11.05.1926
Efri deild: 72. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2378 í B-deild Alþingistíðinda. (1846)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal fara að dæmi annara að tala stutt og rólega, því að það eru mörg mál á dagskrá og margt eftir ógert. Jeg skal því aðeins tala um brtt. þær, er hjer liggja fyrir, og tek þá fyrst brtt. hv. þm. Vestm. (JJós).

Um 1. brtt. er það að segja, að jeg lít svo á, að innihald hennar sje hið sama og í brtt., sem hv. 1. þm. Eyf. bar hjer fram við 2. umr., og samþingismaður hans í Nd., en báðar voru feldar. Jeg get því ekki annað en lagt á móti þessari brtt. og vona., að hv. deild verði þar sjálfri sjer samkvæm. Jeg segi þó ekki með þessu, að það eigi að vísa brtt. frá, því að hún er frábrugðin hinni brtt., þótt efnið sje hið sama.

2. brtt. er afleiðing af hinni 1., og þarf jeg því ekki um hana að tala.

Um 3. og 4. brtt. er það að segja, að jeg get ekki lagt með þeim, vegna þess, að í hv. Nd. kom fram ákveðinn og sterkur vilji um það að hafa tölurnar svo háar sem í frv. er, og litlar líkur til þess, að hv. Nd. mundi þar vilja skifta um skoðun. Ákvæði þessi voru ekki þannig í stjfrv.; þeim var breytt í Nd. og þar var svo mikill meiri hl. með breytingunni, að jeg tel alveg vonlaust, að þessar brtt. geti komist í gegnum þá hv. deild, þótt þar væru samþ. hjer. Jeg vona, að hv. þm. virði mjer það til vorkunnar, þó að jeg geti ekki mælt með þessum brtt., er hljóta að verða frv. að falli í hv. Nd. Jeg get tekið það fram, að hægt mun að deila um það, hvort alt sje rjettmætt í frv. eins og það kom frá hv. Nd., en það yrði of langt mál að telja upp alt það, sem rjettlætir frv., eða það, sem hafa má á móti því. En það virðist svo, sem í umr. nú hafi oft gleymst það, sem talið hefir verið höfuðgallinn á útsvarslöggjöfinni, sem sje það, að heimilt er að leggja á menn í atvinnusveit. Margir telja þetta versta gallann á núverandi löggjöf, og það tel jeg líka, vegna þess, að með því að leggja á menn útsvar í atvinnusveit er ekkert tillit tekið til efna og ástæðna og oft lagt heldur freklega á.

Jeg mæltist til þess við 2. umr., að brtt. hv. 4. landsk. (IHB) væri tekin aftur til 3. umr. Það gerði hv. flm., en brtt. var nú samt tekin upp. Ástæðan til þess, að jeg vildi ekki, að hún kæmi til atkv. við 2. umr., var sú, að jeg vildi geyma hana þangað til farin væri fram í hv. Nd. samskonar atkvgr. Hún fór nú fram í gærkvöldi, og þar var samþ., að konur skyldu ekki geta skorast undan kosningum í hreppsnefndir og bæjarstjórnir. Þessi brtt. hv. 4. landsk. er í samræmi við þá samþykt Nd., og þess vegna er mjer ekki unt að vera á móti henni, því að hún verður ekki frv. að falli í hv. Nd. eftir atkvgr. þar í gærkvöldi.

Þá eru brtt. hv. þm. A.-Húnv., á þskj. 557. Jeg skal tala í sama dúr og hann talaði fyrir þeim brtt. Við síðustu umr. um málið fór hann hörðum orðum um frv., og svaraði jeg þá hvast; en nú hefir hann aðeins talað um brtt., og skal jeg því gera hið sama. Um 1. brtt. er það að segja, að jeg hefi ekkert að athuga við hana. Það er aðeins skýring, og ef breytingar verða gerðar á frv., þá get jeg ekki haft neitt á móti því, að hún sje samþ.

