27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 50 í C-deild Alþingistíðinda. (1908)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hv. frsm. meiri hl. (JK) hefir nú skýrt, hvernig í því liggur, að brtt. mín á þskj. 195 er fram komin. Þegar frv. var samið, voru tekin upp í það öll þau gjöld, sem hugsanlegt er, að Reykjavík þyrfti að innheimta hjá skipum, meðal annars fyrir skemdir á hafnarvirkjunum, en eins og hv. frsm. meiri hl. (JK) tók fram, taldi hafnarstjóri það aukaatriði fyrir sjer, því að venjan er sú, að þau skip, sem gera skemdirnar, hafa vátryggingafjelög á bak við sig, sem greiða skaðabætur. Hitt álítur hafnarstjóri að sje mikilsvert, að hafnarsjóður fái lögveð fyrir hinum beinu hafnargjöldum, því að komið hefir það fyrir, að Reykjavíkurhöfn hefir tapað á því að láta hjá líða að innheimta gjöldin, þ. e. a. s. kyrsetja skipin þangað til gjöldin væru greidd. Þetta er ekki eingöngu fyrir hafnarsjóð gert, heldur er það líka til hægðarauka fyrir útgerðarmenn.

Brtt. mín á þskj. 195 færir nú frv. í það horf, sem mjer skilst, að meiri hl. allshn. hafi fallist á. Vil jeg þá vænta þess, að hv. deild samþykki hana. Jeg hefi að vísu ekki borið mig saman við hv. meðflutningsmenn mína (JakM og MJ), en jeg hugsa, að þeir vilji fara eftir áliti hafnarstjóra um þetta.