23.02.1926
Neðri deild: 13. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 12 í C-deild Alþingistíðinda. (1874)

21. mál, lokunartími sölubúða

Jón Kjartansson:

Það er rjett hjá hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að fyrri brtt. okkar á þskj. 44 er sett inn af allshn. Nd. 1924, og þá eftir tilmælum bæjarstjórnarinnar. En síðan hafa komið kvartanir frá þeim mönnum, sem stunda sætindagerð, þar sem þeir hafa sýnt fram á, að með ákvæði frv. um konfektbúðir væri þeim með öllu bægt frá þessari iðn. Menn geta haft hvaða álit sem þeir vilja um sætindagerð. En það er vitanlegt, að hjer er mikið selt af erlendum sætindum, og myndi sú sala síst minka, ef hin innlenda framleiðsla á þessari vörutegund væri mjög takmörkuð. Jeg fyrir mitt leyti tel því rjettara að leyfa hina innlendu sætindagerð en flytja inn ósköpin öll af þessari vörutegund, því að eins og kunnugt er, er sala þessarar vöru mest á kvöldin frá kl. 7–10, og að banna hana þá, væri sama og að banna framleiðslu hennar.

Mjer skilst helst á hv. 3. þm. Reykv. (JakM), að hann hefði upphaflega flutt frv. þetta, til þess að koma í veg fyrir of langan vinnutíma í þessum vinnustofum. Þetta er eftir minni skoðun eina frambærilega ástæðan fyrir frv., ef verið getur að ræða um misnotkun á vinnukrafti fólks. En mjer finst hart aðgöngu að meina heiðvirðum borgurum að hafa ofan af fyrir sjer með sinni eigin handavinnu. Það var einmitt þessi harðneskja, sem vakti fyrir okkur flutningsmönnum breytingartillögunnar.

Þá sagði þessi háttv. þm., að með þeim væri gengið inn á, að menn þessir gætu misnotað vinnukraft barna sinna. En jeg vil spyrja, hvaða lög eru eiginlega til, sem hindra það, að foreldrar geti misnotað vinnukraft barna sinna, og er ekki hægt að misbeita vinnuþoli barna á mörgum öðrum sviðum en þeim, er hjer er um að ræða? Jeg þekki engin slík lög, og það er víst, að þau eru ekki til. Hví skyldi þá þurfa að setja ákvæði um þetta gagnvart þessum mönnum frekar en öðrum. Jeg skil það ekki.

Annars var það og mesti misskilningur hjá þessum háttv. þm., að brtt. okkar væru aðeins fram komnar vegna eins manns. Að svo er ekki, sjest best á því, að það eru fleiri vinnustofur en rakaravinnustofur, sem hafa viðskifti við almenning og selja engan varning. Má þar t. d. nefna straustofur. Væri það óneitanlega hart, að meina straukonum að vinna fram eftir á kvöldin.

Það, sem því vakir fyrir okkur flm. tillögunnar, er, að okkur finst ósanngjarnt að meina mönnum að stunda atvinnu sína, en frumvarpið stefnir óneitanlega í þá átt.

Jeg vona nú, að háttv. flm. leyfi brtt. okkar fram að ganga, því að aðaltilgangi hans er náð eigi að síður.