08.05.1926
Efri deild: 70. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2368 í B-deild Alþingistíðinda. (1840)

15. mál, útsvör

Frsm. minni hl. (Guðmundur Ólafsson):

Jeg skal nú ekki flytja langt mál, enda á jeg víst ekki rjett til þess, og því síður er líka ástæða til þess, því að jeg hefi nú átt svo mikið orðastað við hæstv. atvrh. út af þessu máli, að það er svo sem auðheyrt, að hann ætlar ekki að láta sannfærast. Hæstv. ráðh. byrjaði á því að segja, að mál væru ekki þm. óviðkomandi, þótt í annari deild væru. Það hefi jeg heldur ekki sagt, en hitt mun vera venjan, að það mun vera heldur lítið athugað á meðan það er í hinni deildinni, enda oft enginn tími til þess. Svo segist hæstv. ráðh. vita, að jeg hefði athugað málið, — hafa heyrt það á mjer. Það er að vísu rjett, að jeg las frv. yfir, en það getur naumast heitið mikil athugun. Svo hefir hæstv. ráðh. játað, að það hafi vantað svör frá ýmsum hreppsnefndum, eins og jeg bjóst við. En það var ekki skakt hjá mjer, að hæstv. ráðh. nefndi þessa 28 þm. í hv. Nd., sem gert hefðu brtt. við frv., en jeg hefi kannske tekið það of bókstaflega, að þeir hafi allir gert brtt., en jeg skrifaði það eftir hæstv. ráðh., að þessir 28 þm. hefðu lagt sig í bleyti við að gera breytingar við frv. Jeg mótmælti því, að tekjur og gjöld væru tekin í sveitarreikning fram að þeim tíma, er hann væri gerður, en þetta getur verið venja þar, sem hæstv. atvrh. þekkir til, en jeg þekki það ekki.

Þá sagði hæstv. atvrh., að jeg hefði gengið fast eftir faðerni frumvarpsins. Það þóttist jeg nú ekki gera, en það verður varla sagt um höfunda frv., að þeir sjeu kunnugri í sveit og högum sveitamanna heldur en jeg. Líka sagði hæstv. atvrh. það, að hentugra mundi vera að láta yfirskattanefnd úrskurða útsvör manna heldur en sýslunefnd, vegna þess að það fyrirkomulag mundi verða ódýrara. Það held jeg, að ekki sje rjett.

Svo talaði hæstv. ráðh. um það, að nauðsynlegt væri að samþykkja frv. nú þegar, og bar því við, að það mundi spara mikið, svo sem prentunarkostnað og annað. En frómt frá að segja finst mjer málinu ekki liggja svo afskaplega mikið á, að mjög miklu gæti skift, þótt það yrði ekki afgreitt nú, því að mörg mál liggja enn fyrir hinn háa Alþingi, t. d. fyrir hv. Nd. En það lítur nú svo út, að ekki þurfi að vanda þau lög, er hv. Alþingi setur, og mjer finst, að nú sje tekið það nýmóðins ráð að samþykkja hjer alt.

Þá talaði hæstv. atvrh. um það, hve nauðsynlegt væri að taka tillit til eigna manna og skulda. Þetta vita nú allir, að sá, sem á t. d. 200 þús. krónur, en skuldar 150 þús. kr., stendur ver að vígi en hinn, sem á 50 þús. kr., en skuldar ekki neitt. Er því óþarft að fjölyrða um þetta. (Atvrh. MG: Ekki hefir hv. þm. sjeð þetta). Hvenær hefir hann sýnt það, að hann hafi ekki sjeð þetta ? (Atvrh. MG: Brtt. hans bera það með sjer).

Jeg álít, að það sje óþarfi að áskilja hreppsnefndum sjerstaka borgun fyrir störf sín, enda mundi það draga dilk á eftir sjer, alveg eins og með embættismennina, að þegar einum var veitt uppbót, kom öll strollan á eftir.

Að svo mæltu skal jeg ekki lengja umr. meira um þetta mál að þessu sinni.