08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2361 í B-deild Alþingistíðinda. (1839)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal reyna að vera ekki margorður, og jeg skal reyna líka að hafa ekki rangt eftir hv. frsm. minni hl., þótt honum þætti jeg gera það áðan, en þar til er því að svara, að jeg hefi ekki gert það viljandi, og jeg get heldur ekki fundið, að hv. þm. hafi getað bent á, að jeg hafi farið með rangfærslur eftir honum. (GuðmÓ: Jeg benti á þær jafnóðum með því að grípa fram í). Hv. frsm. minni hl. kveðst ekki hafa haft tíma til þess að athuga frv. Jeg get ekki verið honum samþykkur í þessu, því að hv. þm. sagði mjer löngu áður en frv. kom hingað, að hann væri óánægður með það, svo að eitthvað hefir hv. þm. lesið það, og svo get jeg heldur alls ekki viðurkent, að málin sjeu óviðkomandi þeim hv. þm., sem eiga sæti í annari deild en þeirri, sem þau eru borin fram í, og jeg veit líka, að hv. þm. var búinn að kynna sjer frv. mjög mikið áður en það kom hingað, og þingið gæti sjálfsagt orðið nokkuð langt, ef enginn hv. þm. teldi sjer skylt að athuga málin áður en þau koma í hans deild. Jeg veit að minsta kosti, að hv. fjvn. hefir ekki þann sið, því að hún byrjar strax að athuga málin og fylgjast með þeim eftir að þingið er byrjað. Þingin verða held jeg nokkuð löng, ef enginn þingmaður telur sjer skylt að athuga stór mál fyr en þeim er vísað til þeirrar nefndar, sem hlutaðeigandi þm. á sæti í, eða er að minsta kosti komið til þeirrar deildar, sem hann er í. Jeg er steinhissa á, að hv. þm. skuli telja efri og neðri deild sem tvo aðskilda heima. Og jeg held því hiklaust fram, að honum hafi borið skylda til að athuga frv. meðan það var í Nd. og að hann hafi haft nógan tíma til þess á þessu nærri 100 daga þingi.

Jeg sagði aldrei, að það hefði komið brtt. frá 28 þm. í Nd., því að það er fyrst og fremst, að um þingtímann hafa þar ekki verið nema 27 þm., og sá, sem er veikur, hefir ekki borið fram brtt., og ekki allir hinir, en þessir þm. komu með brtt. að því leyti, sem þeir voru óánægðir, en jeg geng út frá því, að þeir, sem ekki komu með brtt., hafi verið nokkurnveginn ánægðir. Jeg skil ekki annað en að þetta sje nokkuð skýrt, og annað sagði jeg ekki áðan. Jeg fæ ekki sjeð, að ilt sje að hafa sömu reglu um alt land, og að minsta kosti get jeg ekki skilið, að það sje ófært. Þetta eru þó skattamál, og jeg þekki ekki til þess í öðrum löndum, að mismunandi reglur sjeu fyrir einstök hjeruð, að minsta kosti ekki um almenna skatta. En við samningu slíks frv. verður líka að taka tillit til þess, að það á að gilda fyrir staði, þar sem öll ákvæði þess geta ekki átt við.

