23.02.1926
Neðri deild: 13. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1876)

21. mál, lokunartími sölubúða

Jón Kjartansson:

Jeg vil benda hv. flm. (JakM) á það, að það hefði verið ólíkt rjettara af honum að orða þetta frv. sitt svo, að það hefði virkilega sjest, að það væri einhver skynsamleg ástæða til þess að banna mönnum að vinna að iðn sinni, svo sem gert er ráð fyrir hjer. En það get jeg ekki fundið, að hann hafi gert. Í stað þess er hann að heimta skynsamlegar ástæður til þess að mæla á móti frv. En mjer finst frá mínu sjónarmiði, að það sje fullkomlega skynsamleg ástæða gegn frv., að hjer er alls ekki að ræða um neitt, sem komi í bága við hagsmuni almennings, og því ástæðulaust af löggjafarvaldinu að vera að grípa í taumana og banna mönnum að stunda iðn sína. Jeg fæ heldur ekki sjeð, að hjer sje að ræða um óheiðarlega samkepni, sem þurfi að útiloka. Það er vitanlegt, að til er fjöldi manna, sem ekki getur komið á rakarastofur á þeim tíma, sem mjer skilst, að hv. flm. (JakM) ætlist til að þær sje opnar, sem sje til kl. 7 e. m. Hefði nú staðið í frv., að þessar vinnustofur skyldu vera opnar til 9 eða 10 e. m., þá mundi málið horfa öðruvísi við, og þá hefði jeg getað felt mig við það, að sama tímatakmark væri látið gilda um sælgætisbúðir og rakarastofur. Þá væri því marki náð, að styrkja þá menn, sem vilja vinna nokkuð lengi, og eins væri þá þeim mönnum, sem ekki geta komið fyrir kl. 7 á rakarastofur, leyft að nota þær. En jeg verð að segja það, að jeg treysti ekki bæjarstjórn, eins og hún hefir komið fram undanfarið í þessum málum, til þess að leyfa þessum stöðum að vera opnum til kl. 9 eða 10. Bæjarstjórn hefir oft sýnt það, að hún vill banna alla skapaða hluti, og mun hún því áreiðanlega taka hjer stysta tímann, sem sje ekki leyfa að hafa opið nema til kl. 7 e. m.

Jeg vona því, að hv. þdm. lofi brtt. að ganga fram. Þær eru að mínu áliti bæði sanngjarnar og rjettlátar.