31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 60 í C-deild Alþingistíðinda. (1925)

52. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Frsm. minni hl. (Jón Baldvinsson):

Hæstv. atvinnumálaráðh. (MG) sagði, að af minni ræðu væri það ljóst, að ekki þyrfti að samþykkja frv. vegna neinna aðilja. Þetta er útúrsnúningur, því að þótt jeg segði, að hafnarstjóri og hafnarnefnd gætu á annan hátt náð þessu gjaldi en með haldsrjetti, þá er vitanlegt, að þeir vilja haga sjer sem viturlegast og lipurlegast, til þess að sú innheimta geti farið sem best úr hendi. Þess vegna eru það þægindi fyrir höfnina að fá þessi lög. En þau eru ekki sett til þess að fyrirbyggja, að höfnin tapi gjöldum, þess þau ekki, því að hafnarstjóri getur beitt lögum til þess að ná þeim inn. En það er hins vegar gert vegna viðskiftamannanna, að fá þennan viðauka tekinn í lög.

Jeg er á sama máli og hæstv. atvrh. (MG) um það, að þessi gjöld sjeu vanalega lítil og þess vegna ekki vont að ná þeim inn, en það getur staðið svo á, að menn eigi erfitt með að ná í þessar krónur. (MJ: Um miðja nótt t. d.). Jeg býst við því, að ef t. d. bátur frá Sauðárkróki væri hjer og þyrfti nauðsynlega að sigla fyrir fótaferðatímann, að formaðurinn myndi kinoka sjer við að fara að lemja upp á hjá ráðherranum, til þess að fá einar 25 kr. (MG: Nei, nei). Jeg býst við, að hann vildi bíða til kl. 10 að morgni, að ráðh. væri kominn í Stjórnarráðið (MJ: Þeir hafa misskilið frv. Lofum þeim að drepa það). Mjer skildist, að hv. þm. Borgf. (P. O.) hafi neitað því, að bærinn hafi tapað. Það er nú áreiðanlega víst, að höfnin hefir tapað, en hafnarstjórn vill koma í veg fyrir, að höfnin tapi, einmitt með þessum lögum, og hann vill láta vera að gera viðskiftamönnum sínum harðræði samkvæmt núgildandi lögum. Annars var hv. þm. Borgf. (PO) að linast; hann sagði, að það mætti innheimta daginn eftir, ef bátar hefðu farið án þess að borga. Það er nú alls ekki víst, að hann komi daginn eftir, a. m. k. er ólíklegt, að bátur, sem kemur að næturlagi, komi næsta dag. Auk þess getur það komið fyrir, að bátur verði gjaldþrota, skipverjar eigi lögveð í honum, svo að gjöld hans til hafnarinnar komist alls ekki að.