27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Nál. og ræða hv. frsm. fyrri hlutans (ÞórJ) gefur mjer ekki tilefni til margra eða mikilla athugasemda að svo stöddu. Get jeg tekið undir það, sem hv. frsm. sagði, að sjerhver stjórn ætti að gera fjárhag ríkisins að einu sínu aðalmáli og standa og falla með honum. Og jeg skoða þetta, eins og hv. frsm. sagði, ekki borið fram svo sem neina sjerstaka áminningu til núverandi stjórnar, enda held jeg, að hún fram að þessu hafi sýnt það, að hún hafi fylgt þessari reglu; en það er náttúrlega gott að heyra orð þessi öðruhvoru, og gætu þau þá sjerstaklega verið til áminningar fyrir þá stjórn, sem næst kynni við að taka. Það var líka rjett, að afkoma fjárhagsins, eða tekjuhlið fjárlaganna, sem hv. frsm. lagði sjerstaka áherslu á, er mjög undir því komin, að vel sje vandað til undirbúnings fjárlaganna. Það er sjálfsagt rjettmæt krafa til hverrar stjórnar, að þetta sje gert eftir því sem frekast er unt; en jeg vil benda á það, að eftir því sem löggjöfinni nú er háttað, er sjerhverri stjórn í rauninni gert ómögulegt að koma við sæmilega vönduðum undirbúningi á þessu sviði. Það er nú svo, þegar á að semja frv. til fjárlaga fyrir árið 1927, þá verður stjórnin að gera það í nóvember 1925, og hún getur þá ekki einu sinni haft reynslu ársins 1925 til að byggja á. Það seinasta, sem hún getur haft fyrir sjer, er reynslan frá árinu 1924, sem liggur þrem árum á undan því tímabili, sem verið er að gera áætlun fyrir, og vona jeg, að allir sjái það, að með þeim óvanalega stóru sveiflum, sem eru á okkar atvinnulífi, er ekki hægt að draga neinar ábyggilegar ályktanir af reynslunni, þegar þær eiga að gilda þrjú ár fram í tímann. Það hefir einu sinni komið til orða hjer á þingi að gera lagfæringu á þessu, sem myndi hafa gefið stjórninni talsvert betri aðstöðu í þessu efni, sem sje með því að færa til reikningsárið, eins og á sjer stað í mjög mörgum öðrum ríkjum, og láta ekki reikningsárið fylgja almanaksárinu, heldur reikna frá vori til vors. Ef svo hefði verið gert, þá væri nú verið að semja fjárlög, sem ættu að ganga í gildi eftir 1–2 mánuði, og þá væri nokkuð hægra að dæma um útlitið fyrir því, hvernig tekjur ríkissjóðs myndu reynast á því tímabili, sem verið er að tala um; en nú er það svo að ekki einu sinni 3–4 mánuðum eftir að stjfrv. þurfti að vera samið geta menn gert sjer grein fyrir, hvernig ástandið muni verða á því tímabili, sem samið er fyrir. Það eina, sem hægt er að gera, er að fara eins varlega og hægt er, og þetta verður þingið og stjórnin að vera samtaka um, á meðan löggjöfinni er eins háttað í þessu efni og nú er. Það er ekki að öllu leyti rjett, sem hv. frsm. sagði, að stjórnin hefði betri aðstöðu til þess að undirbúa tekjuhlið fjárlaganna heldur en fjvn.; fyrst og fremst er nú það, að fjvn. hefir áætlun stjórnarinnar til að byggja á og hana til að gera sínar athugasemdir við, og þar að auki liggja fyrir á þeim tíma, sem nefndin situr, nýjar upplýsingar, sem eru bráðabirgðayfirlit yfir útkomu næsta árs á undan, sem ekki var til þegar stjórnin samdi sitt frv. Það er því ekki nema eðlilegt, að fjvn. hefir altaf nokkurn grundvöll til að byggja breytingar sínar á frá því, sem stjórnin leggur til, nefnilega þann grundvöll, sem afkoma næsta árs á undan gefur ástæður fyrir. Nefndin hefir nú að þessu sinni lagt til, að tekjuáætlunin verði hækkuð samtals um 310 þús. kr., og skiftir þessari hækkun á tekjuliði. Já, það er áhaflega erfitt bæði að rökstyðja þessar till. og eins að hnekkja þeim, af því að í raun og veru eru þetta spádómar um afkomu á árinu 1927, sem