01.05.1926
Efri deild: 64. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 750 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Það er að mestu leyti búið að svara háttv. 3. landsk. (JJ) út af því, sem hann sagði um sendiherramálið. Bæði hæstv. atvrh. (MG) og háttv. 1. landsk. (SE) hafa sýnt fram á, að ekki verði hjá því komist að senda mann í þessum erindum til Kaupmannahafnar.

Hv. 3. landsk. var með ýmsar fullyrðingar, sem jeg get ekki sjeð, að eigi sjer nokkurn stað. Hann talaði fyrst um, að sendimaðurinn hefði fengið einhverjar bætur fyrir húsakaup. Og síðan talaði hann um, að það hefði verið rangt að selja sendiherrabústaðinn. Hjer kennir því hins mesta misskilnings. Húsið, sem selt var, var fullkomin einkaeign sendiherrans, en ekki ríkissjóðs. Bætur þær, sem hann fjekk fyrir að hafa keypt húsið á hinum dýrustu tímum, en selt það aftur þegar alt var farið að falla í verði, voru eiginlega viðurkenning til mannsins sjálfs. Hús það, er hjer var um að ræða, er ekki í Kaupmannahöfn sjálfri, og hefði aldrei komið til mála að hafa það fyrir sendisveitina, skrifstofur o. s. frv. Þær verða að vera á góðum stað í borginni sjálfri. Það er ekki nauðsynlegt að kaupa hús, hvorki fyrir skrifstofur nje handa sendiherranum sjálfum. Það má vel komast af með að leigja. Að minsta kosti mun sendimaður Ameríku í Kaupmannahöfn búa í leigubústað. Ættum við því að geta komist af með það líka fyrir okkar sendimann.

Þá hefir því verið haldið fram sem ástæðu gegn fjárveitingu þessari, að ekki muni hægt að fá betri mann í þessa stöðu en Jón Krabbe, sem nú gegnir henni. Engum er það ljúfara en mjer að viðurkenna, hve afarmikið og gott starf Jón Krabbe hefir unnið fyrir oss einnig í þeirri stöðu. En hann er ekki beint íslenskur þegn, þótt hann sje íslenskur í móðurætt. Og það hefir í þessu efni nokkra þýðing.

Annars þýðir ekkert um það að ræða. Hann hefir tilkynt það, að hann treysti sjer ekki til þess að gegna þessu starfi öllu lengur, enda tók hann það fram í fyrstu, að hann mundi gera það aðeins um stund, meðan fjárhagur ríkissjóðs væri þröngur.

Þegar nú þess er gætt, að hann gegnir starfi þessu fyrir ekki neitt, eða sama sem ekki neitt, hvernig getum við þá heimtað af honum, að hann haldi áfram, þegar það er vitað, að hann er svo hlaðinn öðrum störfum, að miklu fyrir oss, að ærið nóg er fyrir hvern mann, og jafnframt svo störfum hlaðinn, að hann með engu móti telur sig geta gegnt því lengur? Um þetta alt hlýtur hv. 3. landsk. að vera kunnugt, því að skírteini fyrir þessu hafa verið lögð fyrir fjvn. í vetur.

Þá var þessi hv. þm. að tala um, að eitthvað sjerstakt lægi bak við þetta. Bak við þetta liggur ekkert annað en það, sem öllum er kunnugt. Á þinginu 1924, þegar verið var að ræða um að leggja embætti þetta niður, þá sagði jeg strax, að jeg teldi það ótækt, en gæti sætt mig í bili við það fyrirkomulag, sem nú er, og þá sjerstaklega af því, að völ var á Jóni Krabbe til þess að gegna þessum störfum. Varð það því úr, að lögin voru látin standa. Hefir það þannig frá upphafi verið haft fyrir augum, að hvenær sem hægt væri vegna fjárhagsins, yrði sendur maður til Kaupmannahafnar aftur. Og nú er svo komið fjárhag okkar, að við getum það. Um þetta hlýtur hv. 3. landsk. að vera mjer samdóma, eftir tillögum hans að dæma, því að þær sýna ekki annað en hann hljóti að telja fjárhaginn mjög góðan.

