12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2392 í B-deild Alþingistíðinda. (1858)

15. mál, útsvör

Árni Jónsson:

Jeg bjóst ekki við því, að jeg mundi þurfa að segja mikið um þetta mál nú. Það var aðallega út af ummælum hv. þm. Borgf. (PO), að jeg bað um orðið. Hann talaði um stefnubreyting, sem hefði komið fram í kosningalögunum, og að jeg og fleiri hefðu þar gefið eftir. Jeg vil bera þetta af mjer, þó að jeg hafi áður gert grein fyrir minni framkomu í málinu. Jeg vildi ekki hleypa málinu í strand vegna þessa eina ákvæðis. Jeg er nefnilega þeirrar skoðunar, að það hefði verið mjög tvísýnt um málið, ef menn hefðu barið höfðinu við steininn og haldið fast við þetta ákvæði, en geng hinsvegar út frá því, að hægt muni vera að færa þetta í lag á næsta þingi, og hygg jeg, að hv. þm. Borgf. muni þá ekki þurfa að hvetja mig til áræðis. Jeg hefi litið þannig á þessi tvö mál, að þau væru mjög tengd hvort öðru. Örlög þeirra hefðu ekki verið ákveðin, ef breytingin hefði ekki verið samþ. Og það hefði getað farið svo um þetta frv. um útsvörin, sem hæstv. stjórn og þingið hefir lagt í mikla vinnu, að það hefði einnig getað strandað á því sama. Hv. þm. (PO) sagði, að ein syndin byði annari heim og að hv. Ed. hefði nú sjeð sjer færi á að koma þessu ákvæði inn í útsvarsfrv. líka.

Eiginlega finst mjer hv. Ed. ekki geta bygt mikið á þessu, vegna þess að við, sem gáfum eftir, „mótiveruðum“ okkar aðstöðu greinilega og gátum þess, að við gerðum það aðeins vegna þess, að við vildum halda okkur við þetta gamla og góða, að sá eigi að vægja, sem vitið hefir meira. Jeg held, að Ed. hafi unnið lítinn sigur og þetta verði henni skammgóður vermir. Jeg vil ekki vera að amast við því að hafa þingið tvískift, en reynsla þessara síðustu daga er nú orðin svo slæm, að jeg fer að efast um rjettmæti þess og tilverurjett hv. Ed. Þegar Ed. þverskallast við vilja meira en helmings allra hv. þm., þá finst mjer hún vera að smíða nagla í líkkistu sína. (TrÞ: Heyr!).

Þetta var aðaltilefnið til þess, að jeg stóð upp, en svo var veist allharðvítuglega að mjer úr annari átt. En jeg ætla nú samt að stilla skap mitt, með því að jeg á því láni að fagna að eiga hjer við miklu ósanngjarnari mann og ofstopafyllri en jeg er sjálfur. Jeg held, að ef jeg hefði átt tal við kunningja minn eftir svona langan umhugsunartíma, þá hefði verið dregið úr ofstopanum. En jeg hefi sjeð það fyrir, að hv. þm. V.-Húnv. (ÞórJ) er harðskeyttur. Hv. þm. fjekk að láni hjá hv. 2. þm. Árn. (JörB) þessa fyndni um umskiftinginn í grýtunni, og er það heiður fyrir háttv. 2. þm. Árn. að vera „síteraður“ þarna. Háttv. þm. hjelt því fram, að konur tefðu sig ekkert frá heimilunum með því að sitja í hreppsnefnd. En þetta er ekki rjett. Þær tefjast vitanlega minst við það að sitja á fundunum sjálfum, en jeg geri ráð fyrir, að þær myndu taka þetta alvarlega og setja sig inn í málin, og er það auðvitað aðalatriðið. Hv. þm. talaði um víðsýni, og þykir mjer vænt um að heyra það, að hann nú ætlar að gerast postuli víðsýnisins. Hann hefir verið mjög nýtur þm. öll þessi ár, og jeg hefi metið hann mjög mikils, en ekki svo mjög fyrir það, að hann sýndi sjerstaklega mikið víðsýni í meðferð mála. Jeg veit ekki, hvort nokkur hefir tekið eftir þeirri hlið á manninum fyr en hann góðfúslega benti á hana sjálfur. Hv. þm. nefndi dæmi um hreppsnefndarmann, sem hefði verið heimskari en konan hans. Jeg get ekki sjeð, hvað þetta kemur málinu við, þó að þessi kona gæti tekið þátt í sveitarstjórnarstörfum. Það bannar henni það enginn. (ÞórJ: Sama sem). Nei, alls ekki. Enda sitja konur bæði í hreppsnefndum og bæjarstjórnum hjer á landi.

Þá hneykslaðist háttv. þm. á því, að jeg hefði talað um hroka hjá konum, og að hann minti á gamlan þrælahroka. Jeg sagði, að þetta minti á það, þegar þrælum var gefið frelsi. — Jeg vil líka minna á það, að það eru ekki konurnar í heild, sem standa fyrir þessu. Það eru nokkrar konur hjer í Reykjavík, sem ekki þekkja þau kjör, sem kynsystur þeirra úti um land eiga við að búa. Og þegar sagt er í öðru orðinu, að enginn muni kjósa konu nauðuga í hreppsnefnd, þá finst mjer þetta vera aðeins að fara í kringum efnið. Til hvers er þetta þá? Er það aðeins til þess, að Ed. geti sýnt sitt mikla vald? Jeg hefði haft fulla ástæðu til þess, út af ýmsum orðum hv. þm., að snúa mjer persónulega að honum eins og hann að mjer, en jeg ætla að láta mjer lynda það sem yngri manni, að hann tugti mig til frammi fyrir háttv. deild, þó að jeg álíti það í alla staði óverðskuldað.