enginn getur vitað neitt verulega um, hversu rætast muni. Jeg á ákaflega bágt með að leggjast fast á móti þessum hækkunartillögum hv. nefndar, af því að það fylgja þeim þau skilaboð frá nefndinni, sem hv. frsm. flutti, að með samkomulagi um þessa hækkun ætlaði háttv. nefnd að standa saman gegn öllum öðrum hækkunum. Slíkur samhugur, sem liggur í samtökum fjvn. Nd., er svo mikils virði, að jeg verð að telja það mjög varhugavert fyrir hverja stjórn sem er, að gera nokkuð það, sem kynni að verða til þess að sundra þeirri einingu innan nefndarinnar, og ætla jeg þess vegna ekki að leggjast fast á móti þeim, en jeg verð þó að láta það álit mitt í ljós, að ekki hafi fram komið nægileg rök fyrir þeim. Að því er útflutningsgjaldið snertir, hefir það verið áætlað 700 þús. kr. á ári, en nokkur hluti þess, sem svarar upp og ofan 2/3 hlutum þess, hefir verið hækkaður um 50% með lögum frá síðasta ári, og sú hækkun á að koma fram nú, þegar það er fært upp í 1 milj. hr. Er það þá nokkuð meira en það, sem beint leiðir af hinni breyttu löggjöf, ef afkoma síðasta árs er lögð til grundvallar. Það er þó satt, að afkoman hefir verið nokkuð betri en áætlað var, en krónurnar hafa verið smærri, og þess vegna nokkuð fleiri, og gengishækkun kemur mjög fljótt fram í krónutölu þess verðs, sem fæst fyrir útfluttar afurðir, og ef nú krónutalan er lækkuð í hlutfalli við orðna gengishækkun, þá nær maður ekki upphæð nefndarinnar. Nú, hitt er ómögulegt að segja um, hvort muni gefa rjettari raun, 950 þús. eða 1 milj. kr.

Þá er hækkun á áfengistollinum. Það er lagt til, að tollurinn hækki um 50 þús. kr. og tekjur verslunarinnar um 125 þús. kr. Jeg skal játa það um þessa hækkun, að nefndin hefir nokkra stoð í reynslunni fyrir árið 1925, sem ekki var fyrir hendi þegar stjfrv. var samið, en jeg er samt hræddur um, að þessar hækkanir sjeu ekki nægilega gætilegar, og jeg byggi það á því, að það er meira en bindindisstarfsemin, sem ræður því, hve mikið er flutt inn af vínum verslunarinnar. Það er líka árferðið og það, hve mikla peninga almenningur hefir á milli handa, og þessar tekjur minka mjög fljótt, þegar harðnar í ári. Þess vegna hefði jeg ekki talið gætilegt að taka mikið tillit til þess, sem aflast hefði á árinu 1925 umfram það, sem varð 1924. Jeg hugsa, að árið 1924 á þessu sviði hafi verið svo sæmilegt ár, að við megum eiginlega ekki búast við miklum tekjum umfram það, sem þá reyndist.

Um hina tvo liðina, sem eftir eru, tóbakstollinn og annað aðflutningsgjald,er það að segja, að það er náttúrlega ennþá minna á að byggja um tóbakstollinn, því að það er nú eiginlega ekki hægt að reikna hann eftir neinni reynslu. Það er ný tilhögun, sem nú er upp tekin, og það kann vel að vera, að sú upphæð náist, sem nefndin hefir áætlað. Þetta fer líka nokkuð eftir árferðinu, hvað notað er af þeirri vöru, þó að tóbaksnotkun sje ekki nærri því eins mikið háð sveiflum í árferðinu eins og áfengisnautn. Þá er liðurinn „annað aðflutningsgjald“ hækkaður úr 115 þús. kr. upp í 150 þús. kr. Þessar 150 þús. kr. eru sem næst meðaltali þessara tekna fyrir árin 1924 og 1925. Þetta eru óþarfavörur eða munaðarvörur, og jeg er ákaflega hræddur um, að þegar þrengist í ári, eins og nú lítur út fyrir, þá muni innflutningur á þeim vörum minka, og það getur svo farið, að ekki náist upphæð nefndarinnar. Mjer finst, sem sagt, ekki vera hægt að færa full rök fyrir þessari hækkun, en vil gjarnan halda góðu samkomulagi við hv. nefnd, og breyti því ekki tekjuáætluninni, að óbreyttri löggjöfinni, og ætla þess vegna ekki að leggjast neitt fast á móti þessum tillögum.