31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í C-deild Alþingistíðinda. (1919)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Atvinnumálaráðherra, (MG):

Jeg hreyfði því við 2. umr. þessa máls, hvort hv. nefnd vildi ekki athuga, hvort samskonar ákvæði og þessi ættu sjer stað í öðrum löndum. Jeg hefi lítinn tíma haft til þess að grenslast eftir þessu sjálfur, en þó hefi jeg komist að raun um, að ekki muni vera hliðstæð dæmi annarsstaðar. Tel jeg því mjög vafasamt að samþykkja þetta, þar sem reglur um lögveð í skipum eru alþjóðlegar og í okkar sjólögum eru nákvæmar reglur settar, þær sömu og eru fyrir öll Norðurlönd. En ef sú venja verður tekin upp að safna saman þessum gjöldum, verður að til þess að rýra veð í skipum, og bankarnir mundu þá síður vilja lána út á þau. Í frv. er ekkert tekið fram um, hvar í röðinni þetta lögveð eigi að vera. Þau ganga eftir vissum reglum, t. d. gengur mannakaup á undan öðrum lögveðum. En það er sem sagt ekkert tekið fram um þetta í frv.