæðan til þess að hafa sjerstaka nefnd til að úrskurða þetta er nauðsynin að fá úrskurð sama ár, en alls ekki vantraust á sýslunefndum. En jeg verð að álíta það of kostnaðarsamt að kalla saman aukafund í sýslunefnd um ekki stærra mál en útsvarskærur eru oftast nær. Og jeg held því fram, að ekki verði sagt, að það sje ónóg að hafa 3 menn til að dæma um útsvarskæru, alla þá stund, sem við höfum aðeins 3 menn í hæstarjetti, svo stór mál sem þar koma stundum. (ÓTh: En það er líka alt of lítið).