01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 708 í B-deild Alþingistíðinda. (182)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Eggert Pálsson):

Margt fer öðruvísi en ætlað er, má segja um meðferð hv. deildar á fjárlagafrv.

Þegar fjvn. skilaði frv. í deildina, lá það þannig fyrir, að ætla mátti, ef brtt. hennar fengju að standa, að tekjuhallinn mundi aukast um 12 þús. kr., að frádregnum 10 þús. kr., sem var sjálfsögð leiðrjetting á reikningsskekkju, sem var í frv., er það barst frá hv. Nd., svo eiginlega var ekki að ræða um nema 2 þús. kr. aukinn tekjuhalla.

Nú hefir farið svo, að tekjuhallinn hefir aukist í meðferð hv. deildar við 2. umr. um rúm 58 þús. kr., eða rjettara sagt, þegar 10 þús. kr. reikningsskekkjan er dregin frá, hefir tekjuhallinn orðið frekar 48 þús. kr.

Eftir 3. umr. er viðbúið, að tekjuhallinn aukist allmikið, en ekki hægt að segja fyrirfram, hve mikið það verður; en hitt er auðsætt, að gera megi ráð fyrir, að alllangt sje horfið frá því, sem ætlast var til í upphafi.

Ef svo færi, að allar þær brtt., sem fram eru bornar til hækkunar, yrðu samþyktar, mundi aukning tekjuhallans nema um 68 þús. kr. eftir þeim brtt., sem bornar eru fram á þskj. 457; en nú bætist við hækkunartill. á þskj. 463, sem hækkar hann um 2500 kr. Svo að ef þessar allar till. yrðu samþyktar, mundi láta nærri, að allur tekjuhalli frv. yrði um 327 þús. krónur. En ef nú aftur á móti allar lækkunartill. yrðu líka samþyktar, sem varla þarf að gera ráð fyrir, mundi tekjuhallinn verða alls rúmar 278 þús. kr.

Þannig yrði þá útkoman, þegar deildin sendi frv. frá sjer. En um þetta er vitaniega ekkert hægt að fullyrða að svo komnu, því að enn er ekki sjeð um fylgi hinna einstöku brtt.

Nefndin hefir ekki komist hjá að gera nokkrar brtt. við frv., og er þær allar að finna á þskj. 457.

Fyrsta brtt. nefndarinnar er sú VIII. í röðinni og fer fram á að bæta aths. við 14. gr. A. b., 4. lið, um að greiða megi Kjartani prófasti Helgasyni í Hruna full prestslaun með dýrtíðaruppbót, ef hann lætur af prestsskap og tekur við skólastjórn á Laugarvatni. Við þessa brtt. hefir svo komið önnur brtt. á þskj. 463, en hún breytir að engu innihaldi hinnar. Þó að brtt. þessi verði samþykt, hefir hún engin áhrif á reikningsútkomu fjárlaganna á pappírnum, eins og aths. ber með sjer, heldur aðeins á ríkissjóð eða prestlaunasjóð.

En þó að brtt. þessi sje fram borin af fjvn., eins og þskj. ber með sjer, þá er jeg henni mótfallinn og get því ekki mælt með henni. Er það þó ekki vegna þess, að eftirlaunasjóð eða prestlaunasjóð muni um þessa upphæð, eða að jeg sjái eftir því, að þessum virðingarverða og jeg vil segja einum mætasta presti landsins sje greidd sómasamleg eftirlaun, er hann lætur af prestsskap. Það, sem fyrir mjer vakir, er það, að þessi mæti maður er leiddur í töluverða freistni. Það er freistni að bjóða manni full laun fyrir að láta af starfi, sem hann hefir gegnt með sóma og prýði fyrir sína stjett, og taka við öðru starfi, sem hann fær vitanlega laun fyrir, en tæplega það há, að hann geti lifað af þeim eingöngu. Og því fremur er þetta freisting fyrir mann á gamalsaldri, sem á við þröngan hag að búa.

Hjer er líka um fleiri ástæður að ræða, sem gera þetta tilboð tvíeggjað fyrir hinn mæta mann, sem hjer um ræðir. Á aðra hliðina er þess að gæta, að skólinn er eða verður að ýmsu leyti af vanefnum gerður og mikil óánægja risin upp í hjeraðinu út af valinu á skólastaðnum. Er því sýnt, að það yrði vandi mikill og ótal örðugleikum bundið fyrir sjera Kjartan að taka við skólastjórninni, og þó að vel ætti við hann að gera og sómasamlega; sem hann hefir fyllilega verðskuldað, gæti svo farið, að honum reyndist það harmabrauð eitt að taka við þessu nýja starfi og koma skólanum á rjettan kjöl. —

