23.02.1926
Neðri deild: 13. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í C-deild Alþingistíðinda. (1878)

21. mál, lokunartími sölubúða

Jakob Möller:

Hv. flm. brtt. (JK og BL) segja báðir, að jeg hafi ekki komið með neina skynsamlega ástæðu fyrir því, að það beri að samþ. frv., en ekki brtt. En þó játa þeir báðir jafnframt, að jeg hafi komið með ástæðu, sem sje skynsamleg og sjálfsagt að taka til greina, sem sje tryggingu gegn of mikilli vinnu barna. Þetta er nú svo og svo.

En jeg hefi líka aðrar ástæður til þess að vera á móti brtt. hv. þm. (JK og BL). Þær gera sem sje ekki annað en spilla málinu og eyða því, svo það nær ekki tilgangi sínum. Því dettur hv. flm. brtt. í hug, að ef þær ná samþykki, þá verði farið að setja reglugerð um 2–3 rakarbúðir, en svo væru ef til vill 6–8 aðrar rakarabúðir og vinnustofur, sem engin reglugerð nær yfir? Það kemur vitanlega til engra mála, og af því leiðir, að engar hömlur verða settar fyrir vinnu á þessum stöðum. Nei. Til þess að frv. nái tilgangi sínum, verður að samþykkja það óbreytt.

En setjum nú svo, að brtt. yrðu samþ. og reglugerð sett samkvæmt því — hverjar yrðu afleiðingarnar? Auðvitað þær, að þessar holur einstakra manna, sem stæðu utan við lög og rjett, boluðu hinum út, og lokin yrðu þau, að ekki yrði til ein einasta fullkomin rakarastofa í bænum, og jafnvel engin rakarastofa, sem menn teldu sjer fyllilega óhætt að hætta sjer inn í.