15.02.1926
Neðri deild: 7. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 6 í C-deild Alþingistíðinda. (1868)

21. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jakob Möller):

Það er í þriðja skiftið, sem þetta frv. er hjer á ferðinni í þessari háttv. deild. Tvisvar hefir það verið samþykt hjer, en tvisvar hefir það jafnharðan verði felt í Ed., og ef svo fer einnig nú í þetta sinn, finnst mjer vera tími til kominn að athuga, hvort eigi sje gerlegt að takmarka eitthvað neitunarrjett Ed. Því það er sýnilegt, að það er eigi til almenningsheilla, ef fámenn þingdeild, sem eigi er nema lítill hluti alls þingsins, má ótakmarkað hindra framgang þýðingarmikilla mála, þetta mál, sem hjer liggur fyrir, er að vísu eigi stórmál í sjálfu sjer, en þó mættu margir ætla, að þetta væri eitt hið viðsjárverðasta stórmál, svo mikið hefir verið um þetta deilt á undanfarandi þingum, og svo mikið kapp hefir Ed. lagt á að drepa það. En hvort þetta er nú stórmál eða smávægilegt mál, þá er það þó góður prófsteinn á frjálslyndi þingsins. Nú á þessum tímum vilja allir menn teljast meðal frjálslyndra manna, og nú geta háttv. þm. sýnt það í verkinu, hvort þeir eru í rauninni frjálslyndir eða eigi, því að þetta er mál frjálslyndisins; þetta er og sanngirnismál, sem fjallar um að vernda rjett almennings, — rjett heildarinnar gagnvart hagsmunum einstaklingsins. Í þessu máli kemur hið sanna frjálslyndi til greina og annað ekki.

Mál þetta er orðið svo þaulrætt hjer í þessari háttv. deild, að óþarfi er að ræða það frekar í þetta sinn, en í stað þess ætla jeg að víkja örfáum orðum að helstu mótbárunum, sem bornar hafa verið fram gegn því í Ed.

Jeg hefi hjer fyrir framan mig ræðu frsm. meiri hl. allshn. (EP) við 2. umr. málsins í Ed. á síðasta þingi. Í fyrsta lagi talar hann um sælgætis(konfekt)búðirnar. það er vitanlega í frv. talað um fleiri búðir en sælgætisbúðirnar. Hann segir þar, að sælgætissalarnir gætu beðið eitthvert tjón af því, ef sölutími þeirra yrði takmarkaður. Þetta er nú nákvæmlega hið sama og haldið var fram gegn lögunum um lokunartíma sölubúða, — að smásalarnir kynnu ef til vill að hafa einhvern óhag af þessum lögum. Þetta hefir því enga þýðingu sem mótbára gegn þessu frv. Enda er þetta eigi einu sinni fullyrðing, þessu er slegið fram sem möguleika. það er sagt, að þetta gæti komið fyrir. En nú hefir reynslan þegar sýnt, að þetta var á engu bygt. Ekki einn einasti smásali hefir kvartað yfir því, að hann hafi beðið tjón af stytting sölutímans. Í öðru lagi segir hann, að hann í sjálfu sjer hafi ekkert á móti þessari stytting sölutímans, ef með því væri hægt að fá almenning til þess að spara kaup á óþarfa varningi. En hann segir, að þetta frv. yrði að eins til þess, að sælgætisvörur yrðu seldar í brauðsölubúðum, og færi því hagnaðurinn af sælgætisversluninni þangað yfir um, en af því má hann eigi vita. En hann gleymir því alveg, að brauðsölubúðirnar eru eigi lengur opnar en til kl. 9 á kvöldin, en sælgætisbúðirnar til kl. 12 á miðnætti, svo hjer væri því í raun og veru um þriggja tíma stytting á sölutímanum að ræða. Þetta er því í mínum augum harla veigalítil ástæða.

Um rakarana segir hann, að það sjeu í engu hagsmunir þeirra, sem hann hafi fyrir augum, er hann vill fella frv., heldur hagur almennings. Hann segir, að rakararnir skiftist í tvo flokka. Í fyrsta flokki sjeu þeir, sem reki þessa atvinnu í stórum stíl og haldi marga menn til vinnu, þeir hafi annara hagsmuna að gæta en þeir, sem teljist til hins flokksins, er í sjeu menn, er nær eingöngu starfi að þessu sjálfir, en haldi ekki menn til þessa atvinnurekstrar. Hjer kemur aftur að því sama, sem haldið var fram gegn lögunum um lokunartíma sölubúða, enda var mótstaðan gegn þeirri aðallega frá þeim, sem sjálfir unnu að verslunarstörfum, en hjeldu eigi menn í þjónustu sinni. En samt setti þingið þessi lög, því að það áleit, að það væri þýðingarmeira að vernda hagsmuni starfsmannanna en einstakra smákaupmanna, enda er margt af því kvenfólk og unglingar og jafnvel börn, sem starfa við hinar stærri verslanir, og það var hagur þeirra, sem mest þurfti verndar við. Það er og mjög erfitt að aðgreina þarna hagsmuni nefndra aðilja eða hag alls almennings, sem þetta tekur og til. Það er því ekki hægt að gera neitt í þessu annað en þá að afnema lögin um lokunartíma sölubúða, ef það kynni að hafa sýnt sig, að þau hefðu eigi orðið almenningi til góðs. En jeg fullyrði, að reynslan hafi sýnt, að þessi lög hafa orðið almenningi til góðs. Það var líka borið fram gegn lögunum um lokunartíma sölubúða, þegar þau voru í smíðum í þinginu, að það væri almenningi mjög svo óhagstætt að geta eigi komist í búðir eftir þann tíma, sem þau ákveða, að búðum skuli lokað, en þingið samþykti þau þó, þrátt fyrir þetta, og var þó um meiri þörf almennings að ræða en þar sem eru rakarabúðirnar, eða þó lokað yrði sölubúðum á öðrum eins óþarfa og þessar sælgætisvörur eru.

Þá sagði hann (frsm. allshn. Ed.), að þetta væri svo óþægilegt fyrir aðkomumenn, að geta eigi fengið sjer rakstur á síðkvöldum, — hann ber mjög svo fyrir brjósti þessa aðkomumenn hjer í bænum, en hann játar fyrir sjálfan sig, að hann noti þetta aldrei sjálfur, — hann veiti sjer sjálfur þessa þjónustu. Nei, það er áreiðanlega eitthvað annað en umhyggjan fyrir hagsmunum almennings, sem liggur á bak við mótstöðu háttv. Ed. gegn þessu frv. Jeg tel svo óþarfa að fara fleiri orðum um frv. og álít, þar sem það er svo gjörkunnugt háttv. deildarmönnum, alveg óþarft að vísa því til nefndar, enda þótt það mætti mín vegna gjarna fara til allshn.