24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1901)

24. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Ingvar Pálmason:

Jeg verð nú að segja, að mjer fundust þessar síðari röksemdir hv. frsm. (EP) lítið taka hinum þeim fyrri fram. (EP: þetta má altaf segja). Hv. frsm. (EP) byrjaði á því að vita mig fyrir, að jeg hefði ekki lesið alt nál., og dró það af því, að jeg hefði ekki minst á mikilvægt atriði í því. Þetta mikilvæga atriði, sem hann kallar, mun vera það, sem drepið er á í nál., að það geti verið til hagsmuna og nokkurra þæginda fyrir Norðfirðinga að fá kaupstaðarrjettindi, ef þeir reyndust hepnir með bæjarfógeta. Að jeg ekki drap á þetta atriði áður, var beinlínis af hlífð við nefndina, því að það er ótvírætt gefið í skyn, fyrst og fremst með þessum ummælum í nál., og jafnframt hefir háttv. frsm. látið ótvíræð ummæli falla í þá átt, að í lögfræðingastjett væri það úrhrak, að hending ein væri að fá almennilegan mann í þetta embætti. Mjer fanst ástæða til að láta þetta liggja á milli hluta, en hv. frsm. (EP) virðist ekki með nokkru móti vilja það, og þá er mjer sama, en jeg ber það traust til lögfræðingastjettarinnar, að þar megi finna mjög marga nýta menn, og sje því engin tilviljun að fá hæfan mann í þessa stöðu.

Þá kom háttv. frsm. að tekjunum og taldi það aðalatriði frá hálfu ríkissjóðs, að þær innheimtust og fengjust með skilum. Hitt kæmi málinu ekkert við, hver eða hverjir innheimtu. Þetta verð jeg að telja vafasama fullyrðingu. Löggjafarvaldið getur ekki látið sjer standa á sama um, hvort sá vinnur störf sín, sem ber að gera það og tekur laun fyrir, eða annar verður að inna þau af hendi endurgjaldslaust. Nei, þegar við Norðfirðingar gjöldum til ríkissjóðs 300 þús. kr., þá eigum við heimtingu á skyldum frá honum, svo sem nægilegri lögreglustjórn. Annars væri gaman, ef háttv. nefnd vildi leggja fram skýrslur um tekjur ríkissjóðs frá Akranesi, svona bara til samanburðar. Jeg hygg, að þær þyldu lítinn samanburð við Norðfjörð. Nei, því verður tæplega neitað, að Norðfjörður er drýgsta mjólkurkýrin fyrir ríkissjóð, af öllum hreppum landsins, fyrir utan kaupstaðina.

Þessar röksemdir, sem fram hafa verið bornar nú að nýju gegn frv., eru síst betri en hinar fyrri. Þær hefðu áreiðanlega mátt vera ófærðar.

Þá hjelt hv. frsm. því fram, að þar sem Norðfjörður hefði verið í uppgangi hin síðustu ár, þá hefði það ekki staðið honum fyrir þrifum, að hafa ekki kaupstaðarrjettindi. Þetta held jeg, að sje erfitt að sanna, en hitt má fullyrða, að þrátt fyrir það, að hann hafði ekki þau rjettindi, þá hafi hann getað blómgast. En hann hefði áreiðanlega blómgast betur, hefði hann haft rjettindin. Það var gott, að hv. frsm. (EP) tók dæmi af Seyðisfirði. Það getur enginn mótmælt því, að ef Seyðisfjörður hefði ekki fengið kaupstaðarrjettindi á þeim tíma, er hann hlaut þau, þá væri hann ver staddur en hann er nú. Jeg sje nú ekki annað en að miklar líkur sjeu til þess, að hið sama gildi einnig um Norðfjörð.

Endaði svo hv. frsm. ræðu sína með svipuðurn orðum og fyrri ræðuna, að hann hefði það á tilfinningunni, að Norðfjörður fengi síðar þessi rjettindi. Jeg vil sjá, sagði hann, hvort kaupstaðurinn muni ekki halda áfram að vaxa í framtíðinni, og þá verður ekki hægt að spyrna broddunum móti kaupstaðarrjettindum hans.

Jeg sje nú ekki annað en að við sjeum í þessari hv. deild annarsvegar að viðurkenna sanngjarna rjettarbót, en svo hinsvegar að neita henni. Hv. frsm. (EP) komst um eitt skeið í ræðu sinni inn á samfærslu embætta. Það getur vel verið, að eitthvað megi færa saman, en það hefir gengið illa hingað til. Jeg held, þótt jeg hafi ekki vit á því, að það gangi illa, með þeirri stefnu, sem nú er í tollmálum þjóðarinnar, að fækka tollþjónum og minka lögreglueftirlitið. Hinsvegar gæti komið til mála, ef lögregluvald og dómsvald yrði aðskilið, að fækka mætti dómurum, en lögreglueftirlit og tollgæsla mun tæplega mega minka frá því sem er, þarf miklu fremur að aukast, ef tollskipunin verður framvegis í því horfi, sem hún nú er.

Jeg læt nú sitja við það, sem jeg hefi þegar sagt í þessu máli, og vona, að hv. deild liti sanngjarnari augum á þetta mál en hv. allshn.