Það er alveg rjett, sem hv. frsm. minni hl. tók fram, að svör komu ekki frá öllum hreppsnefndum; en það er nú svo um þær, sem ekkert svar kom frá, að það get jeg alveg eins tekið mjer til inntekta eins og hv. frsm. minni hl., og jeg er alveg sannfærður um það, að í mörgum sveitum er það siður að færa á reikning síðastliðins fardagaárs þær tekjur og þau gjöld, sem innheimst hafa eða verið greidd eftir fardaga það ár, sem reikningurinn er gerður, svo framarlega sem þau tilheyra því reikningsári. Jeg þekki það vel, því að jeg var ekki nema 14 ára þegar jeg bjó til fyrsta sveitarsjóðsreikninginn, og hefi haft talsvert með það að gera síðan. Einnig sá jeg meðan jeg var sýslumaður, hvenær reikningarnir eru dagsettir. Sami hv. þm. vildi halda því fram, að sýslusjóðsgjöld væru að miklu leyti borguð á manntalsþingum, en það er upp og niður þar sem jeg þekki til. Jeg hygg, að sýslunefndaroddvitar hafi ekki gengið hart eftir, að hreppsnefndir borguðu alt á þingum. Þá finnur hv. þm. að því, að gjalddagi sje eftir að sýslusjóðsgjöld eru fallin í gjalddaga, — en hvernig er það þá nú? Gjalddagi á sveitarútsvörum er 31. desember, og lengra er það frá gjalddaga sýslusjóðsgjaldanna en frv. ráðgerir, og jeg þekki ekki, að hreppsnefndir bíði með peninga í kassa frá 31. desember þangað til manntalsþing eru haldin.

Faðerni frv. get jeg sagt hv. þm., ef hann er þá ánægðari; við Einar prófessor Arnórsson erum höfundar að því. Við komum okkur saman um efnið, og svo setti hann það í stílinn. Það er því ekkert vafasamt faðerni að frv. (GuðmÓ: Hæstv. ráðh. taldi vafasamt, að jeg skildi nokkuð í frv.). Það er ekki rjett. Jeg sagði ekki að hv. þm. hefði farið frá frv. án þess að skilja það: jeg sagði það aðeins um 12. gr., að hv. þm. hefði farið frá henni án þess að skilja hana, og einmitt þess vegna útskýrði jeg hana, og mjer heyrðist svo, að hv. þm. gengi inn á, að það væri ekki mikið verra, að yfirskattanefnd úrskurðaði kærur heldur en sýslunefnd. Þá var hv. þm. mjer ekki samdóma um tölu sýslunefndarmanna. Mjer er vel kunnugt um, að þeir eru misjafnlega margir, en þeir eru þó sumstaðar 16. eins og jeg gat um áður, og það er auðsætt, að það er dýrara að kveðja saman sýslunefndarfund í sýslum, þó að sýslunefndarmenn sjeu ekki nema 8–9, heldur en að kalla saman yfirskattanefnd, 3 menn. Svo talaði hv. þm. um það, að útsvörin mættu ekki vera rjett, en það er ekkert nema hártogun á orðalagi frv. Það stendur aðeins, að það megi ekki breyta útsvari, nema það hafi verið að minsta kosti 10% of hátt eða of lágt, en það er gert til þess, að ekki sje verið að áfrýja og eyða miklum tíma og fyrirhöfn út af mjög lítilfjörlegri upphæð, enda er það oft gert eins mikið til þess að skaprauna hreppsnefndum eins og til að komast hjá því að greiða þessa upphæð, sem um er að ræða. En ákvæðið um 10% er bygt á því, að þar sem jafnað er niður, er altaf álitamál, hversu hátt útsvarið skuli vera. Það getur t. d. enginn sagt um það með vissu, hvort maður, sem hefir 200 kr. útsvar, skuli ekki hafa t. d. 220 kr., og það er ómögulegt, eins og hv. þm. sagði, að vita neitt fyrir víst, hvað rjett er í þessu, en meiningin með þessu ákvæði er, að þegar álitið er, að ekki muni meiru, þá skuli ekki breyta neinu.

