24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1899)

24. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Ingvar Pálmason:

Jeg finn ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka neitt af þeim rökum, sem jeg hefi áður fært fram til stuðnings þessu máli, bæði í greinargerð fyrir frv. og við 1. umr. hjer í þessari, hv. deild, úr því hv. allshn. hefir játað, að Norðfirði mundi til hagsbóta, að frv. þetta gengi fram, þó hún að þessu sinni leggi á móti því. En þó get jeg vitnað til þess í sambandi við samanburð nefndarinnar á Neskauptúni og ýmsum kauptúnum öðrum.

Eftir að nefndin hefir játað, að Nes hafi ástæðu til þess að óska eftir kaupstaðarrjettindum, gerir nefndin tilraun til þess að færa fram ástæður á móti þessu. Skal jeg nú að nokkru brjóta þessar ástæður nefndarinnar tilmergjar.

Fyrst er það, að sýslunefnd S-Múlasýslu sje málinu mótfallin. Þetta má vel vera að sje rjett, enda þótt fundargerð sýslunefndar um þetta atriði beri það ekki ljóslega með sjer. Þar er málinu vísað á bug vegna þess, að það sje ekki nægilega vel undirbúið. Jeg skil þetta svo, að sýslunefnd vilji koma sjer hjá því að segja nokkuð ákveðið um málið. En viðvíkjandi undirbúningi þessa máls fæ jeg ekki annað sjeð en að hann sje nægur, og að það, sem sýslunefnd á við í þessum tilvitnuðu ummælum, sje fjárskiftin milli kauptúnsins og sýslunnar, ef til skilnaðar kæmi. En mjer skilst, að fjárskiftin sje fremur lokaatriði í málinu heldur en undirbúningsatriði. Hitt þarf engan að undra, þegar um það er að ræða, að losa Neshrepp úr sýslufjelaginu, þó sýslunefnd sje ekkert áfjáð um það, að slíkt gangi fram, enda hefir það sýnt sig alstaðar, þar sem líkt hefir staðið á. Nefndin hefir heldur ekki gert mikið úr þessari ástæðu.

Þá er önnur ástæðan, sem nefndin gerir að aðalástæðu gegn frv., en það er kostnaðurinn. Nefndin gerir ráð fyrir því, að hann verði meiri en farið er fram á í frv. Jeg er ekkert að finna að því, þótt hv. nefnd vilji launa væntanlegan bæjarfógeta í Nesi vel. En hinsvegar höfum við Norðfirðingar búist við því, að geta fengið sæmilegt yfirvald fyrir þau laun; sem frv. gerir ráð fyrir. Jeg býst heldur ekki við því, að þetta sje í raun rjettri aðalástæða hjá nefndinni, heldur hitt, sem hv. frsm. (EP) talaði svo mikið um, nefnilega að ef þetta frv. yrði samþ., þá mundu fleiri á eftir koma. En sú ástæða er svo ófullkomin, að jeg er alveg hissa á því, að nefndin skuli leggja nokkra áherslu á hana. Því að það liggur í augum uppi, að þegar fleiri kauptún fá þörf fyrir kaupstaðarrjettindi vegna fólksfjölda og af öðrum ástæðum, þá ætti að sjálfsögðu að veita þeim þau. Aðalspurningin í slíkum málum er þetta: Er viðkomandi sveitarfjelagi nauðsynleg slík rjettarbót? Og reynist það svo, þá á að sjálfsögðu að veita rjettindin, enda þótt 10 eða 20 kauptún kæmu á eftir með sömu ósk, jafnvel rökstudda. Í þessu sambandi skal jeg geta þess, að því er snertir þau kauptún, sem hv. frsm. (EP) nefndi, að Skipaskagi er að vísu nokkru mannfleiri en Neskauptún, og sennilega líður ekki á löngu þangað til hann fer fram á það að fá kaupstaðarrjettindi. En jafnframt vil jeg taka það fram, að aðalástæðan fyrir þessu frv. er ekki það, hve mannfjöldinn sje mikill í Neskauptúni, heldur hitt, hve miklar siglingar eru orðnar til Norðfjarðar, sjerstaklega af útlendum fiskiskipum. Slíkar siglingar eru alls ekki á Akranesi. Þó skal enginn skilja orð mín svo, að jeg sje að mæla á móti Skipaskaga, að hann fái kaupstaðarrjettindi, þegar hans tími er kominn.

Jeg geri ráð fyrir, að nefndin sje ekki kunnug staðháttum. En jeg lýsti þeim svo vel við 1. umr., að nefndinni var vorkunnarlaust að skilja það, að á stað, sem hefir engar samgöngur nema á sjó, og þegar það er aðgætt, að til Norðfjarðar koma um 500 skip árlega, þá gerir slíkt ekki lítinn mun í samanburði við Akranes.

