16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2300 í B-deild Alþingistíðinda. (1820)

15. mál, útsvör

Hákon Kristófersson:

Jeg skal reyna að vera stuttorður og ekki fara að þrátta við hv. frsm. allshn. meira en minst verður komist af með. Jeg geri ráð fyrir því, að við gætum staðið hjer dag út og dag inn í marga mánuði og karpað um þetta, og sannfærði þó hvorugur annan. Þó get jeg ekki stilt mig um að benda á, hvílík dæmalaus firra það var, sem hann sagði um 1. brtt. mína, að þótt boðað væri til sveitarfundar, þá gæti það komið fyrir, að hreppsnefnd eða bæjarstjórn einsömul kæmi á þann fund, og rjeði því úrslitunum.

Þá vil jeg benda á það, í sambandi við 11. brtt. mína, v ið 23. gr., að þótt feld hafi verið við 2. umr. brtt. um, að 24. gr. fjelli burt, þá lít jeg svo á, að það hljóti að vera afleiðing af 11. brtt. minni, ef hún verður samþ., að þessi breytingartillaga megi komast að. Vil jeg því leggja það undir úrskurð hæstv. forseta, hvort 12. brtt. mín verði ekki tekin til greina, ef hin verður samþykt.

Þá vil jeg mótmæla því, að skattaframtalið verði undirstaðan undir útsvarsálagningu, heldur á að leggja á eftir efnum og ástæðum. Tel jeg óþarft að fara nú að hnekkja því, sem fram hefir verið borið gegn minni skoðun og sumir hafa kallað „rök“ ; það hefi jeg marggert áður.

Jeg vil leyfa mjer að leiðrjetta, að jeg hafi sagt, að ekkert væri leggjandi upp úr hreppsnefndabrjefunum. Hafi jeg sagt nokkuð í þá átt: hefir það verið alveg óviljandi. — Eins er það, að jeg miði alt við Barðastrandarsýslu; því vil jeg algerlega mótmæla. En jeg vil aðeins segja það, að menn, sem eru eins ógurlega víðsýnir eins og t. d. hv. þm. Borgf., eiga ekki að vera að bregða meðbræðrum sínum og vinum um þröngsýni, þó þeir hafi ekki eins víðan sjóndeildarhring og hann sjálfur. — Jeg læt hjer staðar numið, því að jeg býst við, að hver sitji við sinn keip, þótt við hjeldum áfram að karpa um þetta. — Jeg hefi víst fyr í umræðunum tekið það fram, að jeg mun greiða atkv. með frv., þótt einhverjar misfellur kunni að verða á því, sakir þess, að það á eftir að fara gegnum hreinsunareldinn í hv. Ed., og þar vona jeg, að sviðni af því verstu vankantarnir.

Jeg er alveg sammála hæstv. atvrh. um það, að ekki verði hneykslast á, þótt nokkrar umræður verði um annað eins mál og þetta, þegar stundunt fara heilir dagarnir í að tala um allskonar rusl, eins og sjá hefir mátt dæmin stundum á síðari tímum.

Jeg hefi það ekki á mínu valdi, hvort brtt. mínar verða samþyktar, en hefi gert þessa tilraun til að endurbæta frv., í þeirri von, að góðir menn mundu ljá mjer fylgi sitt.