Í fyrra þegar hv. þm. Dal. (BJ) kom með till. um að endurreisa sendiherraembættið, fylgdi jeg þeim eftir megni. Er því ekki nema eðlilegt, að jeg fylgi enn fram þeirri skoðun, sem jeg hefi fylgt um mörg þing. Þetta mál horfði þó dálítið öðruvísi við í fyrra, því að þá var ekki komin yfirlýsingin frá Krabbe, um að hann gæti ekki gegnt störfum þessum, en nú er hún komin, og það gerir stóran mismun.

Jeg get alveg fallist á þá skoðun háttv. þm. Dal., að það sje ekki einungis vegna sóma landsins, að nauðsynlegt sje að hafa íslenskan sendiherra í Kaupmannahöfn, heldur geti það orðið beinn fjárhagslegur hagur og ómetanlegt gagn í samningum við aðrar þjóðir, eins og t. d. sýndi sig í kjöttollsmálinu.

Jeg held, að sjálfs sín vegna gerði hv. 3. landsk. rjettast að vera ekki að spyrna á móti þessu. Augu þjóðarinnar eru altaf meir og meir að opnast fyrir þeirri gagnsemi, sem við getum haft af því að hafa einn reglulegan sendiherra í útlöndum. Að þessu leyti hafa hugir manna mjög breyst síðan 1923.

Þá var það dálítið spaugilegt, þegar þessi hv. þm. var að tala um, að stjórnin hefði fengið vantraust í hv. Nd. í fyrra. Jeg óska gjarnan, að hann vildi upplýsa það nánar, hvenær stjórnin hefði fengið slíka vantraustsyfirlýsingu, og þá út af hverju sjerstaklega. Jeg kannast ekkert við það; þó held jeg, að jeg hefði munað slíkan atburð.

Þá ber hv. 1. landsk. (SE) fram brtt. um að auka skrifstofufje sýslumannanna. Jeg skal ekki mótmæla því, að hún verði samþykt, en segja sögu þessa máls eins og hún hefir gengið til hjer í þinginu.

Jeg sje ekki, hvaða þýðingu það hefir í þessu sambandi af háttv. 1. landsk. að vera að tala um tekjur, sem sýslumennirnir hefðu átt, en verið sviftir. Hefðu þeir átt þessar tekjur qua embættistekjur samkvæmt lagaheimild, gat þingið ekki tekið þær af þeim. Þetta er því misskilningur. Þeir áttu rjett til að fá 10 aura gjaldið af fiskiskipum, og það hafa þeir haft og hafa enn. En önnur skipagjöld hafa átt að renna beint í ríkissjóðinn.

Hvað snertir skrifstofukostnað sýslumanna og lögreglustjóra, þá hefir hann altaf verið ákveðinn af stjórninni. Eina undantekningin frá þessu er með lögreglustjórann og bæjarfógetann í Reykjavík. Þeir embættismenn hafa sjerstöðu, bygða á lögum um embættin. Hefir þingið sjálft því fjallað um skrifstofukostnað þeirra og ákveðið beinlínis og óbeinlínis laun starfsmannanna. Þetta hefir af misskilningi vakið óánægju hjá sýslumönnunum; þeir hafa ekki athugað nægilega, að hjer er sagt öðruvísi fyrir um í lögum.

Skrifstofufje sýslumannanna var ákveðið á þann hátt, að þegar eftir að launalögin gengu í gildi voru þeir látnir segja um, hve mikið skrifstofufje þeir myndu þurfa. Þetta gerðu þeir. En reikningar þeirra voru svo mjög misjafnir, að við samanburð þeirra kom í ljós, að þeir mátu þessi störf mjög mismunandi. Þannig taldi sýslumaðurinn í Ísafjarðarsýslu, sem jafnframt er bæjarfógeti á Ísafirði, sig þurfa full 18 þús. kr. Honum voru svo ákveðnar 13 þús. kr. En síðar kom reikningur frá honum upp á 12 þús. kr., og það var það, sem hann notaði.

Annað dæmi má nefna, og það er af sýslumanninum í Strandasýslu. Hann telur sig þurfa um 5000 kr., þar sem sýslumaðurinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu taldi sig þurfa miklu minna en sýslumaðurinn í Strandasýslu. Sýslumaður Strandasýslu kom þó með reikning, sem alls ekki var ósennilegur. En sýslumaðurinn í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu kom með reikning, sem var alveg ágætur.