Frá sjónarmiði Árnesinga er það líka varhugavert, þó að sýslan við þennan gerning yrði þess aðnjótandi að komast hjá í bili að greiða skólastjóra eins há laun og ella, þá mundi síðar sjeð, að það leiðir dilk á eftir sjer og verður síst til sparnaðar í framtíðinni. Sá næsti, sem við skólastjórninni tæki, mundi líta á, hvaða laun fyrirrennari hans hafði og sækjast eftir svipuðum kjörum. Afleiðingin yrði þá sú, að Árnesingar mundu ekki komast hjá að bæta þeim, sem næst tæki við skólastjórninni, það ríflega upp launin, að þau yrðu talsvert hærri en nú er gert ráð fyrir. Og þetta meðal annars gerir það, að jeg á bágt með að ganga að brtt.

En það er vegur fyrir sjera Kjartan Helgason að komast út úr öllum þessum óþægindum með því að taka við skólanum um 2 til 3 ár, fara svo frá og njóta eftirlauna sinna. En jeg þekki svo skap hans, að hann mun aldrei gera það, heldur mun hann starfa við skólann, ef hann tekur hann að sjer, á meðan líf og heilsa endist.

Þá kem jeg að næstu brtt., þeirri X. í röðinni, og er hún í 2 liðum og snertir eingöngu Vallanesprestakall. Jeg verð nú að segja eins og það er, að það er hart, að einu stærsta vandamáli þingsins skuli skotið á frest þangað til á síðustu stundu og þessari hv. deild ætlað að ráða fram úr því. En svo er um þetta mál, sem hjer liggur fyrir, að það hefir legið fyrir hv. fjvn. Nd. og hún komist hjá að taka ákvörðun um það.

Mál þetta er þannig vaxið, að þegar sjera Magnús Blöndal ljet af prestsskap og fór frá Vallanesi, var honum gert að skyldu að svara álagi að upphæð 11095 kr. Að álagið er svona hátt, kemur til af því, að bær sá, sem fylgir prestakallinu, er í algerðri niðurníðslu vegna berklasýkingarhættu. Bænum hefir ekki verið haldið við í 15 ár, eða síðan presturinn flutti úr honum. Og þó að sjera Magnús hafi reynt til að leigja hann og haft vilja til að bæta upp á hann, hefir enginn fengist til þess að búa í honum eða snerta þar við neinu, vegna sýkingarhættunnar. Bæði landlæknir og þáverandi hjeraðslæknir, Jónas Kristjánsson á Sauðárkróki, hafa gefið þá yfirlýsingu, að nærri þessum bæ mætti ekki koma á annan hátt en til þess að brenna hann til ösku. Af því að álagið er svo hátt, hefir fráfarandi prestur ekki sjeð sjer fært að greiða það, og því skotið máli þessu til þings og stjórnar.

Upp í þetta álag er virt spýtnarusl og útihús, sem samtals verður 1815 kr., sem viðtakandi prestur vill þó ógjarnan taka við, en eftir standa þá 9280 kr., sem allir sjá, að er óvanalega hátt álag, er fráfarandi Vallanespresti er gert að skyldu að svara. Og eins og áður er tekið fram, stafar það eingöngu af sýkingarhættu þeirri, sem málsmetandi menn telja að bænum fylgi. Það virðist nú liggja í augum uppi, að ósanngjarnt væri að heimta slíkt álag af fráfarandi presti, en samkvæmt lögum er ekki önnur leið fær. En til þess að einhver sanngirni kæmist hjer á, hefir málinu verið skotið til þings og stjórnar, og ákvörðun fyrst tekin um það hjá fjvn. þessarar hv. deildar nú á síðustu stundu, af því fjvn. Nd. hratt öllum vanda af sjer.

Fráfarandi prestur í Vallanesi, sjera Magnús Blöndal, hefir eignast sneið af Vallaneslandi, sem nefnist Jaðar. Þar hefir hann reist dýrar og vandaðar byggingar: stórt og mikið íbúðarhús, fjós og önnur útihús — og allar þessar byggingar eru úr steinsteypu. Öll þessi eign er virt á 37 þús. kr. eftir síðasta fasteignamati. Nú hefir verið hugsað sjer, að þessi eign fjelli aftur undir Vallanesprestakall, og yrði það mikil viðbót við þá eign, sem fyrir er, og sem prestlaunasjóði ætti að koma að notum síðar. Landið er talið víðáttumikið og gott undir bú og búið að rækta stórt og mikið tún á Jaðrinum, svo gera má ráð fyrir, að eftirgjald jarðarinnar hækkaði að miklum mun við næsta mat.