Þá var hv. þm. að tala um að tala um vinnu við frv. og að hún mundi vera dýr. Það var ekki það, sem jeg átti við; jeg átti við kostnaðinn á þinginu, því að það hefir farið langur tími í það og mikið í prentkostnað. Jeg átti alls ekki við kostnaðinn við samningu frv. Hv. þm. sagði, að jeg hefði sagt, að jeg mundi verða við brtt. við 3. gr. frv.; en það er ekki rjett. Jeg sagði það í Nd., að jeg gæti samþykt breytingu á þeirri grein; jeg sagði, að jeg vildi helst fá frv. óbreytt hjer, og þess vegna gæti jeg ekki lagt til með brtt., enda þótti mjer líklegt, að hún fjelli, þegar frv. kæmi aftur til Nd. Mjer þykir leitt, ef jeg hefi verið svo óskýr, þegar jeg talaði um brtt. hv. þm. við 4. gr., að hann hefir ekki skilið mig, en jeg átti við það, að það er ekki alt fengið með því að vita, hve mikið maðurinn skuldar. Þarf ekki annað en að benda á, að sá maður, sem á 50 þús. kr. skuldlausar, er venjulega færari um að greiða hærra útsvar heldur en annar, sem á 200 þús. kr. og skuldar 150 þús. kr. Jeg veit nú ekki, hvort jeg hefi sett þetta svo fram, að hv. þm. hafi skilið mig. Ef svo er ekki, þá bið jeg hv. þm. að gefa mjer merki, svo að jeg geti skýrt það á ný. Hv. þm. gefur mjer ekkert merki, svo að jeg geri ráð fyrir, að hann hafi skilið það, sem jeg sagði. (GuðmÓ: Ætli maður láti það ekki gott heita, sem komið er). Þetta er það, sem liggur í orðunum og á ekki að falla niður, og vona jeg því, að hv. þm. taki þessa brtt. sína aftur. Hv. þm. hagaði þannig orðum sínum um brtt. við 16. gr., eins og það hlyti endilega að vera svo, að það yrði borgað fyrir niðurjöfnun útsvara; en það er ekkert annað en heimild til að borga, og verður aldrei borgað neitt, nema sýslunefnd ákveði það. Mjer finst rjett að fela sýslunefndum að gera þetta, en þar sem ekki er sjerstök ástæða til að gera það, geri jeg ráð fyrir, að það verði ekki gert.

Svo er niðurjöfnunartíminn. Jeg vona, að það viðurkenni allir hvað Reykjavík snertir, að hjer þarf alllangan tíma, enda er hann hjer frá 1. febrúar og til aprílloka, því að það er orðin svo mikil vinna við þetta verk. En það er eins með þessa grein, að hjer eru það sýslunefndir, sem ákveða nær niðurjöfnun skuli fara fram, og að sýslunefndum sje ekki trúandi til að ákveða hentugastan tíma til niðurjöfnunar, fæ jeg ekki sjeð, eða að þær endilega þurfi að hnjóta á því að ákveða niðurjöfnun strax í febrúar, þegar á að hafa nýjustu skattskrár við hendina. Og eins má gjarnan búast við því, að þær hafi vit á að setja tímann ekki svo seint, að útsvarskærur geti ekki verið komnar áður en vorannir eru byrjaðar. Bæði þessi atriði eru lögð á vald sýslunefnda og bæjarstjórna, til þess að þær geti valið þann tíma, sem eftir öllum ástæðum er hentugastur á hverjum stað, og mjer er ekki um að sjá, að hægt sje að sýna meiri lipurð í löggjöfinni heldur en þetta, og ekki unt að sjá neina ástæðu til að meina þessum stjórnarvöldum að hafa þetta vald í sínum höndum.

