08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2356 í B-deild Alþingistíðinda. (1837)

15. mál, útsvör

Björn Kristjánsson:

Jeg tók það fram áðan, að jeg byggist við því, að flest stærri kaupfjelög hjeldu sæmilega reikninga yfir það, sem þau selja til utanfjelagsmanna, svo athugasemd háttv. l. þm. Eyf. (EÁ) var með öllu ástæðulaus, því að jeg bar engar sakir á kaupfjelögin. Jeg heyrði því miður ekki ræðu hæstv. atvrh., en mjer er sagt, að hann hafi sagt, að í frv. fælist það vald, sem jeg ætlast til, að hreppsnefndunum verði veitt. En í frv. er það miðað við, ef kaupfjelögin gefi ekki glögga skýrslu. En hver dæmir um það, hvort skýrslan er glögg eða ekki? Það er miklu sterkara að orði kveðið í till. minni, því eftir henni er hreppsnefndunum fengið þetta vald, ef þær hafa grun um, að samvinnufjelag beiti undanbrögðum til þess að komast hjá rjettmætu útsvari. Hæstv. atvrh. hlýtur að sjá, að eftir till. minni hafa hreppsnefndirnar meira vald en þær fá samkv. frv.

Jeg gat þess í fyrri ræðu minni, að það væri ekki að ástæðulausu, að jeg ber fram þessa brtt., og skal jeg nú skýra háttv. deild frá því, hvers vegna jeg geri það. Svo er mál með vexti, að einn kaupfjelagsstjóri kemur því svo fyrir hjá sjer, að hann lætur utanfjelagsmenn taka alt út í sinn reikning, sem þeir taka út, og borga alt inn í sinn reikning, sem þeir borga inn. Hann býr þannig til einn stóran reikning fyrir sjálfan sig. Og þetta er gert í svo stórum stíl, að hann hefir prentuð eyðublöð með nafni sínu sem úttakanda. Jeg hefi hjer eina slíka nótu, sem jeg ætla að sýna hv. sessunaut mínum. Þetta eru hrein og bein svik, en hreppsnefndin hefir ekki bolmagn til þess að reka þau af sjer. Þannig sjest, hvernig fara má í kringum þetta, og farið er í kringum þetta, ef ekki er haft nákvæmt eftirlit og strangt. Þess vegna er þessi brtt. mín bæði rjettmæt og nauðsynleg. Jeg tel áríðandi að setja undir þennan leka strax. Þetta er alls ekki sprottið af andúð gegn kaupfjelögunum. Það er viðkomandi hreppsnefnd, sem hefir beðist hjálpar og stendur á bak við þetta.