Á einum stað í nál. getur hv. nefnd þess, að hún viti ekki annað en að innheimta og reikningsskil sje í góðu lagi hjá sýslumanni S.-Múlasýslu. Jeg hefi aldrei gefið annað í skyn og get lýst yfir því hjer til að fyrirbyggja allan misskilning, að sá sýslumaður, sem þar er nú, er að mínu áliti einhver duglegasti og reglusamasti sýslumaður landsins. En hann getur af eðlilegum ástæðum ekki annast innheimtu fyrir ríkissjóð í Neskauptúni nema að nokkru leyti, og verður því að fela það hreppstjóranum í Neshreppi. Og þegar tekið er tillit til þess, hvaða upphæðir hjer er um að ræða, bæði í skipagjöldum og tollum, þá liggur í augum uppi, að hjer eru um meira og ábyrgðarþyngra starf að ræða en sanngjarnt má kallast að heimta af launalitlum hreppstjóra. Þannig var t. d. innheimt af hreppstjóra á annað hundrað þús. kr. í fyrra á Norðfirði. Þetta virðist mjer vera ein aðalástæðan fyrir frv. En mjer virðist nefndin hafa gengið fram hjá þessu, a. m. k. gekk hv. frsm. (EP) fram hjá því í ræðu sinni, en lagði aðaláhersluna á fólksfjöldann. Í sambandi við það skal jeg benda á, að Seyðisfjörður, sem er litlu mannfleiri en Neskauptún, hefir nú haft kaupstaðarrjettindi í 30 ár, og jeg býst við því, að þeir mundu ekki taka því vel þar, ef fara ætti fram á það að taka af þeim þann rjett.

Það eru engin rök að halda því fram, að það sveitarstjórnarfyrirkomulag, sem kauptúnin eiga nú við að búa, hafi fyrir 20 árum verið fullnægjandi, því sje óþarft að leggja ný útgjöld á ríkissjóð með breyttu fyrirkomulagi í hinum stærri kauptúnum. Það er bara að berja höfðinu við steininn að halda slíku fram. Rás viðburðanna ræður því, að útgjöldin, bæði hvað þetta snertir og annað, eru miklu meiri nú en þau voru þá.

Jeg verð nú að líta svo á, að þrátt fyrir þessar mótbárur hv. allshn. sje full ástæða til að vænta þess, að hv. deild láti frv. þetta ná fram að ganga, því að jeg hefi nú reynt að gera þeim ástæðum, sem færðar hafa verið fram gegn því, þau skil, sem þær áttu skilið.

Jeg get vel skilið, að háttv. frsm. (EP), sem allan sinn aldur hefir dvalið langt uppi í sveit, eigi bágt með að átta sig á þeim öra vexti kauptúnanna á síðari tímum, og þar af leiðandi þeim kröfum, sem þau þurfa að gera um aukna sjálfstjórn og bætta tollgæslu og lögreglustjórn. En hitt á jeg aftur bágt með að skilja, að form. allshn., sem mestan sinn aldur hefir verið bæjarfógeti í einu slíku kauptúni, skuli ekki geta skilið þetta, því að jeg er sannfærður um, að hann getur ekki hugsað, að það komi til mála, að sá kaupstaður afsali sjer þeim rjettindum, sem hann hefir fengið. Auk þess sem hann er sá eini í allshn., sem komið hefir til Norðfjarðar, og veit, að þangað sigla 4–500 skip á ári, sem þarf að taka gjöld af, að viðbættum þeim tollum og sköttum, sem þarf þar að innheimta. Hann átti því að geta skilið, að slíkt starf er ábyrgðarríkara en svo, að sanngjarnt sje að heimta það af launalitlum og valdalausum hreppstjóra. Ef háttv. allshn. hefði athugað þetta, myndi hún sannarlega hafa komið með brtt. í þá átt, að gefa hreppstjóranum í Norðfirði meira vald og gjalda honum meira kaup en hreppstjórar hafa alment. Það hefði verið tilraun til að leysa vandræðin, þó ófullnægjandi sje. En ekkert slíkt dettur hv. nefnd í hug.

Þá skaust það upp hjá hv. frsm. (EP), að frv. þetta mundi ná fram að ganga síðar, þó það ekki gangi fram að svo komnu. Það væri því tímaspurning, hvenær það næði fram að ganga. Þetta er alveg rjett. Því út úr þessu máli er engin önnur leið. Og þess mun háttv. frsm. líka vera fullkomlega meðvitandi, enda þótt hann vilji ekki fyllilega viðurkenna það nú.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að hafa þessi andmæli mín lengri. Jeg þykist vera búinn að færa fram rök fyrir því, að frv. þetta er bygt á sanngjörnum kröfum manna í Norðfirði. Jafnframt hefi jeg sýnt fram á, að rök allshn. gegn frv. eru einskis virði. Niðurstaðan verður því sú, að ef frv. verður felt, þá stafi það af venjulegri tregðu löggjafarvaldsins um að verða við rjettmætum kröfum um þetta efni, sem oft hefir komið í ljós áður undir svipuðum kringumstæðum. Við því er ekki mikið að segja fyrir mig, jeg mun verða að hafa það eins, og annað hundsbit, en þess er jeg fullviss, að þetta mál gengur fram á Alþingi áður langt líður.