Jeg nefni þessi dæmi til þess að sýna fram á, að það er ekki hægt að fara eftir þeim tölum, sem hinir ýmsu embættismenn gefa upp. Í byrjun var því reynt að fara eftir því, sem rjettast þótti, en auðvitað verður þetta mat ekki svo nákvæmt, að ekki kunni að víkja frá fullri sanngirni og samræmi.

Úr því að hjer er um mat að ræða á þessum kostnaði, og það er svo eftir lögunum, þá verður ekki hjá því komist að hafa skrifstofufjeð nokkuð svipað í þeim sýslum, sem svipaðar eru að mannfjölda, erfiðleika o. s. frv., dýrleika á staðnum m. m. Á hinn bóginn getur það verið misjafnt, hvað hver embættismaður kemst af með undir líkum kringumstæðum, en til þessa er örðugt að taka fult tillit.

Upphæð sú, sem þá var úthlutað til þessa skrifstofukostnaðar var um 80 þús. kr. En þegar hv. 1. landsk. varð forsrh., var hún komin niður í 61 þús. kr. Og næsta ár þar á eftir var hún fallin niður í 56 þús. og í fjárlögunum fyrir 1924 fer hann ekki fram á nema 42 þús. til þessa.

Þegar svo núverandi stjórn tók við, fjekk hún upphæð þessa hækkaða um 100%. Var það því mikil bót, en eigi að síður of lítil. Nú komu fulltrúar sýslumannanna og töluðu um þetta við fjvn. Nd. og hún aftur við mig. Reyndum við svo að athuga málið og komumst að þeirri niðurstöðu, að ekki myndi fjarri lagi að bæta við 8 þús. kr., sem var um helmingur af þeirri upphæð, sem sýslumennirnir fóru fram á. Jeg skal ekki segja, að hitt hafi verið alveg á það rjetta, en hjer er um áætlunarupphæð að ræða. Jeg ætla að sæmilega sje aukið skrifstofufjeð með þessari viðbót. Á hinn bóginn mun jeg reyna að hafa vakandi auga á þessu máli og bæta upp enn þar, sem jeg tel fulla þörf.

Þessi kostnaður er altaf að aukast og á enn fyrir sjer að aukast, og hv. þm. getur ekki sagt, að störfin hafi aukist að sama skapi. Það sýnir sig, að sumir sýslumenn geta komist af með miklu minna en aðrir, sem líkt stendur á um, telja sig þurfa. Sýslumaður Snæfellsnessýslu gerir reikning fyrir rúmum 4 þús. kr., sem jeg geri ráð fyrir, að hann fái. Sýslumaður Skaftafellssýslu segist ekki þurfa meira en hann hefir nú, og er þar þó mikið að gera eins og hv. þm. veit. Ef hv. deild vill veita 100 þús. kr., þá er það gott og vel; það munar ekki mikið um 6–8 þús. kr. Það hefir verið reynt að taka sanngjarnlegt tillit til krafna sýslumanna og bæjarfógeta, og mörgum þeirra mun verða fullnægt, með 92 þús. kr. alls. Jeg hefi reynt að halda hlutfallinu frá því fyrsta yfirleitt eins og hv. 1. landsk.

Háttv. þm. A.-Húnv. (GuðmÓ) var að tala um misrjetti í þessu sambandi. Jeg veit ekki, við hvað hann hefir átt. Hafi hann átt við skrifstofukostnaðinn í Húnavatnssýslu, þá vil jeg vísa því á bug. Hækkunin þar er alveg hlutfallsleg, en kröfurnar frá sýslumanninum í Húnavatnssýslu hafa verið hlutfallslega háar.

Þannig var það t. d., er spurt var 1920, þá kvaðst sýslumaðurinn í Húnavatnssýslu þurfa um 4600 kr., en sýslumaðurinn í Skagafjarðarsýslu aðeins um 2700 kr., og þó mundi mega ætla, að þær sýslur væru nokkuð svipaðar að þessu leyti. Kostnaðurinn var 2000 kr., en er nú 3000 kr. Mjer dettur ekki í hug, að þessir embættismenn noti neitt af skrifstofufjenu handa sjálfum sjer, en það er ekki nema eðlilegt, að þeir vilji heldur hafa það í rífara lagi. Aftur á móti finst mjer þing og stjórn verða heldur að halda í.