31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 59 í C-deild Alþingistíðinda. (1924)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. meiri hl. (Jón Kjartansson):

Það er alveg óþarfi að vera að þrátta meira um þetta mál, en jeg vil þó enn leiðrjetta þann misskilning, sem fram hefir komið, að óþarft sje að samþykkja frv. vegna þess, að hafnarsjóður hafi ekki tapað enn neinu. Hann hefir einmitt nýlega tapað gjaldi af 2 bátum, að mig minnir, sem urðu gjaldþrota. Og þetta tap var því að kenna, að hann neytti ekki haldsrjettarins. Þess vegna held jeg, að ef Reykjavík yrði synjað um þessa rjettarbót, þá yrði hafnarstjórn strangari í þessum efnum og mundi leita haldsrjettarins. Annars legg jeg ekki kapp á, að þetta frv. verði að lögum. Hafnarstjóri hefir líka sagt, að fáist ekki þessi rjettarbót tekin í lög, þá verði hann að neyta þess rjettar, sem hafnarsjóður nú hefir, en hvort það yrði affarasælla fyrir viðskiftamenn hafnarinnr, skal ósagt látið.