08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2329 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

15. mál, útsvör

Björn Kristjánsson:

Jeg hefi leyft mjer að bera fram eina brtt. við þetta frv. Ef jeg hefði haft tíma til að setja mig inn í málið svo sem vert var, hefði jeg borið fram fleiri brtt., því margar umkvartanir og óskir um breytingar hafa komið úr kjördæmi mínu. Jeg skal þó geta þess, að sú brtt., sem jeg ber fram, er ekki til orðin vegna óska úr mínu kjördæmi. Eins og hv. deild er kunnugt, eina kaupfjelög að greiða útsvar af arði söludeilda sinna. Nú er það vitanlegt, að hið opinbera getur ekkert eftirlit haft með bókfærslu fjelaganna eða vitað, hve mikið þau selja utanfjelagsmönnnm. Það er því algerlega undir ráðvendni kaupfjelagsstjóranna komið, hve rjettar upplýsingar eru gefnar um þetta. Jeg hygg, að gera megi ráð fyrir, að flestir gefi nokkurnveginn rjetta skýrslu um þetta. Þó liggur hjer fyrir kæra frá einni hreppsnefnd, þess efnis, að kaupfjelagsstjórinn í hennar hreppi, sem vera mun nokkuð harðgerður maður, gefi ekki rjettar upplýsingar um þetta efni og hafi jafnvel gerst svo djarfur að hafa í hótunum við hreppsnefndina, ef hún legði ekki svo og svo lítið á fjelagið, og látið í veðri vaka, að hann mundi finna aðra leið til þess að komast hjá gjaldinu, ef hún færi ekki að vilja sínum. Jeg fer ekkert út í það, hvernig hann mundi fara að þessu, og les ekki heldur upp kæruna, skýri aðeins frá þessu.

Þessi hreppur er bláfátækur og hefir engin ráð að afla nauðsynlegra tekna. Kemur honum því mjög bagalega, að kaupfjelagið skuli skjóta sjer undan því að greiða lögmætt útsvar. Brtt. mín fer fram á, að þegar grunur leikur á um svona undanbrögð, sje hreppsnefndum gefið meira vald til að áætla þennan tekjulið heldur en frv. gerir ráð fyrir. Það ætti auðvitað að vera auðvelt að kæra þetta, en af skiljanlegum ástæðum getur oft staðið svo á, að hreppsnefndir vilji hliðra sjer hjá því og kjósi heldur að líða en stríða. Nú er tækifæri til að laga þetta.

Eins og jeg tók fram, hefi jeg ekki haft tíma til að koma fram með þær brtt., sem kjördæmi mitt hefir óskað eftir. En aðalkrafan þaðan er sú, að haft sje sama reikningsár og verið hefir. Ef sú breyting verður ekki á gerð, get jeg ekki greitt frv. atkv. Jeg þarf svo ekki meira um þetta að segja. Mjer er sama, þó frv. fari til 3. umr., ef von er um, að þessu verði breytt þá.