11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2377 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

15. mál, útsvör

Ingibjörg H. Bjarnason:

Það hefir nú verið rætt svo mikið um frv., bæði ágalla þess og kosti, að jeg býst ekki við að geta bætt þar miklu við, er til lagfæringar horfði.

En það er einn höfuðgalli á frv. eins og það nú er, og þeim höfuðgalla ætlast jeg til, að kipt sje á burtu með brtt. minni á þskj. 558. Það getur engum hv. þdm. komið á óvart, að jeg flyt þessa brtt. enn einu sinni; jeg mun altaf flytja svipaðar brtt. við þau frv., er líkt stendur á um.

Í frv. á nú enn að undirstrika það, hver munur sje á skyldum og rjettindum kvenna. Þetta hefir komið fyrir oft áður, en jeg mun ekki láta neitt tækifæri ónotað til þess, að slíkri kórvillu verði kipt burtu úr lögum, þar sem hún stendur. Og jeg vænti þess skilnings af hv. þdm., að þeir standi ekki á móti kröfum kvenna í þessu efni, enda þótt nokkurrar mótspyrnu hafi gætt, sem jeg veit ekki, hvort fremur er sprottin af vantrausti á konum eða misskilinni hlífð.

Hið háa Alþingi hefir fengið áskoranir frá 2260 konum hjer í Reykjavík, sem sýnir það, að undanþáguákvæðið í 3. gr. frv. er ekki að vilja kvenna. En þótt slíkar áskoranir hafi ekki komið víðar að ennþá, finst mjer, að þingið verði að taka tillit til þeirra. Og það er jeg sannfærð um, að hvernig sem fer með þessa brtt., þá mega hv. þdm. vera vissir um, að það koma fleiri og ákveðnari kröfur frá konum um að fella úr öllum lögum þau ákvæði, er gera mun á skyldum og rjettindum karla og kvenna.

Það er heldur enginn ábyrgðarhluti fyrir háttv. þdm. að láta að vilja kvenna í þessu efni. Ef óánægja skyldi koma upp síðar, þá geta þeir sagt sem svo við konur: Þetta er ekki okkur að kenna! Þetta vilduð þið!

Mjer hefir verið bent á það, að þetta ákvæði um undanþágu kvenna stæði í öllum sambærilegum lögum, og það hefir verið sagt, að úr því þetta stæði í lögum, þá væri sjálfsagt að hafa það í þessu frv., enda væri það enginn rjettindamissir fyrir konur. Jeg stæði nú ekki hjer og krefðist þess hvað eftir annað, að þessi ákvæði væru feld úr lögum, ef við konurnar litum ekki þannig á, að rjettindum er haldið fyrir okkur í þessu eina atriði. Og konur vilja nú nota tækifærið, þegar verið er að endurskoða þessi og önnur lög, að láta fella þessi ákvæði burtu, svo að ekki þurfi að endurskoða þau aftur á næsta þingi eða næstu þingum.

Jeg mun flytja slíka brtt. sem þessa við hvert það mál, þar sem hún á við, og mun jafnan færa fyrir því sömu rök og jeg hefi gert, að þetta er eindregin ósk kvenna, að sömu skyldur fylgi sömu rjettindum. Og þó það eigi ef til vill að vera af hlífð hjá sumum, að þær skuli undanþegnar skyldunum, þá gæti líka verið, að eins mikið rjeði um, að þeir vildu sem minst breyta gamalli venju.

Jeg vona, að hv. þdm. tefji ekki fyrir málinu hjer og að hv. Nd. setji ekki ákvæði þetta inn aftur. Það má vera, að þetta sje hjegómaatriði í augum sumra þdm., en fyrir mjer og konum yfirleitt er það ekki hjegómamál, heldur stefnumál. Og jeg hygg, að við höfum ekki efni á því að draga úr starfsgetu þjóðarinnar með öðrum eins ákvæðum og því, er í frv. stendur. Vænti jeg þess því, að hv. þdm. greiði brtt. minni atkvæði.