31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 58 í C-deild Alþingistíðinda. (1923)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pjetur Ottesen:

Jeg tel óþarfa að karpa meira um þetta. Jeg lít svo á, að sje þetta ekki athugunarvert gagnvart útlendum skipum, þá sje það líka einskisvirði fyrir Reykjavík. Út frá því, sem hv. 2. þm. Reykv. (JBald) sagði, að þetta kæmi hart niður á bátunum, vil jeg taka það fram, að það kemur aðeins hart niður á bátum, sem ekki borga. Það stendur í greinargerð frv., að Reykjavík hafi tapað vegna þess, að hún hafi ekki beitt haldsrjetti sínum. Jeg hefi nú við höndina yfirlýsingu frá hv. þm. Ísaf. (SigurjJ), sem um eitt skeið var gjaldkeri hafnarinnar hjer, að engin töp hafi orðið í hans tíð á hafnargjöldum. Og núverandi gjaldkeri, Sigurður Þorsteinsson, segir, að það sje rangt, að höfnin hafi tapað vegna þess, að fallið hafi niður greiðslur fyrir báta. Hefir því ekki þurft á haldsrjettinum að halda, og jeg er ekki hræddur um, að þess muni þurfa, því að bátunum hefir ekkert farið aftur með að standa í skilum með gjöld sín, og jeg álít, að óhætt sje með báta, sem hjer eru daglegir gestir, þótt greiðsla fjelli niður eitt skifti, því að það mætti innheimta hana daginn eftir.