Út af orðum hv. 1. þm. Eyf. (EÁ) hefi jeg lítið að segja. Hv. þm. talaði ósköp hógvært og rólega og mintist á almanaksárið, en jeg sje enga ástæðu til að fara að minnast á það, þar sem engin brtt. liggur fyrir, en jeg vil aðeins geta þess, að það er ekki annað að sjá en að það sje vilji meiri hluta hreppsnefnda hjer á landi að hafa almanaksárið reikningsár. Og þó að skiftar sjeu skoðanir um það, þá er þó ómögulegt að gera svo, að öllum líki. Hv. þm. benti á, að fræðsluárið væri frá hausti til hausts, og þetta er alveg rjett, — en hvernig er hægt að komast þar af án þess að hafa fardagaárið, og enginn hefir þó kvartað yfir því? Það er þá ekki alveg nauðsynlegt að hafa fardagaárið, eftir því. Um ómagameðlag er það að segja, að það er venjulega greitt í einu lagi, og líka er venjan sú að það er látið koma upp í útsvar, svo framarlega sem þurfalingurinn á heimili í framfærslusveitinni, sem venjulegast er. Það er rjett, að í þessu frv. er ekkert sagt um hvenær á að hafa sveitarsjóðsreikninga tilbúna, en það er engin gleymska nje galli, því að þetta atriði á heima í sveitarstjórnarlögunum og kemur til greina við endurskoðun þeirra laga, sem talað hefir verið um að fara skuli fram fyrir næsta þing. Þá var hv. þm. ennþá að tala um það, hvað frv. væri flókið. Jeg get ekki viðurkent, að það sje flóknara en skattalöggjöf yfirleitt hlýtur að vera. Það er ekki hægt að búa til lög, sem við fyrsta yfirlestur virðast ekki dálítið flókin, því að þá mundu þau verða svo löng, og mjer er til efs, að þó að þau væru lengri, yrðu þau nokkuð skýrari fyrir því. Þá sagði hv. þm., að rjettlæti fengist ekki með auknum skriftum. Það er rjett, að það fæst ekki með auknum skriftum eingöngu, en það er oft fyrsta meðalið til að ná rjettlæti, og jeg álít, að ekki sje unt að vernda rjett heimilissveitar, atvinnusveitar og gjaldþegns, nema með því að láta sem oftast jafna niður á gjaldþegn íheimilissveit og skifta svo útsvarinu í rjettum hlutföllum á milli sveitanna, þótt það kosti nokkuð auknar skriftir. Þá talaði hv. 1. þm. Eyf. um. að það mundi verða rjettlátust niðurjöfnun á mann þar, sem hann rekur atvinnu, en jeg skal nú sýna hv. þm. fram á það með einföldu dæmi: Maður, búsettur í Reykjavík rekur atvinnu á Siglufirði. Þar veit niðurjöfnunarnefnd ekki um neitt annað af hans atvinnu en það, sem gerist á Siglufirði, og vantar því að taka alt tillit til þess annars, sem gerist heima fyrir hjá honum, sem best verður gert í heimilissveit, þar sem hann telur fram eignir sínar og tekjur og þar sem hægt er að leggja það best til grundvallar, sem mestu skiftir hans ástæður. Háttv. þm. nefndi útsvar af tapi, og mjer dettur ekki í hug að neita því, að oft þarf að leggja á mann, sem beðið hefir stórt tap á atvinnurektri sínum. Kemur það einkum fyrir, ef lagt er á mann á atvinnustað, sem hefir grætt þar, en tapað stórkostlega heima fyrir. Á atvinnustaðnum er lagt á hann að öllu leyti eins og það væri tómur gróði á hans atvinnu, en það getur í heildinni verið mikið tap, svo að útsvarið eigi að vera miklu lægra.

Jeg get lokið máli mínu með því að segja hv. 1. þm. G.-K. (BK), af því að hann var ekki inni í deildinni, þegar jeg talaði síðast, að mjer þykir of langt gengið í hans brtt., að ekki þurfi að vera nema um grun að ræða. Og hvað það snertir, að hv. þm. segir kvartanir úr sínu kjördæmi yfir þessu frv., þá get jeg aftur svarað hv. þm. því, að jeg hefi fengið talsvert miklar þakkir einmitt úr hans kjördæmi fyrir þær rjettarbætur, sem í frv. eru fólgnar, og vona jeg, að það geti dálítið vegið salt í huga hv. þm., enda hefir mjer aldrei dottið í hug að geta búið til frv. um svona efni án þess að það kæmu kvartanir einhversstaðar frá. Jeg veit, að það eru miklar rjettarbætur í þessu frv., sem hjer liggur fyrir, og þó að ekki sje langt síðan þetta frv. kom fram, hefi jeg heyrt margar raddir um, að það er beðið með talsverðri eftirvæntingu eftir því, hvort frv. nær fram að ganga eða ekki.