Til þess nú að fara þann veg, sem báðir aðiljar gætu sætt sig við, hefir verið hugsað, að ríkissjóður keypti af fráfarandi presti Jaðarinn með öllum byggingum og öðrum mannvirkjum fyrir 25 þús. kr., en gefa svo presti eftir helming álagsins. Að vísu hefði mátt orða þetta öðruvísi, t. d. að kaupa alla eignina á 30 þús. kr., en gefa ekkert eftir af álaginu. En hvort sem heldur yrði gert, verður með þessari útkomu mismunurinn 20 þús. kr., sem greiða yrði þá fyrir Jaðarinn. Til þess nú að komast fram úr þessu, er hugsað upp á 5 þúsund króna lán, sem prestakallið taki — en hærra lán er ekki hægt að taka eftir lögunum frá 1913 — og að ríkissjóður leggi til viðbótar 10 þús. kr. styrk. Ætti þá presturinn í Vallanesi að standa straum af þessu láni um vexti og afborganir, en prestakallinu veittur annar sjerstakur styrkur, 5 þús. kr., afborgana- og vaxtalaus, til húsakaupanna, svo að útkoman verður þá alls 20 þús. kr., eins og Jaðarinn kostar með öllum byggingum.

Þetta er þá lausnin á þessu vandamáli, sem fjvn. væntir, að hv. deild geti fallist á, enda þykist hún enga aðra lausn sjá, og gerir hún ráð fyrir, að bæði núverandi og fráfarandi prestur sætti sig við hana. Að vísu mun sjera Magnús Blöndal telja sig vanhaldinn og fá heldur lítið fyrir eign sína, sem ekki er líkt því að nema fasteignamatinu, en hann fær þó að rjettu lagi 30 þús. kr., þó hann hinsvegar verði að standa skil á öllu álaginu. Þess vegna álítur nefndin, að ekki sje um annað að gera, úr því sem komið er, en að sætta sig við þessa lausn á málinu. Og viðtakandi prestur mun einnig sætta sig við þessa ákvörðun, því að þó að hann taki að sjer að borga lítilsháttar meira en prestar alment — aðrir hafa þetta 10–12 þús. kr. prestakallslán að svara af, en hann 15 þús. kr. — þá stendur hann sig vel við það, vegna þessara stóru bygginga, sem koma til með að fylgja prestakallinu. Það er innanhandar fyrir hann að taka með sjer bónda á jörðina, sem hjálpar honum til að greiða kostnaðinn. Að kunnugra manna sögn er jörðin svo stór, að báðir geta búið þar stórbúi.

Þá kem jeg að XIV. brtt., um daufdumbraskólann, og er þar um annað vandamálið að ræða, sem dregið hefir verið fram á síðustu stundu að taka ákvörðun nm. Báðar fjvn. hafa nú sjeð skólahúsið, og dylst víst engum, að ekki geti dregist lengur, að þar verði einhver bót á ráðin. Er húsið svo lítilfjörlegt og ófullkomið í alla staði, að slíkt má ekki eiga sjer stað stundinni lengur, og því afarbrýn þörf á, að bætt sje úr því. Þessu húsi fylgir þó stór lóð, sem gera má ráð fyrir, að hægt muni að selja, skólanum að skaðlausu, og það fyrir svo hátt verð, að megnið af byggingarkostnaðinum ætti að vinnast upp. Áætlað er, að þessi viðbótarbygging við skólann muni kosta um 40–50 þús. kr. samkv. teikningum og áætlunum, sem gerðar hafa verið og lágu fyrir nefndinni. Er hugsun nefndarinnar, að mest af þessum kostnaði náist með því að selja lóðir, sem skólinn þarf ekki á að halda, og væntir nefndin því, að viðbótarstyrkur ríkissjóðs, ef nokkur yrði, mundi aldrei nema hárri upphæð.

Þá er næsta brtt. nefndarinnar, XVI,1. ekki stórvægileg. Nefndin leggur til, að þessi liður um Lög Íslands standi óbreyttur eins og hann er í frv., að öðru leyti en því, að aftan við hann bætist eða „Lagasafni handa alþýðu“, alt að 100 kr. á örk. Með þessu er sjeð fyrir því, að ef útgáfan skyldi einhverra hluta vegna hætta, þá sje ekki loku fyrir það skotið, að fjenu megi verja til útgáfu á Lagasafni handa alþýðu, og er því jafnframt lagt til að hækka liðinn um 500 kr., svo hægt sje að gefa út það, sem fyrir hendi liggur.

