16.04.1926
Neðri deild: 55. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2302 í B-deild Alþingistíðinda. (1821)

15. mál, útsvör

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Nú get jeg verið afarstuttorður, enda ekki ástræða til að svara mörgu. Raunar væri þörf að segja fáein orð við hv. 2. þm. Eyf. (BSt). út af því, sem hann sagði um rjett heimilis- og atvinnusveitar. Hæstv. atvrh. hefir nú svarað honum að mestu leyti. Þó get jeg ekki komist hjá að benda honum á, að það er munur á að leggja á eftir efnum og ástæðum þar, sem maður dvelur aðeins stuttan tíma og er öllum ókunnugur eða þar, sem hann er heimilisfastur og hægt er að taka tillit til allrar afkomu hans. (RSt: Atvinnusveitin veit best um afkomu hans þar). En það er aðeins lítill hluti af allri afkomu mannsins og getur gefið alveg ranga mynd af raunverulegu gjaldþoli hans.

Hv. þm. hneykslaðist á því, sem jeg sagði um 20 ára gömul ákvæði í lögunum. En þó veit hann, að grundvallarástæðan til að menn vilja breyta útsvarslögunum, er að þeir vilja takmarka heimildina til að leggja útsvar á utansveitarmenn. Hv. deild hefir nú þegar lýst sig þeirri stefnu fylgjandi. Hv. 2. þm. Eyf. sagði, að hún væri þar á rangri leið, og vill víst gefa henni kost á að sjá að sjer. En nú hefir ekkert nýtt komið fram, sem gæti stuðlað til þess, nema þá það væri árangur af sendiförinni miklu frá Siglufirði. Því að eins og ýmsir hv. þm. hafa líklega orðið varir við, kom hjer fyrir skemstu hið fríðasta lið frá Siglufirði, með sjálfan bæjarfógetann í broddi fylkingar. Jeg þykist stundum hafa sjeð þetta vörpulega lið hjer á göngunum, og væri varla ólíklega til getið, að þeir hefðu nefnt útsvarslögin við einhverja hv. þm. — Það væri ekki úr vegi að benda í þessu sambandi á ósköp lítið dæmi um útsvarsálagningarnar á Siglufirði. — Þó að jeg geti ekki hjer í umræðunni lesið upp allar sannanir fyrir þessu, þá hefi jeg þær þó með höndum og er fús til að sýna hv. 2. þm. Eyf. þær, ef hann vill rengja sögusögn mína. — Þessi saga var þannig að við aukaniðurjöfnun í haust var þar lagt útsvar á tvo aðkomukaupmenn. Annar hafði haft litla verslun, sakir þess að hann vantaði oft vörur og fjekk hann 650 kr. útsvar. Hinn hafði verslað nokkru meira, enda lagðar á hann 800 kr. Þetta virtust nú vera sæmilegar upphæðir til þess að sjá Siglufirði fyrir sínu. En viti menn! Þegar útsvörin eru birt, kemur fram kæra frá kaupmönnum á staðnum, og krefjast þeir þess, að útvarið sje fimmfaldað. Niðurjöfnunarnefnd sá sóma sinn í að synja þessu, en hinir áfrýjuðu til bæjarstjórnar. Þar var hækkunartillagan feld með jöfnum atkvæðum. En af hverju? Af því að einn bæjarfulltrúinn, sem var með hækkuninni. var að sjá um afgreiðslu á skipi og kom of seint á fund til að geta greitt atkvæði! Þá hefi jeg og gögn fyrir því, og get sýnt þau hv. 2. þm. Eyf., að í sumar voru lögð útsvör á utanbæjarmenn sem svaraði 83 aurum á hverja síldartunnu, sem þeir söltuðu á Siglufirði, en útsvör innanbæjarmanna námu sem svaraði tæpum 30 aurum á hverja síldartunnu. — Þetta er svona ofurlítill spegill af ágæti þessarar heimildar til að leggja á aðkomumenn eins og Siglfirðingar nota.

Hv. 2. þm. Eyf. var hinn reiðasti út af því, að jeg sagði, að hann einblíndi nokkuð mikið á Siglufjörð í þessu máli. Þótti honum mjer varla farast að mæla digurt, því að ekki væri jeg barnanna bestur með hreppapólitíkina. Nefndi hann tvent til. Annað var það, að jeg hefði farið fram á að fá uppgjöf á láni til fátæks hrepps, og hitt, að jeg hefði fengið því framgengt, að færð voru út takmörk Faxaflóa til hagsmuna fyrir Akurnesinga. Hann sagði, að frá sköpun heimsins (BSt: landsins!). — Jæja, landið er hluti af heiminum og hefir nú líklega verið skapað um svipað leyti. — já, hann sagði, að frá sköpun landsins hefðu takmörk Faxaflóa verið ákveðin. Jeg er því nú hjartanlega sammála, og skal í því sambandi benda á, hvernig forfeður vorir litu á það mál. Í 2. kap. Landnámu segir svo um siglingu þeirra Hrafna-Flóka og fjelaga hans að landinu:

„Þeir kvámu austan at Horni, ok sigldu fyrir sunnan landið. Enn er þeir sigldu vestr um Reykjanes, ok upp lauk firðinum. svá at þeir sá Snæfellsnes, þá ræddi Faxi um: Þetta mun vera mikil land, er vér höfum fundit; hér eru vatnföll stór.“ Síðan er þat kallaðr Faxaóss.“

Jeg held, að þetta skeri sæmilega úr um takmörk Faxaflóa að sunnan, svo að enginn þarf að bera kinnroða fyrir að hafa veitt mjer fylgi í því máli. — Jeg man nú ekki betur en að þessi ágæti háttv. 2. þm. Eyf. hafi fylgt mjer að báðum þeim málum, sem hann nefndi til að sanna, að jeg væri að þessu leyti haldinn sama sjúkdómi og hann. Raunar segist hann ekki fylgja öðrum málum en þeim, sem góð eru og nytsamleg (gagnstætt flestum öðrum þingmönnum!). og fyrst hann fylgdi mjer þarna, þarf víst ekki frekar vitnanna við um; að þessi mál hafa verið að hans áliti góð mál og nytsamleg, og stendur hann því illa að vígi með að fella þungan áfellisdóm yfir mjer fyrir að hafa flutt þau.

Eiginlega þyrfti jeg að svara hv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) nokkru, en verð að sleppa því, til þess að atkvgr. geti orðið sem fyrst.