27.03.1926
Neðri deild: 42. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 51 í C-deild Alþingistíðinda. (1909)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki bregða fæti fyrir þetta mál að sinni, en jeg vil mælast til þess, að hv. allshn. athugi fyrir 3. umr., hvort ekki muni athugavert að veita það lögveð, sem um er að ræða í frv., einkum vegna þess, að löggjöfin um sjóveð í skipum er eins á öllum Norðurlöndum, og stefnan er sú, að þannig verði meðal allra þjóða.

Út af þeirri skoðun hv. 2. þm. Reykv. (JBald), að betra gæti verið að lofa skipunum að fara út, gegn því að hafnarsjóður eigi lögveð í skipunum, vil jeg geta þess, að jeg tel mjög athugavert að hrúga á skip lögveðum, enda hefir þetta aðeins þýðingu fyrir íslensk skip, því að ef erlendum skipum er slept, verður að sækja þau erlendis, og þá er sjóveðið lítils virði, en jeg vil, að það komi greinilega fram, að ekki sje meiningin, að skip sjeu liðin um hafnargjöld í því trausti, að lögveð sje fyrir þeim. Slíkt mundi spilla fyrir lánum út á skip, og stefnan gengur í alla staði í þá átt, að takmarka þessi lögveð. þetta vildi jeg biðja hv. allshn. að athuga fyrir 3. umr. og eins hvort samskonar lögveð og frv. ráðgerir muni þekkjast á Norðurlöndum. Jeg hygg, að svo muni ekki vera.