23.02.1926
Neðri deild: 13. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1875)

21. mál, lokunartími sölubúða

Jakob Möller:

Jeg skal athuga aðalatriðin í ræðu háttv. þm. V.-Sk. (JK) í sömu röð og hann flutti þau.

Hann byrjaði að tala um lokunartíma konfektsölubúða, og viðurkendi, að ákvæði þau í frumvarpinu, sem snerta þær, væru komin frá allshn. Nd. 1924, og þá sett inn eftir tilmælum bæjarstjórnarinnar. Þá hafði hann það eftir mönnum þeim, er stunda sætindagerð, að þeir teldu það sama og bægja þeim frá þessari iðn, að samþykkja frumvarpið. En þetta skil jeg ofur vel, það eru nefnilega alveg sömu fullyrðingarnar og hljómuðu í eyrum manna, þegar ákvæðin um lokunartíma sölubúða alment voru sett, en jeg veit ekki betur en verslanirnar hafi þrifist alveg eins eftir sem áður.

Þá talaði þessi háttv. þm. um, að rjett væri að styðja innlendan iðnað. Þetta er rjett, þótt altaf sje nokkur munur á, hver iðnaðurinn er. En jeg vil nú spyrja þennan háttv. þm., hvort það sje nú ávalt innlendur iðnaður, sem þessar búðir versla með? (JK: það á að vera það). Já, „það á að vera það,“ en mjer er kunnugt um, að í mörgum tilfellum er þetta hreinasta skálkaskjól. Konfektbúðirnar versla með ýmiskonar erlendan varning. Annars er ekki farið hjer fram á, að búðir þessar sjeu lokaðar á sama tíma og aðrar búðir, heldur að þær sjeu aðeins opnar einhvern ákveðinn tíma. Mjer virðist, að það væru töluverð hlunnindi fyrir þær, þó að þær fengju ekki að vera opnar lengur en til kl. 9 á kvöldin eins og brauðsölubúðir. En lengur sje jeg enga ástæðu til að leyfa þeim að vera opnum.

Það var rjett skilið hjá þessum háttv. þm., að aðalatriðið, sem liggur bak við frumvarp þetta, væri að vernda fólk, sem vinnur á þessum vinnustofum, frá of löngum vinnutíma. En hann heldur því fram, að frv. væri til að meina heiðvirðum borgurum að stunda atvinnu sína. En fyrir því færði hann engin rök, er það því engin ástæða gegn því. Hann hefði þurft að færa skynsamleg rök fyrir því, að maður þessi eða menn, sem hann ber fyrir brjósti, gætu ekki haft ofan af fyrir sjer með sama vinnutíma og aðrir, sem stunda þessa sömu iðn.

Það er kunnugt, að meðal þeirra rakara, sem fara fram á að fá frv. þetta að lögum, eru einstaklingar, sem vinna einir á rakarstofum sínum. Hver skyldi kannske vera munurinn á þeim og einstaklingnum, sem frumvarpið hefir verið felt fyrir? Jeg býst við, að hann sje lítill. Og það er augljóst, að það er ekki af umhyggju fyrir því, að heiðvirðir borgarar fái alment að stunda iðn sína óáreittir, sem barist er hjer á móti þessu frv. það er víst, að það er aðeins gert fyrir einn mann, og það er vissulega misskilin umhyggjusemi fyrir honum.

Þá játaði þessi háttv. þm., að engin trygging værir fyrir því, að vinna barna væri ekki misnotuð. Jeg vil því spyrja: Væri ekki æskilegt að setja tryggingu fyrir því, þar sem það er hægt? Jeg tel það sjálfsagt. Og hjer er það hægt með góðu móti, og því sjálfsagt að gera það.

Hvað snertir vinnutímann á straustofunum, skal jeg taka það fram, að mjög líklegt er, að þörf væri á að takmarka hann líka, en jeg tel, að frv. þetta nái ekki til þeirra. Þær þurfa ekki að vera opnar fyrir almenning nema stuttan tíma á degi hverjum, þar sem þær fá verkefni afhent til langs tíma og geta svo unnið úr því allan sólarhringinn, ef þeim sýnist svo, án þess að stofurnar sjeu opnar til viðskifta við almenning.