12.05.1926
Neðri deild: 77. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 2394 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

15. mál, útsvör

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg vildi fyrst minna á það, að stutt er til þingslita, og ætti því vel við, að hv. þm. takmörkuðu mál sitt. Jeg skal líka vera stuttorður og byrja á því, að mjer finst engin ástæða til þess að vera að ámæla þeim hv. þm., sem ætla sjer að greiða atkv. með frv., þótt í því sje eitt atriði, sem þeir eru óánægðir með. Það verður að meta meira alt frv. en þetta eina atriði. Því að hversu oft verður maður ekki að telja sjer skylt að gera það, þegar annars eru kostir frv. yfirgnæfandi yfir galla þess? Enda er það sjaldgæft, að hægt sje að afgreiða stóra lagabálka án þess að einstakir þingmenn sjeu óánægðir með einstök ákvæði þeirra.

Í tilefni af breytingu þeirri, sem hv. Ed. hefir gert á frv., vona jeg, að enginn líti svo á, að það sje svo stórt atriði, að hann geti ekki þar fyrir greitt atkv. með frv. En á hvaða skoðun, sem jeg annars væri um það atriði, þá gæti jeg ekki látið annan eins lagabálk og þennan velta á því eina ákvæði. Og jeg vil benda á það, þessi breyting hv. Ed. hefir fyrir þetta mál enga þýðingu, því að inn í lögin um kosningar í málefnunum sveita og kaupstaða, sem urðu að lögum fyrir 3 dögum er komið ákvæði um það, að konur megi ekki skorast undan kosningu. Kæmist svo ákvæði inn í þessi lög um, að þeim væri leyft að skorast undan kosningu, kæmi til að standa í öðrum lögunum, að þær mættu skorast undan en í hinum, að þær mættu það ekki. Það væri meiningarlaust að afgreiða málið á þann hátt sjerstaklega þar sem hreppsnefndir og niðurjöfnunarnefndir er hið sama í sveitum. Þetta kom fram í ræðu hv. þm. Borgf. Hann hefir athugað þetta og getur nú vonandi greitt atkv. með frv., þótt hann sje óánægður með þetta ákvæði.

Jeg vil benda á það, að komið hafa fram frá mörgum hv. þm. brtt., sem hafa verið feldar, en þeir hafa samt greitt atkv. með frv. Sýnir þetta, að ekki eru allir ánægðir. Jeg vona, að það verði álit meiri hl. hv. deildarmanna, að þrátt fyrir galla, sem á frv. kunna að vera, verðskuldi þó þetta frv. að verða að lögum. Vona jeg, að það verði ofan á við atkvgr. Ennfremur vona jeg, að umr. verði ekki lengdar mikið úr þessu, þar sem mörg önnur mál eru á dagskrá