08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2310 í B-deild Alþingistíðinda. (1828)

15. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Eggert Pálsson):

Jeg skal byrja á því að geta þess, að það er prentvilla í nál. meiri hlutans, á bls. 2. 10. línu að ofan. Þar stendur „hnoða“, en á að vera: bræða. Jeg hefi gert ráðstafanir til þess að skrifstofan leiðrjetti það.

Það hefir fallið í minn hlut að verða frsm. meiri hl. allshn., og skal jeg nú lofa því að verða ekki langorður, enda munu hv. deildarmenn vera orðnir æðiþreyttir. Jeg skal nú viðurkenna það, að jeg hefi ekki mikið vit á sveitarstjórnarmálum; jeg hefi ekki mikið fengist við þau um dagana, þótt jeg að vísu hafi komið nokkuð nærri þeim. Jeg reiði því hvorki þekkingu nje vit í þverpokum í þessu efni. En slíkt hið sama verður tæplega sagt um meðnefndarmann minn, hv. þm. Seyðf. (JóhJóh). Hann hefir um langt skeið verið sýslunefndaroddviti og bæjarstjóri á Seyðisfirði, og hefir því fyrir það öðlast mikla reynslu og þekkingu á þessum málum. Jeg hygg því, að jeg standi á traustum grundvelli, er jeg fylgi honum að málum í þessu efni. En hvað sem okkar þekkingu líður, þá býst jeg þó við, að þeir, sem frv. sömdu í upphafi, taki okkur þó fram í þekkingu á þessum efnum. Það má að minsta kosti segja, að reynslan hafi sýnt það. Í Nd. komu margar brtt. fram við frv. En reynslan varð sú, að þær fjellu flestar. hv minni hl. (GuðmÓ) segir, að höfund eða höfunda frv. muni hafa skort kunnugleika á þessum málum, eða þá að sjónarhringur þeirra hafi ekki náð neitt að gagni út fyrir kaupstaðina. Þetta er harðlega að orði komist og ekki sanngjarnt, þar sem jeg veit, að hæstv. atvrh. hefir nokkuð haft hönd í bagga með samningu frv. En hann hefir lengi verið sýslunefndaroddviti í einu stærsta landbúnaðarhjeraði þessa lands og hlýtur því að hafa mikla þekkingu á þessu sviði. Jeg get og vel fyrirgefið hv. minni hl. slettur hans í garð okkar meðnefndarmanna sinna. Við vitum, að hann á það til að vera nokkuð glettinn, og því fúsar erum við að fyrirgefa það, þar sem við vitum, hvað samkomulagið hefir altaf verið gott í nefndinni. Honum finst það rekast á, að við teljum eðlilegt, að Nd. hafi þurft langan tíma til að athuga þetta frv., en við treystum okkur til þess að afgreiða það á svona stuttum tíma. En það er nú svo að mál þurfa venjulega lengri tíma í Nd., og kemur það af því, að hún er mannfleiri. Kemur það í ljós hjer sem annarsstaðar, að betra er fámenni en fjölmenni til rólegrar athugunar. Um þetta frv. er það að segja, að allshn hefir lagt venjulega vinnu í það. Hún hefir lesið það gaumgæfilega yfir og borið það saman við stjfrv. og athugað breytingarnar, svo ekki er hægt að segja, að hún hafi kastað til þess höndunum. En að því er snertir afstöðu okkar meiri hlutans, þá teljum við kosti þessa frv. marga. Aðalkostur þess er, að það safnar öllum laga ákvæðum um þetta saman í eitt og samræmir þau. Vegna kosta frv. erum við tilleiðanlegir til að bera hlýjan hug til þess í heild sinni. Svo er líka gaumur gefandi fordæminu í Nd. Brtt. þær, sem þar komu fram, voru flestar feldar og gerðu ekki annað en tefja fyrir málinu. Ekki er líklegt, að betur færi hjer, eða þá að Nd. gengi að þeim brtt., er hjer yrðu samþyktar. Þess vegna má það vera skiljanlegt, að við þyrftum minni tíma til að athuga frv. þetta heldur en hv. minni hluti, sem var fyrirfram ákveðinn í því að skilja gera breytingar. En þó hafa þær orðið færri en jeg hafði ástæðu til að búast við.

Jeg sje svo ekki ástæðu til þess að vera langorðari að svo komnu, þar sem ekki liggja fyrir neinar brtt. frá okkur. Ef mjer finst ástæða til þess að tala um brtt. hv. minni hl., þá getur það komið til greina seinna. Annara býst jeg við, að hæstv. atvrh. taki af mjer ómakið um það.