Þá er 9. liður sömu brtt., þar sem lagt er til, að styrkur til skálda og listamanna lækki um 2000 kr. Ástæðan til þess, að nefndin fer fram á þessa lækkun, er sú, að nú hafa þegar verið teknir inn í frv. svo mýmargir menn, sem annars hefðu hlotið að koma til greina við úthlutun styrksins. Má þar t. d. benda á skáldkonuna frú Kristínu Sigfúsdóttur, sem tekin hefir verið upp í 18. gr. Það liggur í augum uppi, að hún kemur ekki til greina við úthlutun styrksins, þar sem henni hefir verið skipað á bekk með öðrum skáldum í 18. gr. Og svo er um fleiri listamenn, sem styrks eiga að njóta samkv. sjerstökum liðum frv. og mundu annars hvíla á þessum lið. Ef á þetta er litið, sýnist það engin fásinna hjá fjvn. að lækka þennan lið. Það er búið að tína svo marga af listamönnum upp í frv. — (JJ: Á eftir að setja fáeina inn í dag !). Þess þá heldur — að svo gæti farið, að stjórnin lenti í vandræðum með úthlutun styrksins, nema þá að grípa til þess að launa einhverja miðlungsmenn af handahófi.

Þá er næsta brtt. nefndarinnar um utanfararstyrk handa Sigurði Þórðarsyni söngstjóra. Mig minnir, að nefndin hafi í einu hljóði fallist á að taka þennan mann upp í frv., enda leikur ekki á tveim tungum, hvílíka afbragðshæfileika hann hefir til að bera að æfa menn við söng og skapa úr mörgum mönnum ágætan söngflokk. Það er alveg dásamlegt, hvernig honum hefir tekist að æfa menn sinn úr hverjum flokki og hvernig honum hefir tekist að láta þá fara svo með efnið, sem raun hefir orðið á. Jeg þykist svo ekki þurfa að mæla frekar með þessum manni, því að hann er öllum hv. þdm. jafnvel þektur.

Þá er brtt. XXXIV, frá nefndinni, nýr liður, til Halldóru Pjetursdóttur Briem 600 kr., sem nefndin hefir fallist á að taka upp. Að hún hefir gert það, stafar ekki eingöngu af því, hvílíkur afbragðsmaður maður hennar, Ólafur Briem, var, heldur af því, að hún er sjálf orðin heilsulaus, og svo gerir það hag hennar enn erfiðari, að hún þarf að sjá fyrir heilsulausri dóttur.

Þá eru ekki fleiri brtt. frá nefndinni. Aftur á móti er hjer ein brtt., sú VII., frá mjer og hv. 6. landsk. (ÁH), sem fer fram á að hækka styrkinn til vörubifreiðaferða úr 5 þús. kr. í 7 þús. kr. Að við komum með þessa brtt., stafar af gerðum hv. deildar við 2. umr., að hún veitti 3000 kr. til ferða suður með sjó. Okkur gat ekki dulist, að hjer kom fram herfilegt misrjetti gagnvart austursveitunum: Það er engin sanngirni í því að veita 3 þús. krónur til ferða eftir afbragðsgóðum 60 km. vegi, en veita svo aðeins 5 þúsund kr. til ferða austur í Hvolhrepp, sem er 115 km. vegalengd, að Sandlæk og Torfastöðum, sem er eitthvað svipuð vegalengd, og vegirnir eru vondir og dýrir fyrir bíla. Fundum við okkur því knúða til þess að koma fram með þessa hækkun, til þess að einhver sanngirni væri í þessu, því að jeg skammast mín beinlínis fyrir að láta það vitnast, að ekki sje hafður í fjárlögunum nema 5 þús. kr. styrkur fyrir allar austursýslurnar, en 3 þús. kr. fyrir svæðið suður með sjó. Það er nú komið svo, að hvert pund af þeim vörum, sem suðurláglendið notar, þarf að flytja austur yfir heiði, því að öll verslun á Eyrarbakka má heita lögð niður. Vona jeg því, að hv. deild verði við óskum mínum um hækkun á þessum styrk. Jafnframt viljum við, að breytt verði aths. við þennan lið þannig, að hjeraðsstjórnirnar, sýslunefndirnar, hafi íhlutunar- eða tillögurjett um það, hvernig þessi styrkur verði notaður, því að það er talsverður vandi að láta hann koma rjettlátlega niður. Hjer er aðeins um álit þeirra að ræða; stjórnin hefir frjálsar hendur, en jeg kann betur við, að þeir, sem notin hafa, segi álit sitt um, hvernig haganlegast sje að nota styrkinn.

Skal jeg svo ekki orðlengja meira um þetta að svo komnu, en bíð þess, sem hæstv. stjórn og hv. deildarmenn hafa að segja um till. nefndarinnar.