12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2387 í B-deild Alþingistíðinda. (1856)

15. mál, útsvör

Frsm. (Pjetur Ottesen):

Þetta mál kemur nú frá hv. Ed., og ber þess líka merki. Það hefir verið talsvert um það deilt hjer á þessu þingi, hvort konur ættu að halda þeim rjetti, sem þær hafa nú, að vera undanþegnar því að taka þátt í nefndarstörfum, þegar þær vilja undan því skorast. Og í mörgum tilfellum er því þannig farið, að þeim er illkleift að inna slíkar skyldur af hendi. Það hefir verið rakinn meiri hluti með því hjer í hv. deild að láta konur halda áfram þessum rjetti. Þegar atkvgr. fór hjer síðast fram um þetta atriði í sambandi við þetta frv., þá voru víst 19 eða 20 atkv. með því. (JBald: Menn hafa nú sannfærst síðan!). Það er nú svo, að alt er háð breytingum, og sannast þetta átakanlega á afstöðu manna hjer til þessa máls. Síðan þetta gerðist hefir orðið stefnubreyting í þessu máli. Hv. Ed. setti breytingu inn um þetta í frv. um fræðslu barna, sem þá var búið að ganga gegnum báðar deildir, og þegar það kom svo í annað sinn hingað, þá glúpnaði hv. Nd. og ljeði þessu samþykki sitt. En þó kom þessi stefnubreyting enn átakanlegar í ljós í fyrradag, þegar hjer var til einnar umr. frv. til laga um kosningar í málefnum bæja og sveita. Það lá fyrir yfirlýstur vilji hv. deildar um að láta þar í engu undan síga. Allsherjarnefnd gaf út meirihlutaálit gegn breytingunni í fullu trausti þess, að deildin mundi standa vel á verði. En það undarlega skeður, að einmitt þeir sömu menn, sem skarpast töluðu á móti málinu, glúpnuðu alveg þegar til atkvæðagreiðslunnar kom og greiddu nú atkvæði þvert ofan í sjálfa sig, og breytingin var samþykt. Það er svo um þetta mál, að það sannast á því, að hver syndin býður annari heim. Hv. Ed. var ekki lengi á sjer, þegar hún sá, hvernig málunum var komið í þessari hv. deild, en greip strax tækifærið til þess að koma þessu sama að í frv. um útsvörin. Hvað þetta frv. snertir skiftir það ekki miklu máli, hvort þetta ákvæði er í þessu frv. eða ekki, úr því að það er komið inn í lögin um kosningar í málefnum sveita og kaupstaða. Að minsta kosti skiftir það ekki miklu máli til sveita, því að þar hafa hreppsnefndir jafnframt niðurjöfnunina á hendi. Það er aðeins í kaupstöðum, að kosnar eru sjerstakar niðurjöfnunarnefndir. Úr því sem komið er er því ekki ástæða til að láta það valda neinum ágreiningi um afgreiðslu þessa máls, þó svona hafi tekist til. En mjer sárnar, að neðri deild skuli hafa kvikað frá fyrri samþyktum sínum um þetta ágreiningsefni deildanna, og það fremur, þar sem henni var í lófa lagið að bjarga þessum sjerrjettindum kvenfólksjns með því að láta málið fara í sameinað þing.