08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2351 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

15. mál, útsvör

Einar Árnason:

Jeg get verið afarstuttorður enda eru aðeins örfá atriði, sem jeg þarf að minnast á. Það er þá fyrst reikningsárið. Hæstv. atvrh. hjelt því fram, að þægilegra væri að hafa almanaksárið reikningsár heldur en fardagaárið. Sagði hann, að nú væri altítt, að sveitarstjórnir færðu ýmsar upphæðir á hreppsreikninga löngu eftir að fardagaárið væri liðið. Jeg þekki nú ekki til þessa, en þó má vera, að einhverjar sveitarstjórnir geri slíkt. En það er eigi að síður rangt. En þótt almanaksárið væri notað, geri ráð fyrir, að því fremur verði færðar á það ár upphæðir, sem þar eiga ekki heima, ef menn vilja komast hjá því að skifta þeim á tvö reikningsár, t. d. kostnaður við ómagaframfærslu, sem altaf er reiknaður milli fardaga, eða fræðslumálakostnaður, því að fræðsluárið er frá hausti til hausts.

En þetta er ekkert aðalatriði. Hjer liggur ekki fyrir nein brtt. um þetta. En jeg get ekki stilt mig um að segja, að jeg hefi hvergi rekist á í frv., að sagt væri, hvenær hreppsnefnd á að hafa lokið hreppsreikningi, hvenær hann á að liggja frammi, nje hvenær á að skila honum til sýslumanns. Get jeg trúað, að einhver hreppsnefnd yrði í vafa um þetta.

Þá virtist hæstv. ráðh. leggja óþarflega mikið í þau orð mín, að frv. væri óskiljanlegt. Virtist hann halda, að jeg hefði ekki skilið það sjálfur, og væri því til lítils að senda það til hreppsnefnda til umsagnar til næsta þings. Jeg hafði aldrei kvartað undan, að mjer gengi illa að skilja frv., en sagði hinsvegar, að ýmsum hreppsnefndum mundi ganga illa að átta sig á því, því að það er víða flókið.

Hæstv. ráðh. mintist á rjettlæti í frv. í sambandi við brtt. mínar, og hjelt hann, að ómögulegt væri að ná því nema með aukinni skriffinsku og fyrirhöfn. Jeg er nú hræddur um, að einhverntíma gangi illa að ná rjettlæti með þeirri rekistefnu milli sveitanna, sem stofnað er til með frv. Vil jeg efast um, að heimilissveit manns hafi altaf nægileg gögn til að geta lagt rjettilega á utansveitaratvinnurekstur manna, og er það mín skoðun, að þar standi atvinnusveitin best að vígi.

Hæstv. atvrh. tók það fram, að fyrir gæti komið, að menn, sem skaða hefðu beðið, yrðu útsvarsskyldir. Það er nú ekkert nýtt, heldur er svona altaf. Sveitin verður að fá sitt, þótt tap hafi orðið á atvinnurekstri öllum á árinu. — Þá held jeg, að jeg hafi ekki ástæðu til að fara út í fleiri atriði í ræðu hæstv. atvrh.

En jeg verð að segja nokkur orð út af ræðu hv. 1. þm. G.-K. (BK). Hygg jeg, að hún sje bygð á misskilningi. Hann virtist halda, að kaupfjelögin yfirleitt gætu ekki gert greinarmun á því, hvað fjelagsmenn hefðu verslað við þau og hvað utanfjelagsmenn. (BK: Það sagði jeg ekki, heldur einstöku fjelög). Jeg veit, hvernig þetta er í því fjelagi, sem jeg þekki best, Kaupfjelagi Eyfirðinga. Þar er velta upp á miljónir króna, en samt er lægt að sjá upp á hár, hve mikið fjelagsmenn versla við fjelagið. Það er alt skrifað, smátt og stórt, með sínu útsöluverði. Þá er ljóst, að afgangurinn af því, sem inn kemur, þegar þetta er dregið frá, er verslunin við utanfjelagsmenn, sem síðan verður lagt á. Þetta veltur því ekki eingöngu á ráðvendni kaupfjelagsstjórans, eins og hv. 1. þm. G.-K. sagði. Það veltur á því, hvort reikningar kaupfjelagsins eru falsaðir eða ekki. Auk þess, er orðalag till. meingallað. Þar er talað einungis um hreppsnefnd, en vitanlegt er, að kaupfjelög eru einnig í kaupstöðum, þar sem engar hreppsnefndir eru. Svo er orðalag till.: „ef hreppsnefnd fær grun um, að samvinnufjelag beiti undanbrögðum til að komast hjá rjettmætu útsvari,“ tæpast frambærilegt. Hæstv. atvrh. tók rjettilega fram, að ómögulegt er að samþykkja þetta, því að þá þarf hreppsnefnd ekki að færa neinar ástæður fyrir þessum grun sínum. Hv. þm. (BK) mintist á kæru, sem hefði komið frá einhverri hreppsnefnd um það, að kaupfjelagsstjóri hafi beitt hana harðræði, svo að ekki var hægt að leggja útsvar á kaupfjelagið. Mig undrar ekki, þótt þetta hreppsfjelag sje illa statt, eins og hv. þm. skýrði frá, þegar það hefir svona dæmalaust úrræðalausa hreppsnefnd. Því að vitanlega þurfti hún ekki annað en að leggja á fjelagið svo hátt útsvar sem henni sýndist. Þá varð fjelagið sjálft að sanna, að of mikið væri á það lagt, ef það fór að kvarta á annað borð. Þetta er ofur einfalt mál, og mesti óþarfi fyrir hreppsnefndina að láta kúga sig í því. Ef hjer eru þá ekki einhverjar staðleysur á ferðinni.