Aftur á móti hlýt jeg að vera á móti 2. brtt., um reikningsárið, því að það er engin von til þess að koma henni í gegn hjá hv. Nd. Það var svo sterkur meiri hl. þar á móti þessari breytingu, að það væri sama sem að fella frv., ef hún væri samþ. Og eins og jeg hefi tekið fram áður, sje jeg ekki ástæðu til þess, að haldið sje fast við þetta atriði.

Jeg gæti til samkomulags gengið inn á 3. brtt., en jeg álít, að sjaldgæft muni vera, að lagt sje á lægra útsvar en 5 kr. Meðan jeg var í sveit, var aldrei lagt á lægra útsvar en 2–3 krónur, og með núverandi gildi peninga ætti það að samsvara 5 kr. lægsta útsvari nú.

Þá get jeg ekki heldur gengið inn á að hækka útsvarshluta heimasveitar úr 1/3 í ½, því að sú breyting er ekki sanngjörn. Jeg skal þar taka sem dæmi, að bankastjóri í Íslandsbanka á lögheimili utan Reykjavíkur, en í þeirri sveit stundar hann enga atvinnu. Mjer finst það því fyllilega nóg, að sú sveit fái 1/3 af útsvari hans. Vitanlega má deila um þetta, en þess ber þó að gæta, að hjer er um „minimum“ að ræða, sem heimasveit á að fá.

Þá er 5. brtt., en hún er ekki annað en afleiðing af 6. brtt., um að 26. gr. frv. falli niður.

Þá er 6. brtt. Jeg gæti gengið inn á hana til samkomulags, ef hún stofnaði ekki málinu í voða. En jeg vil undirstrika það, að öll útsvarsálagning er mat. Og það, hvort útsvar er úrskurðað um 10% of hátt eða of lágt, er einnig mat. En jeg held, að það mundi ekki vera neitt órjettlæti í 26. gr. frv.

Þá er 7. brtt., sem fer fram á breytingu á gjalddögum útsvara, þannig, að í sveitunum verði gjalddagarnir 15. apríl og 15. júní, en í frv. eins og það er nú eru þeir 15. júlí og 15. okt. Mjer þykir undarlegt, að háttv. þm. skuli vilja hafa þessa gjalddaga fyrir bændur. Jeg býst við, að þeir hafi þá einna minst peningaráð. En einmitt í júlí selja þeir ull sína og í október kjötið, og því ættu gjalddagar á þessum tímum að koma sjer miklu betur en í apríl og júní. Það voru líka bændur í Nd., sem settu þetta inn í frv. Jeg get því ekki sjeð, að það sje nokkur bót að breyta þessu. Auk þess kemur seinni gjalddaginn til að falla utan við reikningsárið, þar sem hv. þm. A.-Húnv. gerir ráð fyrir fardagaárinu. Fardagar eru fyrst í júní, 3.–5. júní, og falla því útsvörin í gjalddaga eftir að reikningsárið er á enda. Er þá nauðugur einn kostur að telja helming útsvara í eftirstöðvum eða að halda reikningnum lengur opnum, eins og jeg reyndar sagði við 2. umr., að gert mundi nú, en háttv. þm. mótmælti þá harðlega.

8. brtt. er afleiðing af breytingunni á reikningsárinu, og sje jeg ekki ástæðu að tala frekar um hana.

Þá vil jeg taka upp það, sem jeg hefi sagt, að til samkomulags get jeg gengið inn á 1., 3., 5. og 6. brtt., svo fremi hv. þm. A.-Húnv. vill fylgja frv. út úr deildinni, af því að jeg geri mjer von um að koma málinu í gegn, þótt þessar till. verði samþ. (GuðniÓ: Það eru þær, sem minstu máli skifta). Það er ekki rjett hjá hv. þm., því að hann talaði einna mest um þessi 10%, sem voru honum mestur þyrnir í augum við 2. umr. Jeg vona, að háttv. þdm. virði mjer það til vorkunnar, þótt jeg geti ekki mælt með brtt. hjer, er verða myndu frv. að falli í Nd. En það er alls ekki orðinn tími til þess að láta málið koma fyrir Nd., síðan hingað aftur og loks í Sþ. Það vita hv. þm. ofur vel.