19.04.1926
Efri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2307 í B-deild Alþingistíðinda. (1825)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Á síðasta þingi var samþ. áskorun til stjórnarinnar um að leggja fyrir þetta þing frv. um útsvör. Þetta var gert þegar í þingbyrjun, er frv. þetta var lagt fyrir hv. Nd., sem nú er komið þaðan hingað til 1. umr. Það er ekki annað hægt að segja en að Nd. hafi tekið þessu frv. vel. Afgreiðsla þess þar hefir að vísu gengið seint, bæði vegna þess, að allmargar brtt. komu þar fram við frv., og vegna þess, að frv. varð að sitja á hakanum fyrir fjárlagafrv.

Frv. var ekki lengur í nefnd hjá Nd. en vænta mátti: mestur drátturinn á afgreiðslu þess stafaði af fjárlagafrv., sem var þar til umræðu samtímis útsvarsfrv., en ef svo hefði ekki viljað til, mundi frv. hafa gengið tiltölulega greitt gegnum Nd. Þótt tíminn sje nú orðinn naumur, vil jeg biðja háttv. allshn. þessarar deildar að taka þetta mál til eins gagngerðrar athugunar og föng eru á. Jeg er ekki í neinum vafa um, að frv. felur í sjer mikla rjettarbót og bætir mjög úr því vandræðaástandi, sem nú er og ekki virðist vera viðunandi lengur. Það hefir jafnvel farið svo, að í sumum stöðum á landinu hafa menn haft í hótunum um að flytja á brott vegna þess, hve harðlega þeir væru skattaðir í útsvörum, bæði af atvinnu- og heimilissveitum, og sumstaðar hafa menn jafnvel flutt brott af þessum sökum.

Eins og kunnugt er, er mest kvartað undan því, að útsvör eru lögð á menn á 2–3 eða fleiri stöðum á sama ári, og var mikil óánægja orðin yfir þessu fyrir nokkrum árum. En þó heyrði alveg um þvert bak, er Reykjavíkurbær fjekk heimild til að leggja útsvör á sjómenn, sem voru lögskráðir á skip, sem gerð voru út þaðan. Síðan hefir óánægjan yfir þessu magnast stórum, enda er hún á rökum bygð. Í þessu frv. er bent á leið til þess að komast hjá þeirri tvísköttun á mönnum með útsvörunum, þannig að gert er ráð fyrir, að ekki megi leggja á menn nema á einum stað, þ. e. í heimilissveitinni. Þetta er þó þeim vandkvæðum bundið, að sjá verður fyrir því, að atvinnusveitirnar verði ekki of mikið fyrir barðinu á þessum ákvæðum í lögunum. Til þess að fyrirbyggja þetta eru sett í frv. ákvæði um skifting útsvaranna. Það er viðurkent, að heimilissveitin á mestan rjett til útsvaranna, en þegar atvinna er rekin langan tíma ársins utan heimilissveitar, þá er það ósanngjarnt að neita atvinnusveit um hluta af útsvarinu. Ef nú á að sameina þetta tvent, að leggja ekki útsvar á nema í einum stað og láta bæði atvinnusveit og dvalarsveit fá sinn hluta, þá þarf að skifta útsvörunum á einhvern hátt, og sú regla hefir verið tekin upp í 8. og 9. gr. frumvarpsins. Hvort það er sú rjettasta eða besta regla, skal jeg ekki fullyrða um. En það er víst, að víða á Norðurlöndum hafa verið teknar upp svipaðar reglur og gefist vel. Jeg er í engum vafa um, að þetta verður talsverð fyrirhöfn, að minsta kosti fyrst í stað. En þar sem hjer er um að ræða rjettláta skattalöggjöf, er vitanlega til töluverðs að vinna, og dugir því ekki að telja eftir nokkra fyrirhöfn. Það má ekki heldur einblína á hag heimilissveitar og atvinnusveitar, því til er þriðji aðili í þessu máli, og það er gjaldandinn sjálfur, sem greiða á gjaldið.

Af breytingum þeim, sem gerðar voru á frumvarpinu í neðri deild og snerta stefnu þess, er ekki hægt að telja nema eina, sem sje flutning milli 8. og 9. greinar. En þar sem málið er nú til 1. umr., sje jeg ekki ástæðu til að fara út í einstök atriði frumvarpsins.

Það er nú svo, þegar búa á til löggjöf sem þessa, þá kemur margt fyrir, sem getur verið álitamál. Hjer getur það t. d. verið álitamál, hvað heimilissveitin á að fá minst, ef maðurinn rekur atvinnu annarsstaðar alt árið.

Það hefir farið svo í neðri deild, þrátt fyrir töluverðan skoðanamun, að tillögur stjórnarfrumvarpsins hafa orðið liðsterkastar í flestum atriðum. Að vísu var upphæð sú, sem menn þurfa að vinna sjer inn í atvinnusveit til þess að verða útsvarsskyldir, hækkuð. Þó var það ekki gert með eindregnum vilja deildarinna, því að líka komu fram tillögur um að lækka hana.

Geri jeg svo ekki ráð fyrir, að rjett sje að tala meira um málið á þessu stigi, og legg til, að því verði vísað til allshn. að umræðunni lokinni.