24.03.1926
Efri deild: 36. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í C-deild Alþingistíðinda. (1902)

24. mál, bæjarstjórn á Norðfirði

Frsm. (Eggert Pálsson):

Jeg skal ekki fara að þræta um þetta mál frekar, en það er aðeins ein athugasemd við það, sem hv. þm. (IP) sagði. Hann virtist hneykslast á því, að jeg sagði, að ef Norðfjörður hjeldi áfram að vaxa, þá yrði ekki hægt að spyrna á móti broddunum eða neita honum um kaupstaðarrjettindi, og setti það í samband við Seyðisfjörð.

Jeg vil nú segja það, að við sjeum ekki færir um að sjá fram í tímann, hvernig þetta muni ráðast. En jeg geri ráð fyrir því, að ef svipaðar aðstæður verða á Austurlandi framvegis, og verið hafa, þá geti farið svo, að kaupstaður þessi stækki, en það byggist þó vitanlega aldrei á öðru en sjónum eða sjávaraflanum. En það er engin áreiðanleg vissa fyrir því, að afli geti ekki brugðist þar. En fari svo, að aflinn bregðist, verður vitanlega Norðfjörður að draga saman seglin eins og sjerhvert sjávarþorp annað, sem svo fer fyrir.

Háttv. flm. (IP) hjelt því fram, að kaupstaðarrjettindin myndu hafa í för með sjer blómgun og þróun Norðfjarðar, hverjar sem ytri aðstæðurnar yrðu. Þetta held jeg að sje ekki allskostarrjett, enda má sýna fram á með skýru dæmi, að svo er ekki, því að eftir að Siglufjörður fjekk þessi rjettindi, hætti honum að fara fram. En áður en hann fjekk þessi rjettindi, hafði hann blómgast, vitanlega af því, að hinar ytri kringumstæður voru þá góðar. En svo, nokkru eftir að hann fjekk rjettindin, kom aflahnekkir, og þá hætti hann að blómgast. Það getur vel farið svo, að Norðfjörður blómgist, en hann getur líka rýrnað.

Jeg finn svo eigi ástæðu til að þræta meir um þetta. Nefndin hefir lagt fram í nál. sínu skoðun sína og leggur þetta mál annars á vald þessarar hv. deildar. Vitanlega ber nefndin ekki ábyrgð á því, sem jeg hefi hjer sagt, þótt jeg hinsvegar voni, að orð mín hafi ekki komið að neinu leyti í bága við skoðun hennar á þessu máli. Legg jeg því málið í hendur hv. deildar, og verður hún sjálf að bera ábyrgð á því, hvernig fer um það.